27.04.1978
Sameinað þing: 73. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4101 í B-deild Alþingistíðinda. (3330)

Almennar stjórnmálaumræður

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen) :

Herra forseti. Góðir hlustendur. Sú endurreisn efnahagsmála, sem ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar hóf fyrir tæpum 4 árum, hafði á miðju síðasta ári borið greinilegan árangur. Þjóðarframleiðslan hafði vaxið og viðskiptahalli stórlega minnkað, dregið hafði úr verðbólgunni og tekist hafði að halda fullri atvinnu og bæta lífskjör.

Þótt mikilvægt sé að gera sér grein fyrir þeim árangri, sem náðst hefur, skiptir hitt ekki síður máli að viðurkenna það, sem miður hefur farið, og taka af því mið við mótun framtíðarstefnu. Við lok kjörtímabils núv. ríkisstj. er eðlilegt að litið sé til baka og það rifjað upp sem óneitanlega hafði áhrif á efnahagsmálin í upphafi kjörtímabilsins, ekki síst ríkisfjármálin 1974 og 1975.

Þannig má nefna þróun peningamála. Nettóstaða innlánsstofnana gagnvart Seðlabankanum var óhagstæð í ágúst 1974 um 4.2 milljarða og hafði þá rýrnað um 7.3 milljarða kr. frá ágúst 1973. Óvenjumikil útlánaaukning innlánsstofnana hafði átt sér stað. Þegar litið er á árið 1974 í heild jukust útlán þeirra um 49% samanborið við 33% árið 1973. Á sama tímabili hafði staða ríkissjóðs gagnvart Seðlabankanum versnað um 850 millj. kr. og greiðsluhalli ríkissjóðs á árinu 1974 verið 8.3% af heildarútgjöldum. Verulegir erfiðleikar blöstu við í utanríkisviðskiptum og viðskiptajöfnuður gagnvart útlöndum óhagstæður um 15.5 milljarða kr. Verðbólgan var komin yfir 50% síðari hluta árs 1974 og hafði aukist úr 15% frá 1972. Þessar tölur nægja til að leiða glöggt í ljós, hvað við blasti.

Engin merki voru um að þensluástandið færi hjaðnandi, heldur þvert á móti. Ekkert áhlaupaverk var að fást við efnahagsvandann. Þó urðu töluverð umskipti til hins betra í þróun peningamála þegar á árinu 1975. Útlán innlánsstofnana jukust í 26% miðað við 49% árið áður. Á sviði ríkisfjármála tók lengri tíma að snúa við hinni óhagstæðu þróun og reyndist greiðsluhalli ríkissjóðs um 9.4% af heildarútgjöldum. Viðskiptajöfnuður gagnvart útlöndum var neikvæður um 21.4 milljarð á árinu 1975 og endurspeglaði það jafnvægisleysi efnahagslífsins auk rýrnandi viðskiptakjara vegna utanaðkomandi orsaka. Ég skýt mér að sjálfsögðu ekki undan ábyrgð á þessari útkomu ríkissjóðs það ár, en í því sambandi ber þó að minna á að útgjaldastefna ríkissjóðs á því ári hlaut að markast mjög af ákvörðunum sem teknar höfðu verið af ríkisstj. og Alþ. á síðustu missirum vinstri stjórnarinnar.

Á árinu 1976 varð efnahagsþróunin knúin til betri vegar. Þannig batnaði lausafjárstaða innlánsstofnana. Greiðsluafkoma ríkissjóðs batnaði mjög verulega, enda þótt ekki tækist að ná algerum jöfnuði, en greiðsluhalli nam 0.7% af heildarútgjöldum. Þennan bata má annars vegar rekja til þeirrar almennu efnahagsstefnu sem ríkisstj. markaði þegar í upphafi stjórnarferils síns og byrjaði að bera verulegan árangur, eins og ég sagði áðan, á árinu 1976, og hins vegar til bættra stjórnunaraðgerða í fjmrn. sjálfu. Á sama hátt batnaði viðskiptajöfnuður gagnvart útlöndum og verulega dró úr verðhækkunum.

