24.04.1978
Efri deild: 85. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3832 í B-deild Alþingistíðinda. (2976)

170. mál, Þjóðleikhús

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Ég vil taka undir orð hæstv. utanrrh., að ég held að það væri fyllsta ástæða til þess að við fengjum tóm til þess að hugleiða þetta mál svolítið betur. Ég verð að játa að það kom mér nokkuð á óvart er hv. menntmn. afgreiddi frv., og það hefur verið ákaflega lítill tími til samráðs við aðra aðila um þessar brtt. Ég skrifaði þær núna um helgina og er alls ekki þeirrar skoðunar, að þær breytingar, sem gera þarf á frv., þurfi að vera nákvæmlega svona og alls ekki öðruvísi. Það má t. d. vel velta þessu orðalagi í sambandi við óperurnar örlítið betur fyrir sér. Og ef menn geta fundið eitthvert annað fyrirkomulag í sambandi við þjóðleikhúsráð sem veitir starfsmönnum aukinn íhlutunarrétt og áhrif, þá gæti ég verið til viðræðu um einhverja aðra tilhögun málsins. Ég held að það ætti að athuga vandlega, hvort ekki væri hægt að skapa betri samstöðu um þetta mál en nú er fyrir hendi áður en atkv. ganga um málið.

Ég vil því leggja til að annaðhvort verði umr. frestað og menntmn. fái tækifæri til að skoða málið ögn betur, en ef það verður ekki gert, þá vil ég lýsa því yfir að till. mínar verða dregnar aftur til 3. umr.