22.04.1978
Neðri deild: 80. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3815 í B-deild Alþingistíðinda. (2963)

245. mál, verðlag, samkeppnishömlur og óréttmætir viðskiptahættir

Tómas Árnason:

Herra forseti. Ég vildi fyrst gera að umtalsefni nokkuð það ástand sem ríkir í verðlagsmálum og hefur raunar ríkt hjá okkur í verðlagsmálum um langan tíma, án þess að fara mjög langt út í það mál.

Það er alveg augljóst mál, að Íslendingar eru þannig á vegi staddir í þessum efnum sem þjóð eftir langvarandi ástand, að almennt verðskyn almennings er nánast ekki til, mundi ég vilja segja, það er nánast ekki til. Menn treysta á það, að hin opinbera álagningarprósenta, sem heimiluð er, sé virt og menn þurfi þess vegna ekki að íhuga svo mjög samanburð á verði í hinum ýmsu verslunum.

Ég minnist þess vel, að vinkona mín, sem var búsett í Danmörku um nokkurra ára skeið, kom hér heim og fór að versla eins og húsmæður gera. Þegar hún kom í verslunina fór hún að spyrja verslunarfólkið: Hvað kostar þetta? Hvað kostar þessi vara, og hvað kostar hin? — Og hún varð mjög átakanlega vör við það, að verslunarfólki fannst í raun og veru ónæðisamt að þurfa að svara slíkum spurningum, einfaldlega vegna þess að það er ekki vant því. Menn spyrja yfirleitt ekki mikið um það, hvað vörurnar kosti, heldur treysta menn á þessa svonefndu opinberu álagningarprósentu og verðskyn almennings slævist svo mjög, að samkeppni fær ekki notið sín í versluninni. Þetta er eitt af því sem núverandi fyrirkomulag í þessum málum veldur og er kannske hvað mestur ágalli á stöðu okkar í þessum málum eins og þau eru og hafa verið um langan tíma.

Annað atriði, sem oft hefur verið minnt á, er í sambandi við innkaup til landsins, að það borgi sig ekki fyrir verslunina að stuðla að ódýrum innkaupum vegna þess að hún búi við óumbreytanlega opinbera álagningarprósentu. Þessi tvö atriði og mörg fleiri eru lýsandi dæmi um ástandið í þessum efnum. Ég hygg að flestallir, jafnvel einnig hv. 2. þm. Austurl., muni viðurkenna að ástandið í þessum málum er langt frá því að vera viðunandi hjá okkur og það þarf breytingar.

Það hefur verið rætt nokkuð í þessum umr. um skipan verðlagsráðsins eins og gert er ráð fyrir í þessu frv. Það er ljóst nú eins og áður, að í verðlagsráðinu eru raddir og fulltrúar flestra stærstu samtaka meðal þjóðarinnar, eins og Alþýðusambandsins, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og fleiri, þannig að þar er tækifæri til þess að láta í sér heyra í þessum efnum, heyra túlkun þeirra sjónarmiða sem þar eru mest ríkjandi.

Aðalstefnan, sem kemur fram í þessu frv., felst í 8. gr., eins og hefur verið margtekið fram. Gert er ráð fyrir því, að verðlagning verði frjáls ef tiltekin skilyrði eru til staðar. Í ákvæði til bráðabirgða segir svo, með leyfi forseta:

„Þær samþykktir um hámarksálagningu, hámarksverð og aðra framkvæmd verðlagseftirlits, sem í gildi eru, þegar lög þessi taka gildi, skulu halda gildi sínu áfram, þar til verðlagsráð hefur tekið afstöðu til þeirra.“

M. ö. o.: þó að lögin taki gildi, þá heldur núverandi skipan áfram þar til verðlagsráð hefur breytt til, og það breytir ekki til nema að undangenginni mjög náinni athugun og rannsókn á ástandi markaðsins sem á að tryggja samkeppni. Það er rétt að taka fram, að komið hefur fram og kom fram í meðferð málsins hjá fjh.- og viðskn., að verslunin er ekki fyllilega ánægð með þetta fyrirkomulag. Hún er það ekki. Ég hygg, að samvinnuhreyfingin sé það, en verslunin að öðru leyti er ekki fyllilega ánægð, þó að öllum beri saman um að hér miði mjög í rétta átt.

