25.04.1978
Sameinað þing: 70. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3883 í B-deild Alþingistíðinda. (3047)

275. mál, síldarverksmiðja ríkisins á Skagaströnd

Fyrirspyrjandi (Stefán Jónsson) :

Herra forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að taka til máls öðru sinni, en tel mig til knúinn vegna ræðu hv. þm. Páls Péturssonar.

Svo vill nú til, að Skagaströnd er þrátt fyrir allt innan íslenskrar efnahagslögsögu. Þessi hv. þm. Norðurl. v. verður því að una því, að þm. úr öðrum kjördæmum fái að minnast á þann stað. Ég get heitið honum því, að fara ekki nánar út í feimnismál hans kjördæmis, en ég gaf honum enga átyllu til þess að ætla það, að ég hefði borið fram fsp. þessa í sambandi við vandræði þeirra Þórshafnarbúa. Enda þótt ég sé meðflm. að þáltill. þeirri er hann gat um hér áðan, þá bar ég fyrst og fremst fram frv. í Ed. um að ríkisstj. yrði gert að leita eftir kaupum á síldarverksmiðju á Þórshöfn á Langanesi og ef kaup gengju saman, þá yrði náttúrlega Síldarverksmiðjum ríkisins falið að reka þessa verksmiðju. Í sambandi við það mál var ekki, ef mig minnir rétt, hvorki í greinum né í grg., minnst einu orði á Skagastrandarverksmiðjuna — alls ekki. En ef það eitt að minnast á þessa verksmiðju og fyrirhugaðar framkvæmdir þar telst að viti hv. þm. vera andmæli gegn því, að hún verði reist, og þar með talið allar þær upplýsingar sem kynnu að koma fram við þær umr., að þær hljóti að hníga gegn framkvæmdinni, þá er það hans prívat og persónulega mat. Hitt er annað mál, að það er ákaflega athyglisvert fyrir þm. að fá upplýsingar sem þessar, m. a. um greiðslugetu Síldarverksmiðja ríkisins. Ef við setjum þessar upplýsingar í eðlileg tengsl við þær upplýsingar sem við fengum um hagnaðinn, þó loðnar væru, ekki nógu fullkomnar, hagnaðinn af rekstri Norglobal og hagnaðinn af því að taka þennan bræðslufisk á Íslandsmiðum yfirleitt af þessum almenningi okkar, þá kynnu menn að fara að fá hráefni í merkilegar hugleiðingar um þýðingarmikil atriði í sambandi við fjárhag Íslendinga og þá ekki Húnvetninga prívat og persónulega fyrir sig.