25.04.1978
Sameinað þing: 70. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3877 í B-deild Alþingistíðinda. (3039)

238. mál, hundraðföldun á verðgildi íslenskrar krónu

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Þær upplýsingar varðandi þetta mál, sem Seðlabankinn sendi þjóðinni í gær og ríkisstj. veitir nú Alþ. í dag, eru að sjálfsögðu mjög athyglisverðar. Hugmyndin um að breyta verðgildi peninga hjá löndum, sem hafa átt við erfitt efnahagsástand og mikla verðbólgu að etja, er auðvitað ekki ný. Evrópuþjóðir, eins og Frakkar og Finnar, hafa fyrir nokkrum árum beitt þessum ráðum og er sjálfsagt hægt að læra mikið af þeirra reynslu. Ég hygg að flestir þeir, sem efnahagsmálum eru sérkunnugastir, séu sammála um að breyting á verðgildi peninganna sé í sjálfu sér ekki lækning á meinsemdum þeim, sem við eigum við að stríða, og þess vegna hafi ekki verið meiri áhugi á slíkri breytingu en raun ber vitni undanfarin ár. Það er til lítils að hundraðfalda krónunnar ef 30–40% verðbólga heldur áfram. það er til lítils að sænska krónan verði 55 aurar íslenskir eða eitthvað svoleiðis, ef gildið á að breytast um 30–40% á hverju ári. Hitt tel ég vera rétt, sem fram hefur komið nú síðustu dagana, að ástand efnahagsmála okkar sé orðið svo alvarlegt, þjóðin hafi misst svo verðskyn og virðingu fyrir gjaldmiðli, að það eitt skipti meira máli en nokkru sinni að reyna að rétta við virðingu fyrir krónunni með því að auka verðgildi hennar. En það breytir ekki því, að áður en það verður gert er nauðsynlegt að hafa náð valdi á verðbólgunni og dregið verulega úr hraða hennar.

Í yfirlýsingu um markmið og leiðir í efnahagsmálum á næstu árum, sem Alþfl. gaf út fyrir örstuttu, er þetta atriði nefnt, en þó sem hið síðasta af tíu atriðum og á þann hátt, að svo fremi sem aðstæður leyfi beri að stefna að því að auka verðgildi krónunnar. En þær aðstæður, sem um er að ræða, verða að vera fyrir hendi. Það getur farið svo, að ákveða verði breytinguna og láta Seðlabankann taka á sig kostnað undirbúningsins, en raunveruleg ákvörðun um það, hvenær breytingin eigi sér stað, verði að fara eftir því, hvernig þróun verðbólgunnar verður, t. d. frá þessu vori og fram til 1980.