Það er að sjálfsögðu ljóst samkv. frv., að verðlagsstofnunin verður sterk stofnun áfram og hún hefur mikið vald. Þó að miðað sé að því, að verðlagning geti orðið frjáls þegar tiltekin skilyrði eru, þá er eigi að síður verðlagsskrifstofan sterk samkv. frv. og mjög svo sjálfstæð. Einnig er rétt að taka það fram, að samkv. frv. mun ríkja sterkt verðlagseftirlit í landinn eftir sem áður, þó að verðlagning verði gefin frjáls. Það tryggir að sjálfsögðu neytendur í því efni, að ekki verði gengið á lagið og verðlag hækkað umfram það sem efni standa til.

Það, sem nýtt er í þessu frv. og ekki var í því frv., sem hér hefur verið mjög gert að umræðuefni, eru fyrst og fremst ákvæðin um neytendavernd og óréttmæta viðskiptahætti. Að öðru leyti eru frv. svipuð í öllum meginatriðum og þarf ekki að hafa um það í raun og veru mörg orð. En ég vildi aðeins gera að umræðuefni atkvgr., sem fór fram 1969, vegna þess að ég var einn af þeim þm. Framsfl. sem greiddu þá atkv. gegn frv. sem þá lá fyrir. Ég var að vísu varaþm. og kom inn í þingið sem slíkur. Ég man vel eftir því, og það var ekkert launungarmál, að Alþfl. var klofinn í málinu á þeim tíma. Hins vegar töldu menn ástæðu til að ætla að frv. yrði samþykkt, en fengu þó pata af því, að vafasamt væri að það yrði samþ. Og ég segi fyrir mína parta: Ég álít að þessi atkvgr., sem fram fór, hafi í raun og veru ekkert síður verið vantraust á þáv. ríkisstj., vegna þess að hv. 9. þm. Reykv., sem þá var viðskrh., hafði lýst því yfir að þetta væri mjög þýðingarmikið mál, og hann hefur lýst því yfir aftur í umr. hér, að þetta væri mjög þýðingarmikið mál. Þess vegna var því ekki að neita, að hann komst í nokkurn vanda er hann stóð frammi fyrir því, að þýðingarmikið mál, sem hann hafði sjálfur flutt, var fellt í þinginu.

Hv. 9. þm. Reykv. rakti nokkur dæmi um stórmál sem hefðu verið samþykkt hér á Alþ. og flokkar hefðu klofnað um, eins og t. d. um aðildina að Norður- Atlantshafsbandalaginu, Framsfl. hefði verið klofinn, en málið hefði eigi að síður gengið fram. Munurinn á meðferð þess máls og meðferð frv. frá 1969 var sá, að þá gengu málin fram, þá voru þau samþ. í þinginu, þannig að ráðh., sem þá voru í stjórninni, gátu með góðri samvisku sagt: Við höfðum þingmeirihl. á bak við þessi mál og þurfum þess vegna ekki að íhuga að segja af okkur ráðherradómi. — Aftur á móti hagaði svo til 1969, að þá féll frv., þá féll málið. Ég segi fyrir mig, að ég áleit þá og álít enn þá, — ég tala nú fyrir mig, — að sú atkvgr. hafi ekkert síður verið vantraust á ríkisstj., að fella þýðingarmikið mál sem ríkisstj. taldi vera og sérstaklega þáv. hæstv. viðskrh. Þess vegna var það, að ekki var óeðlilegt að hugsa sem svo, að viðskrh. íhugaði að segja af sér eftir að svona þýðingarmikill málaflokkur, sem hann fór sjálfur með, og þýðingarmikið mál hafði fallið, af því að hann hefði ekki lengur þingmeirihl. á bak við sig í þýðingarmiklu máli, sem hann hefði flutt í þinginu. Ég man ekki hvort hæstv. ráðh. hefur sagt það, þegar hann flutti málið, að það mundi varða afsögn. Ég geri ekki ráð fyrir því. Ég hugsa að það hafi ekki verið um það rætt þá. En það er spurning, hvort það er ekki einmitt það sem vantar í þingræði okkar og þingræðisreglur okkar, að þegar ráðh. fær ekki fram þýðingarmikið mál, sem hann flytur í þinginu, og það er fellt, — hvort hann á ekki hreinlega að segja af sér. Ég er þeirrar skoðunar, að það sé slæmt ef þingræðishefðir eins og þessi eru ekki lengur virtar hjá okkur. Þess vegna álít ég að það, sem einkenndi kannske hvað mest meðferð þessa máls á sínum tíma, hafi einmitt verið þetta: Þáv. viðskrh. flutti málið sem þýðingarmikið mál. Það var fellt í þinginu, en hann sat eftir sem áður. — Það er kannske það lærdómsríkasta við þetta mál, þegar það er rifjað upp.

