25.04.1978
Sameinað þing: 70. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3875 í B-deild Alþingistíðinda. (3037)

238. mál, hundraðföldun á verðgildi íslenskrar krónu

Fyrirspyrjandi (Lárus Jónsson) :

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja fsp. til hæstv. viðskrh. á þskj. 453 um hundraðföldun á verðgildi íslenskrar krónu. Fsp. hljóðar þannig:

„Hefur ríkisstj. til athugunar gjaldmiðilsbreytingu þannig að verðgildi íslenskrar krónu hundraðfaldist í samræmi við þáltill. sem vísað var til ríkisstj. með jákvæðri umsögn á síðasta þingi? Ef svo er, hversu langan tíma tekur að undirbúa gjaldmiðilsbreytinguna og hvernig er fyrirhugað að hún verði framkvæmd?“

þáltill., sem vísað er í í þessari fsp., var flutt á síðasta þingi, eins og áður segir. N.. sem afgreiddi hana, komst að þeirri niðurstöðu, að með hliðsjón af þeim athugunum, sem fram hefðu farið, væri n. sammála um réttmæti þess. að athugun sú, sem þáltill. gerði ráð fyrir, færi fram og þá sem liður í umfangsmeira verki er miðaði að því að auka virðingu fyrir gjaldmiðli og styrkja hann á annan hátt. Þetta nál. var gefið út af hv. fjh.- og viðskn. Nd., dags. 27. apríl í fyrra.