Þróun á s. l. ári, 1977, hélt áfram að vera hagstæð, enda þótt ekki tækist að draga frekar úr verðbólguvextinum sem reyndist svipaður og árið á undan. Lausafjárstaða innlánsstofnana gagnvart Seðlabankanum batnaði enn. Greiðsluhalli varð að vísu hjá ríkissjóði, eða um 1.7% af heildarútgjöldum, en þá ber að hafa í huga að töluverðar byrðar voru lagðar á ríkissjóð í formi skattalækkana og útgjaldaaukningar og voru þær ráðstafanir liður í viðleitni ríkisstj. til hóflegra kjarasamninga. Viðskiptajöfnuður var aðeins óhagstæður um 2.6%.

Ríkisreikningur fyrir A-hluta ríkissjóðs fyrir árið 1977 hefur nú verið fullgerður. Helstu niðurstöður eru að gjöld námu 102.8 milljörðum kr., sem er 15% hærri fjárhæð en gjaldtala fjárl. Frávik þetta má fyrst og fremst rekja til hækkunar launakostnaðar og framlaga til almannatrygginga svo og vegna gjaldfærslu fasteignakaupa. Munar þar mestu um kaup ríkisins á Landakotsspítala. Sé litið á skiptingu útgjalda eftir verkefnum kemur í ljós að nálægt þriðjungi þeirra eða um 33% er varið til heilbrigðis- og tryggingamála. Til menntamála er varið 16% af heildarútgjöldum. Til húsnæðismála er varið 4%. Þannig er meira en helmingi ríkisútgjalda, eða um 53%, varið til þeirrar félagslegu þjónustu sem framangreindir þrír málefnaflokkar fela í sér.

Tekjur ríkissjóðs námu á árinu 1977 100.2 milljörðum kr., sem er 11% umfram fjárlög. Í formi beinna skatta aflar ríkissjóður 14% af heildartekjum, en með óbeinum sköttum 84%. Þau 2%, sem eftir eru, koma aðallega í formi vaxtatekna.

Ef litið er til áranna 1974–1977 hefur greiðsluafkoma ríkissjóðs á þessu tímabili verið óhagstæð um 11.2 milljarða kr., þar af 8.9 milljarða kr. vegna áranna 1974 og 1975 eða um 80% af þeirri fjárhæð.

En hvað þá um skuldasöfnun ríkissjóðs á þessum fjórum árum, er spurt úr því að afkoma ríkissjóðs hefur að mati fjmrh. batnað svo mjög á kjörtímabili núv. ríkisstj.? Í árslok 1975 námu skuldir ríkissjóðs við Seðlabankann alls 15 milljörðum kr. Af þessum 15 milljörðum eiga 2.5 milljarðar rætur að rekja til gengismunar á þessu tímabili, en af þeim 12.5 milljörðum, sem þá eru eftir, má rekja 9 milljarða til áranna 1974 og 1975, en einungis 3.5 milljarða til síðustu tveggja ára. Þetta mætti hv. þm. Magnúsi T. Ólafssyni vera í minni þegar hann ræðir um skuldasöfnun ríkissjóðs.

Ég hef hér nefnt 15 milljarða kr. skuld um síðustu áramót, en á það var minnt hér í kvöld að skuldir ríkissjóðs hjá Seðlabankanum væru nú nærri 25 milljarðar. Til viðbótar þeim skuldum, sem til eru komnar af þeim ástæðum sem ég vék að hér áðan, er auðvitað ljóst að ríkissjóður hlýtur að hafa árstíðabundna lánafyrirgreiðslu hjá Seðlabankanum og beinlínis gert ráð fyrir því í lögum Seðlabankans. Tekjur ríkissjóðs koma að mjög verulegu leyti á síðari hluta ársins, en ríkissjóður verður að greiða laun og önnur framlög jöfnum höndum allt árið um kring, þannig að eðli málsins samkv. hlýtur ríkissjóður að verða að hafa árstíðabundna lánafyrirgreiðslu hjá Seðlabankanum.

