28.04.1978
Neðri deild: 87. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4161 í B-deild Alþingistíðinda. (3414)

92. mál, fuglaveiðar og fuglafriðun

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Þetta frv. er lagt fram af hv. þm. Jónasi Árnasyni og fetur í sér breyt. á lögum nr. 33/1966, um fuglaveiðar og fuglafriðun. Hann leggur til að e-liður 2. málsgr. 8. gr. laganna orðist svo:

„Frá 15. nóv. til 22. jan.: rjúpa.“

Efnislega gengur frv, út á það að breyta veiðitíma á rjúpu, og samkv. grg. á það að stuðla að því, að ekki sé veitt eins mikið af rjúpu og nú er og þessi fugl verndaður að því leyti.

Menntmn. hefur borist umsögn frá líffræðistofnun Háskólans, sem undirrituð er af Arnþóri Garðarssyni. Ég held að sé rétt að ég lesi hana til upplýsingar fyrir þingheim:

„Í þessu frv. leggur Jónas Árnason til að veiðitíma rjúpu verði seinkað um einn mánuð og megi þá veiða rjúpu frá 15. nóv. til 22. jan, í stað 15. okt. til 22. des.“

Áður en lengra er haldið sé ég mig tilneyddan til að mótmæla eindregið orðalagi grg., er fylgir téðu frv. Þar er vísað til fyrri meðferðar þessa frv, og umfjöllunar menntmn. sem lagði til að frv. yrði vísað til ríkisstj. með hliðsjón af sérfræðilegri umsögn Finns Guðmundssonar. Þetta verður að teljast eftir atvikum eðlileg afgreiðsla. Hins vegar er það í hæsta máta óviðeigandi og beinlínis ruddalegt þegar Jónas Árnason afgreiðir umsögn Finns Guðmundssonar með persónulegum skætingi í grg.

„Frv. sjálft gengur því miður í þveröfuga átt við yfirlýstan tilgang þess. Það miðar frekar í þá átt að auka áhrif veiða, sem eru þó lítil á rjúpnastofninn, og dregur auk þess úr hagkvæmri nýtingu hans. Þessu til nánari skýringar eru eftirfarandi atriði:

1. Íslenski rjúpnastofninn er mjög sveiflóttur. Á síðustu 100 árum hefur hann venjulega sveiflast með um 10 ára tíðni. Tvær undantekningar eru þó þekktar. 1900–1920 var stofninn stöðugt nærri hámarki, og kringum 1970 varð ekki verulegt lágmark og síðan hefur vöxtur verið mjög hægur.

2. Hliðstæðar sveiflur eru þekktar í rjúpnastofnum og skyldum tegundum hænsfugla af orraætt um öll norðlæg lönd. Þessar stofnsveiflur hafa verið mjög rannsakaðar án þess að nokkur endanleg skýring hafi enn hlotið almenna viðurkenningu sérfræðinga. Hins vegar er alveg víst að veiðar hafa hér engin áhrif.

3. Meðalaldur rjúpna er lágur, viðkoman er hröð og árleg afföll, sérstaklega ungfugla, mjög mikil. Ungar eru 2/3 af veiðinni þegar stofninn er í jafnvægi eða fækkun, en um 4/5 þegar stofninn er í hraðri fjölgun. Afföll unga eru hröðust fyrst á hausti, en síðan dregur úr þeim. Eftir því sem líður á veturinn verða hins vegar meiri líkur á því hver fugl lifi til vors. Til þess að nýta stofninn sem best er því heppilegast að byrja veiðar um leið og ungar hafa náð fullum vexti í september. Ef líkur þættu á að veiðar hefðu veruleg áhrif ætti á hinn þóginn að ljúka veiðitíma tiltölulega snemma vetrar.

4. Rjúpnastofninn, jafnvel þótt hann sé í minna lagi eins og nú, er samt langstærstur þeirra fuglastofna sem leyft er að veiða, ef frá eru taldir sjófuglar. Seinkun rjúpnaveiðitíma getur haft í för með sér aukna sókn í ýmsa stofna andfugla sem allir eru miklu minni en rjúpnastofninn. Reyndar er æskilegt að veiðitími rjúpna og andfugla hefjist á sama tíma að haustinu.“ — Undir þetta ritar Arnþór Garðarsson.

Ég taldi ástæðu til að lesa þessa umsögn, þar sem þetta frv. er flutt nú í annað sinn. N. hefur með hliðsjón af þessum upplýsingum svo og af því, sem áður hefur komið fram, að þessi lög eru til endurskoðunar, mælt með því, að frv. verði vísað til ríkisstj.