02.11.1977
Efri deild: 11. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 375 í B-deild Alþingistíðinda. (301)

36. mál, stjórnarskipunarlög

Jón Helgason:

Herra forseti. Hv. frsm„ 5. þm. Norðurl. v„ spurðist fyrir um það, hvaða rök ég hefði fyrir því að halda fram þeirri skoðun sem ég gerði hér áðan. Ég vil aðeins í örfáum orðum nefna a.m.k. eitt atriði.

Ég held að lögfræðingar vilji skipta eignarrétti á afréttum í tvennt. Annars vegar eru það svokallaðir almenningar sem lengi hafa fylgt sveitarfélögum og þau hafa talið sína eign. Hins vegar eru svo afréttir sem hafa verið í einkaeign einstakra jarða, en hafa verið seldir á síðustu öld eða það nálægum tíma að til eru pappírar yfir það, og þá seldir annaðhvort sveitarfélögum eða upprekstrarfélögum. Þar sem slík sala hefur farið fram, þá held ég að það hafi ekki verið véfengt að um ótvíræða eign sé að ræða. Enn Fremur veit ég að sum sveitarfélög, sum hafa átt afrétti frá því að sögur urðu til. hafa keypt jarðir og lagt við þá. Ég get ekki skilið hvaða rök eru fyrir því að vera að skipta þannig afréttum í tvennt eftir því hvort eru til skrifleg gögn yfir þetta eða ekki, þar sem afnota- og umráðarétturinn hefur í framkvæmd verið nákvæmlega sá sami og þetta hefur verið eins í hugum manna sem þarna hafa átt hlut að máli. Þeir hafa talið þetta vera eign sveitarfélagsins hvort tveggja. En við vitum að þar sem ekki hefur farið fram sala í margar aldir eða kannske frá ómunatíð, þá eru ekki til skrifleg gögn yfir það.