02.11.1977
Neðri deild: 11. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 387 í B-deild Alþingistíðinda. (309)

7. mál, hlutafélög

Magnús Kjartansson:

Hæstv. forseti. Hér er hreyft ákaflega mikilvægu máli, en ég ætti kannske að orða það svo frekar, að hér er snuddað við ákaflega mikilvægu máli, því að mér finnst vera ákaflega mikil lausatök á þessum frv: flutningi. Hér um að ræða fjórar till. og ég vil leyfa mér að gera örlitlar athugasemdir við þær allar í heild, þó aðeins sú fyrsta sé núna á dagskrá.

Ég vil fyrst gera málfarslega athugasemd. Hv. 1. flm. notaði orðið atvinnulýðræði. Mér finnst þetta orð vera hálfgert afstyrmi. Það er hrá þýðing úr Norðurlandamálum þar sem talað er um arbejdsdemokrati eða industrieldemokrati, og mér finnst þetta fara ákaflega illa í íslensku máli. Mér fyndist miklu eðlilegra að tala um lýðræði á vinnustöðum eða efnahagslegt lýðræði eða nota ýmislegt annað orðaval. Það er nú svo með íslenska tungu, að hún er sem betur fer á ýmsan hátt fjölbreytilegri en aðrar tungur vegna þess hve mál okkar er gagnsætt, t.a.m. höfum við þann hátt á að við eigum oft fjölmörg orð yfir sama fyrirbærið. Ég man eftir því, að mér var bent á það einhvern tíma í skóla, að á því líffæri sem Danir kalla hale væru milli 10 og 20 íslensk nöfn. Ég skrifaði áðan að gamni mínu orð sem komu upp í huga minn: Skott, rófa, hali, stél, stertur, sporður, tagl. Og ég held að við verðum að muna eftir því að íslensk tunga er svona. Það hefur verið reynt á undanförnum árum að þýða mikinn fjölda af erlendum orðum á þann hátt að reyna að láta eitt íslenskt orð ná sömu merkingu og það erlenda. Ég held að þessi stefna sé mistök, hún geti aldrei heppnast og að við verðum að vera menn til þess að baga málflutningi okkar út frá okkar ágæta tungumáli og þeim sérkennum sem þetta gagnsæja tungumál okkar hefur. Þetta er sem sé formsatriði um orðalag. En ég sagði að hv. frsm. hefði snuddað við mikið vandamál, og það finnst mér Alþfl. gera í þessum fjórum frv. sínum.

Eins og hv. frummælandi tók fram, þá er hér um að ræða ákaflega mikilvægt vandamál. Það hefur lengi staðið yfir í veröldinni barátta um lýðræði. Við þekkjum baráttuna fyrir pólitísku lýðræði, m.a. hér í okkar landi. Það hefur verið langvinn og erfið barátta. En pólitískt lýðræði nær því miður oft skammt ef ekki er um að ræða efnahagslýðræði einnig. Það þekkja menn ekki síst í stærri þjóðfélögum en því íslenska, en við vitum einnig dæmi um það hér á Íslandi. Þegar ég ólst upp sem drengur í Hafnarfirði, þá var stærsti atvinnurekandinn þar enskt útgerðarfyrirtæki, Hellyers Brothers, gerði þaðan út togara og stundaði fiskverkun. Svo gerðist það í byrjun kreppunnar að þetta enska fyrirtæki taldi sig ekki hafa nægilegan arð og flutti burt með starfsemi sína og eftir stóðu Hafnfirðingar svo til atvinnulausir. Upp úr því var stofnuð fyrsta bæjarútgerð á Íslandi.

Þetta dæmi sem ég tek er dæmi um atvinnuþróunina á Íslandi í heild. Eftir að Íslendingar fengu heimastjórn í upphafi þessarar aldar var reynt að koma hér á kapítalísku þjóðfélagi, en þessi tilraun mistókst gjörsamlega. Hún hrundi hreinlega þegar kreppan mikla skall yfir nokkru fyrir síðari heimstyrjöld, og þá var tekið til við að leysa þau vandamál að tryggja atvinnurekstur á Íslandi og efnahagskerfi eftir félagslegum leiðum. Og nú er þannig ástatt, að ég hygg að það muni láta nærri að 2/3 hlutar af framleiðslukerfi og fjármálakerfi þjóðarinnar séu í félagslegri eign. Þá á ég við ríki, ég á við sveitarfélög, ég á við samvinnuhreyfingu og ég á við viss hlutafélög sem stofnuð hafa verið víða um land til þess að halda uppi atvinnulífi þar á staðnum. Þessi hlutafélög, þó að það sé á þeim hlutafélagaform, eru fyrirbæri af alveg sama tagi og bæjarfyrirtæki eða ríkisfyrirtæki. Og ef þetta er allt tínt saman hygg ég að láta muni nærri að þetta séu 2/3 hlutar af atvinnukerfi Íslendinga, hvorki meira né minna. Og þessi þróun er ákaflega mikilvæg. Það er ákaflega mikilvægt að félagslegir aðilar beri ábyrgð á atvinnufyrirtækjum á Íslandi og gripi inn í ef fyrirtækin lenda í örðugleikum, svo að ekki komi til atburða eins og þeirra sem ég var að lýsa áðan, þegar svo til öll atvinna var tekin af Hafnfirðingum þegar ég var barn. Og þannig starfa þau fyrirtæki, sem eru í félagslegri eign, og það er þeirra mikli styrkur.