Heildarútgjöld ríkissjóðs á þessu ári verða sjálfsagt um 140–150 milljarðar. Af tæplega 10 milljarða kr. aukningu lána hjá Seðlabankanum frá áramótum stafa 2.5 milljarðar af gengisbreytingu, þannig að raunveruleg árstíðabundin lánafyrirgreiðsla nemur 7.5 milljörðum, sem er 5% af heildarútgjöldum fjárlagaársins.

Þótt þessar séu skýringar á skuldasöfnun ríkissjóðs hjá Seðlabanka er auðvitað ljóst að slík skuldasöfnun er neikvæð fyrir efnahagslífið í heild sinni. Þessi skuldasöfnun hefur haft verðbólguhvetjandi áhrif. Þeir, sem gagnrýna ríkisstj. og fjmrh. fyrir rekstrarhalla og skuldasöfnun hjá Seðlabanka, verða um leið að horfast í augu við þá staðreynd, að harkalegri samdráttaraðgerðir og meiri niðurskurður opinberra framkvæmda hefði leitt til verulegs atvinnuleysis. Ég vil minna á að ríkisstj. markaði þá stefnu í upphafi starfstíma síns að tryggja bæri fulla atvinnu. Því er ljóst að hér var um að ræða að gera ráðstafanir í ríkisfjármálum sem hefðu þurrkað út rekstrarhallann, en leitt til atvinnuleysis, eða hins vegar að tryggja fulla atvinnu eins og gert hefur verið á kostnað þess að ríkissjóður hefur verið rekinn með nokkrum halla. Slíkt ástand er að sjálfsögðu ekki hægt að láta vera til lengdar og er því nauðsynlegt að tryggja hvort tveggja í senn: fulla atvinnu í landinu og hallalausan ríkisbúskap.

Í umræðum á opinberum vettvangi á undanförnum missirum hafa kjaramál opinberra starfsmanna komið mjög við sögu og núv. ríkisstj. hefur verið gagnrýnd allharkalega fyrir að hafa veitt opinberum starfsmönnum samningsrétt svo og fyrir þá kjarasamninga sem gerðir voru við opinbera starfsmenn á s. l. hausti. Vil ég fara um þetta nokkrum orðum.

Þeir, sem gagnrýna ríkisstj. fyrir að veita opinberum starfsmönnum takmarkaðan verkfallsrétt, verða að hugsa til baka til þess ástands sem ríkti í málefnum opinberra starfsmanna áður en þeir fengu þennan verkfallsrétt. Menn eru fljótir að gleyma. Ýmsir hópar opinberra starfsmanna höfðu gripið til eigin ráða og stóðu fyrir ólöglegum verkfallsaðgerðum. Lög landsins hafa litla þýðingu ef þau stríða gegn réttlætisvitund almennings. Ríkisstj. tók því ákvörðun um að veita opinberum starfsmönnum takmarkaðan verkfallsrétt. Það var auðvitað umdeild ákvörðun, en þrátt fyrir þá stefnu, sem verkfall opinberra starfsmanna tók s. l. haust, er ég sannfærður um að hún var rétt. Það var skynsamlegra að veita opinberum starfsmönnum takmarkaðan verkfallsrétt en að búa við stöðugan óróa í þeirra röðum vegna þess að meginþorri þeirra taldi sig ekki búa við sama réttlæti og aðrir þjóðfélagsþegnar.