Ég sé að hv. 2. þm. Austurl. er ekki hérna, en það skiptir ekki miklu máli. Ég tók eftir því, að hann var í essinu sínu þegar hann fór að velta fyrir sér stjórnarmyndunarmöguleikum eftir kosningarnar og sambandinu á milli stjórnarmyndunar eftir kosningar og þessa máls. Hann bókaði það alfarið, að Framsfl. væri að tryggja sér þátttöku í ríkisstj. eftir kosningar með því að standa að flutningi þessa máls. Mér fannst honum skjöplast dálítið í röksemdafærslunni, vegna þess að ef Framsfl. ætlaði virkilega að nota þetta mál í sambandi við stjórnarmyndun eftir kosningar, hefði þá ekki verið miklu eðlilegra fyrir hann að bíða með afgreiðslu málsins, segja við Sjálfstfl.: Ja, við skulum fallast á það eftir kosningar að þetta mál gangi fram. — Ég man eftir því, að þegar við vorum að fjalla um þetta mál í fjh.- og viðskn., þá virtist hv. 2. þm. Austurl. hafa áhuga á því að ljúka þessu máli af.

Mér varð þá að orði : Þú vilt ekki að þetta mál verði neitt að þvælast fyrir mönnum eftir kosningar. — Það kom dálítið á hv. þm. þegar ég sagði þetta. En þarna kemur einmitt fram þráðurinn í þessu, að hann er enn að hugsa um sambandið á milli stjórnarmyndunar eftir kosningar og þessa máls. Ég hygg að það sé mála sannast, að þegar þetta mál er afgreitt hér í þinginu, þá komi það ekki til álita í sambandi við hugsanlega stjórnarmyndun eftir kosningar.

En það er dálítið athyglisvert, að það gægjast fram öðru hvoru núna upp á síðkastið hugrenningar og hugleiðingar þeirra Alþb.-manna um stjórnarmyndun eftir kosningar. Saklaus maður eins og t. d. Þröstur Ólafsson hagfræðingur skrifar grein um að það sé tímabært og eðlilegt að mynda svokallaða nýsköpunarstjórn eftir kosningar. Þá hleypur hv. 2. þm. Austurl., eins og móður smalahundur hefði nú einhver sagt, í veg fyrir hagfræðinginn til þess að leiðrétta hann. Hvers vegna skyldi hagfræðingurinn hafa sagt þetta? Auðvitað vegna þess að hann er ekki eins snar í snúningum og t. d. hv. 2. þm. Austurl. og gerði sér ekki grein fyrir því, að það var dálitið hættulegt að tala svona með tilliti til þess, hvernig menn ætluðu að haga áróðri í baráttunni fyrir kosningarnar.

Öllum hugleiðingum hv. þm. um stjórnarmyndun og annað slíkt vísa ég heim til föðurhúsanna. En vil ítreka það, að ég álít að þetta mál sé fyrst og fremst flutt vegna þess að það er gott mál, vegna þess að ástandið í verðlagsmálum er óviðunandi eins og ástatt er. Það þarf að bæta það. Það þarf að koma á svipuðu ástandi í þessum efnum hér í landinu og t. d. jafnaðarmenn á Norðurlöndum hafa komið á hjá sér. Þess vegna er ég ekki hissa á því þó hv. 9. þm. Reykv. lýsi yfir ítrekuðum stuðningi sínum við þetta mál. Það er algerlega í samræmi við stefnu og stefnuframkvæmd jafnaðarmanna á Norðurlöndum.

Hitt er annað, að ég býst við að allir séu sammála um að það er dálítið vandmeðfarið að breyta til. Þess vegna er það, að ýmsir varnaglar eru settir í þetta frv., og þær stofnanir, sem eiga að framkvæma þessi mál, hafa talsvert mikið vald og aðhald eins og frv. er úr garði gert.