Hins vegar höfum við ekki gefið því gaum, að á fyrirtækjum af þessu tagi verður að vera lýðræðislegt fyrirkomulag. Það er hafður sá háttur á hér á Alþ., að til ýmissa fyrirtækja, sem eru í ríkiseign, eru kjörnar stjórnir hlutfallskosningu hér á Alþ., og í bæjarfélögunum er hafður sami háttur á, að stjórnir eru kjörnar þar af bæjarstjórnum. En hvernig hafa þessar stjórnir starfað? Að vera kosinn í stjórn einhvers fyrirtækis á vegum ríkisins eða á vegum sveitarfélaga heitir bitlingur á máli alþýðu, vegna þess að þessir fulltrúar Alþ. starfa yfirleitt ekki í þessum fyrirtækjum sem neinir fulltrúar Alþ. Aldrei senda þessir ágætu menn Alþ. skýrslu um starfsemi sína. Ég er ekki að halda því fram, að þeir sinni ekki sínum störfum vel og allt það, en þeir lita ekki á sig sem neina fulltrúa Alþ. og þeir líta ekki heldur á sig sem neina fulltrúa fólksins sem vinnur í fyrirtækjunum.

Því miður eru þau frv., sem hv. þm. Alþfl. flytja, eiginlega eins konar áframhald á því að þetta bitlingakerfi verði pínulitið útvíkkað. Það er gert ráð fyrir því, að starfsfólk í fyrirtækjum yfir vissri stærð geti kosið þriðjung í stjórn eða eitthvað þess háttar, en það er ekki eitt einasta orð um verksvið þeirra. Yfirleitt eiga að sitja þarna nokkrir menn á sama hátt og við höfum kosið í stjórnir ýmissa atvinnufyrirtækja sem eru í ríkiseign. Meira að segja segir svo í frv. til I. um breyt. á l. um Áburðarverksmiðju ríkisins: „Ráðherra setur stjórninni erindisbréf og ákveður henni laun.“ Það er sem sé ekki um að ræða neina breytingu á valdsviði verkafólks með þessum frv., aðeins að bæta tveimur mönnum við sem virðist eiga að starfa eins og þeir sem fyrir voru. Og nákvæmlega sama er í frv. um Sementsverksmiðjuna. Iðnrh. setur erindisbréf og ákveður laun hennar.

En verksvið þessara stjórna skipta náttúrlega meginmáli, og það er fyrst og fremst það sem um er að ræða. Ég býst ekki við að þar verði komið á nauðsynlegum fyrirmælum einvörðungu með lagasetningu. Ég er þeirrar skoðunar að slíkar stjórnir eigi að hafa verulega mikið vald, og ég tel að þeir, sem eru kjörnir í þær af verkafólki, verði að líta á það sem skyldu sína að vera þar sem fulltrúar verkafólksins í fyrirtækinu og hafa lifandi samband við það alla tíð. Ég geri ráð fyrir að það geti orðið alllöng þróun áður en slíkar stjórnir geta fundið sér eðlilegan starfsgrundvöll, og um það verður alveg tvímælalaust háð barátta. Því tel ég að það sé algerlega nauðsynlegt, ef við ætlum að reyna að koma á slíkri skipan, að koma fastri mynd á sjálft inntakið í þessu. Þar verða að koma til samningar á milli samtaka launafólks, Alþýðusambands Íslands, BSRB, Bandalags háskólamanna annars vegar og vinnuveitendasamtakanna, sem eru Vinnuveitendasamband Íslands og Vinnumálasamband samvinnufélaganna, ríkið og sveitarfélögin, og reyna að semja um það, hvernig háttað verði verksviði þessara manna. Komi þar upp ágreiningur, sem ekki er hægt að leysa, en þarf að leysa, er eðlilegt að honum sé skotið til Alþ. En hitt er alveg augljóst mál, að þegar slík skipan er komin á hljóta samtök launafólks að gera það að þætti í baráttu sinni að fá þarna meiri raunveruleg völd. Þau geta þá á eðlilegan hátt sett fram slíkar kröfur í sambandi við kjarasamninga og fylgt þeim eftir með kjarabaráttu. Þannig verður þessi skipun að vera, ef hún á að ná einhverjum tilgangi, ef hún á að vera eitthvað annað en innantómt form, bitlingakerfi. Og þetta kerfi er nauðsynlegra á Íslandi en í nokkru öðru þjóðfélagi vegna þess, eins og ég sagði áðan, að 2/3 hlutar af framleiðslukerfi okkar eru í félagslegri eign og við þurfum að stefna að því að þar geti orðið um eðlilegt lýðræði að ræða.