Sagt er að ríkisstj. hafi gert allt of háa kjarasamninga við opinbera starfsmenn s. l. haust. Það er út af fyrir sig rétt, að þeir voru háir og skattgreiðendum í landinu dýrir. En hver var aðstaðan þegar þessir samningar voru gerðir? Í fyrsta lagi höfðu verið gerðir almennir kjarasamningar sem voru langt umfram það sem skynsamlegt gat talist og búist hafði verið við. Í öðru lagi hafði verið gerður samanburður á launakjörum opinberra starfsmanna og annarra sambærilegra starfshópa áður en kjarasamningar voru gerðir 1977 — samanburður sem leiddi í ljós að fjölmargir hópar opinberra starfsmanna bjuggu við mun lakari launakjör en aðrir. Með þessi rök í huga gerði ríkisstj. opinberum starfsmönnum ákveðið tilboð áður en þeir hófu verkfallsaðgerðir sínar á haustmánuðum. Samtök opinberra starfsmanna féllust að lokum á það tilboð í öllum meginatriðum. Vonandi draga aðilar lærdóm af því.

Í umr. á opinberum vettvangi um skattamál mörg undanfarin ár hefur berlega komið í ljós að stór hluti skattgreiðenda í landinu hefur talið að þau lög, sem gilda um álagningu opinberra gjalda, hafi ekki tryggt jafnrétti milli þjóðfélagsþegnanna. Í fjmrn. hefur á undanförnum árum verið lögð mikil vinna í samningu og gerð nýrra skattalaga og var viðamikið skattafrv. lagt fram á Alþ. á s. l. ári. Það frv, leiddi til mikillar umræðu sem fjölmargir aðilar í þjóðfélaginu tóku þátt í. Skattafrv. það, sem nú er til afgreiðslu hér á Alþ., tekur mið af þeim umr. og athugasemdum.

Efnislega felast fjölmargar breytingar frá gildandi lögum í tekjuskattsfrv. Meðal hinna mikilvægustu má nefna sérsköttun hjóna. Samkv. frv. telur hvort hjóna um sig fram og er skattlagt sérstaklega af launatekjum sínum og atvinnurekstrartekjum. Sá hluti persónuafsláttar, sem öðru hjóna nýtist ekki, er yfirfæranlegur. Til eignarskatts eru eignir hjóna lagðar saman og helmingur heildareignanna síðan skattlagður hjá hvoru um sig. Annað mikilvægt nýmæli er að gjaldendum er gefinn kostur á því að telja 10% af launatekjum sínum til frádráttar í stað vaxtagjalda, lífeyrissjóðsgjalda, stéttarfélagsgjalda og gjafa til menningarmála. Með þessu er gert tvennt. Framtalsgerð verður einfaldari hjá miklum hluta einstaklinga og þeir, sem hafa litla vaxtabyrði, t. d. þeir er í leiguhúsnæði búa, fá nokkra ívilnun. Ákvæði fyrra frv. um aðgreiningu á atvinnurekstri og einstaklingi þeim, er að honum stendur, er haldið óbreyttu að mestu. Með þessu er leitast við að tryggja að sjálfstæðir atvinnurekendur greiði sinn skerf til sameiginlegra þarfa. En þetta ákvæði hefur valdið gagnrýni. Því er ætlað að koma í veg fyrir þá miklu óánægju sem skattlagning á einstaklinga með sjálfstæðan atvinnurekstur hefur valdið, en jafnframt er tryggður réttur þeirra aðila í þjóðfélaginu, sem ekki geta skilað fullum vinnudegi, en starfa við sjálfstæðan atvinnurekstur.

Að því er skattlagningu atvinnurekstrar varðar eru mikilvægustu nýmælin í frv. hinar breyttu reglur um fyrningar og söluhagnað svo og ákvæðin um takmörkun á gjaldfærslu vegna skulda. Stofnverðið er framreiknað með verðbreytingastuðli, sem miðast við breytingu á vísitölu byggingarkostnaðar milli ára, og árleg fyrning reiknuð af hinu framreiknaða stofnverði. Fengnar fyrningar eru endurmetnar á sama hátt. Þá er í frv. ákvæði um takmörkun fyrninga þeirra aðila sem hafa fjármagnað fyrnanlegar eignir með lánsfé. Söluhagnaður allra eigna annarra en íbúðarhúsnæðis innan vissra stærðartakmarka í eigu manna er samkv. frv. skattskyldur án tillits til eignarhaldstíma.

Með þessum reglum tel ég að stórt skref sé stigið í þá átt að gera raunverulega afkomu atvinnurekstrarins að grundvelli skattlagningar. En verðbólga undanfarinna áratuga hefur gert það að verkum, að sá tekjustofn, sem skattur af atvinnurekstri er reiknaður af, hefur ekki gefið að öllu leyti rétta mynd af raunverulegri rekstrarafkomu.

Að öllu samanlögðu felast í frv. grundvallarendurbætur á tekjuskattskerfinu og sú raunhæfasta tilraun sem gerð hefur verið til lagfæringar á þessum málum nú um skeið, enda þótt hv. þm. Ragnar Arnalds fái ekki með nokkru móti skilið þær.

Rétt er að staðgreiðslufrv. er nú lagt fyrir Alþ. í fyrsta sinn, þannig að málið hefur ekki á undanförnum árum blotið sömu umfjöllun og tekjuskattsfrv. Hitt vil ég benda á, að enda þótt frv. um staðgreiðslu opinberra gjalda hafi ekki verið lagt fram áður er ekki þar með sagt að hugmyndir þær, sem í frv. felast, séu þeim mönnum ókunnar er gefa skattamálum gaum. Frá árinu 1965 hafa fjórar skýrslur verið samdar um þetta málefni, og byggist frv. að mestu á þeim hugmyndum sem fram komu í skýrslu ríkisskattstjóra um málið árið 1975, en að sjálfsögðu er það Alþingis að segja til um hvort og þá hvenær slík breyting eigi að koma til framkvæmda.

Góðir hlustendur. Víða um lönd leita stjórnvöld ráða til lausnar á aðsteðjandi efnahagsvanda. Nauðsynlegt er að við Íslendingar náum árangri í baráttunni gegn verðbólgunni eins og aðrar þjóðir. Sjálfstæðismenn leggja á það megináherslu, eins og fram kom í ræðu hæstv. forsrh. hér í kvöld. Forsenda þess er að stjórnmálamenn, forustumenn hagsmunasamtaka og ekki síst allur almenningur hafi til þess vilja og ábyrgðartilfinningu að láta viðureignina við verðbólguna sitja í fyrirrúmi fyrir öðrum markmiðum. Þá er fyrst að taka afstöðu til þess, hvaða áherslu sé á hverjum tíma unnt að leggja á þau markmið sem að er stefnt svo sem kjarabætur, framkvæmdir, félagslega þjónustu og byggðajafnvægi með hagsmuni þjóðarheildarinnar fyrir augum.

Við Íslendingar erum ekki einir þjóða sem nú reyna að leysa verðbólguvanda. Fyrir skömmu setti norska ríkisstj, gerðardóm til þess að úrskurða kaup og kjör þar í landi næstu tvö ár. Ekki er þar búist við aukningu rauntekna næstu fjögur árin. Bretar hafa háð langa og stranga baráttu við verðbólgu, sem nú virðist vera að bera árangur, enda hefur ríkt skilningur þjóðarinnar á nauðsyn þess að vinna bug á efnahagsvandanum. Í Bandaríkjunum er nú verið að gera ráðstafanir til þess að sporna gegn verðbólgu þar í landi.

Við Íslendingar eigum við áþekk vandamál að etja og fjölmargar aðrar þjóðir. Við verðum hins vegar að gera okkur grein fyrir því, að innbyrðis barátta um skiptingu afrakstursins, sem ekki byggist á málefnalegum forsendum, leiðir okkur ekki að því marki sem landsmenn allir, hvar í stétt sem þeir standa og hvaða stjórnmálaskoðanir sem þeir hafa, hljóta að keppa að, en það er að geta búið í landi sínu sáttir við sjálfa sig og umhverfið. — Ég þakka áheyrnina og býð góða nótt.