Sumum kann að finnast að þetta geti orðið erfitt í raun. Ég er ekki öldungis viss um það. Fyrirtæki á Íslandi eru yfirleitt frekar lítil, og ég dreg í efa hvort þessi mörk, sem sett eru í frv., eru rétt miðað við okkar sérstöku aðstæður. Það tíðkast ákaflega mikið í litlum fyrirtækjum á Íslandi, þar sem eigandinn vinnur sjálfur með öðru starfsliði, að hann ráðgast við samstarfsmenn sína um sitt hvað varðandi rekstur fyrirtækisins. Það hefur tíðkast í verki hér á Íslandi ákaflega lengi sem betur fer, og í þessu felst ekki það að launafólkið í þessu fyrirtæki hafi völd. En það getur haft óbein áhrif á þennan hátt, og ég hygg vegna þessarar þróunar að kerfi eins og ég er að tala um, þar sem verkafólk í fyrirtækjum fær raunveruleg völd, þurfi ekki að verða eins erfitt að koma á í verki eins og mönnum kann að sýnast.

Hv. frsm. gerði grein fyrir aðdraganda þessa máls og þróun þess í ýmsum þjóðfélögum. En ég tók eftir því, að hann annaðhvort gleymdi að geta þess eða veit ekki um það, að eitt síðasta verk sósíaldemókratastjórnarinnar í Svíþjóð var að koma á löggjöf um lýðræði á vinnustöðum í Svíþjóð, bæði að því er varðar almenna verkamenn og opinbera starfsmenn. Þetta eru miklir lagabálkar, ég hef séð þá, en þeir voru gerðir að lögum í Svíþjóð, og borgarastjórnin í Svíþjóð hefur ekki sýnt neina tilburði til þess að breyta þeim. Þar er ekki um neitt sérlega bitlingasinnaða löggjöf að ræða og hún er hugsuð sem fyrsta skref.

Ég held að það sé ástæða til þess að menn, sem hafa áhuga á þessu máli, líti á hvernig búið er að koma slíkum lögum í framkvæmd í einu af Norðurlöndum. En á hitt vil ég leggja áherslu, og má vel vera að ég reyni að gera það með þskj. áður en lýkur, að það eru verkefni stjórnarinnar sem eru algerlega úrslitaatriði. Meðan ég gegndi ráðherrastörfum beitti ég mér fyrir því að settar voru samstarfsnefndir í tveimur fyrirtækjum, Sementsverksmiðjunni og Landssmiðjunni. Ég fékk plögg um það frá Alþýðusambandi Íslands hvernig slíkri samvinnu væri háttað annars staðar á Norðurlöndum, og ég setti slíkar reglugerðir um þessi tvö fyrirtæki. Ég hef ekki nægilega góða vitneskju um það hvernig reynslan er. En ég veit þó að í Landssmiðjunni var unnið samkv. þessu kerfi. Starfsmenn Landssmiðjunnar komu til mín eftir svo sem ársreynslu og báðu mig að breyta tilteknum atriðum í sambandi við þessa reglugerð, og þegar við fórum að kanna þau gerði ég það fúslega Og ég beitti mér einnig fyrir því, að sett var í lög í sambandi við sjúkrahús að samtök starfsfólks þar ættu aðild að stjórn sjúkrahúsa, og þetta var samþykkt hér á hinu háa Alþ. Ég hef ekki heldur neina nána vitneskju um hvernig þetta hefur reynst, en ég óttast að þeir menn, sem kjörnir hafa verið þar í stjórnir, hafi haft of lítið samband við fólkið sem starfar á sjúkrahúsunum. Það skiptir meginmáli með öll slík kerfi að allir starfsmennirnir séu nægilega virkir, og því er það að verkefni stjórnarinnar er meginatriði, en ekki það formsatriði að hægt sé að bæta við einhverju sem kann að vera kallað bitlingar.