28.04.1978
Neðri deild: 87. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4163 í B-deild Alþingistíðinda. (3417)

203. mál, fuglaveiðar og fuglafriðun

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Ég hef skrifað undir álit menntmn. Nd. sem mælir með því að þessu máli verði vísað til ríkisstj. Það kann að þykja undarleg lítilþægni af 1. flm. að standa að slíku áliti, en ég tel að yfirveguðu máli að málið sé betur komið þannig í höndum ríkisstj. en að láta það sofna í n. eða hugsanlega verða fellt í hv. þd.

Þetta frv. er borið fram í góðum tilgangi og vegna þess að flm. töldu fulla þörf á, vegna hagsmuna ákveðins hóps bænda í Breiðafjarðareyjum sem báru sig illa undan tjóni af völdum arnar. Hitt er svo annað mál, að þetta mál var hér í umr. afflutt. Það varð tilefni til þess, að ágætur félagsskapur hér í bæ, Fuglaverndarfélag Íslands, skrifaði flm. og að ég hygg fleiri þm. bréf, sem var raunar bæði ódagsett og nafnlaust þannig að það var varla marktækt, en í þessu bréfi fólst bæði ranghermi og ósæmilegar ásakanir og dylgjur í garð varpbænda við Breiðafjörð. Ég vil vegna þeirra, sem fengu þetta bréf í hendur, og ég held að það hafi verið allmargir þm., upplýsa það, að ég skrifaði Fuglaverndarfélagi Íslands til baka allharðort bréf, í fullri vinsemd þó, og síðan fékk ég mjög kurteist og elskulegt bréf frá fuglavini miklum hér í bæ sem stendur að Fuglaverndarfélagi Íslands, en var þó ekki höfundur bréfsins, og vorum við flm. beðnir afsökunar á þessu bréfi sem áður hefði verið skrifað nafnlaust og ódagsett. Það kom fram, sem ég hygg að sé tilfellið með fleiri, að þeir höfðu algjörlega misskilið tilgand og innihald frv. Þeir töldu að með þessu væri verið að gera atlögu til útrýmingar erni, sem var auðvitað á fullkomnum misskilningi byggt.

Ég hef, eftir að umr. urðu hér í hv. d., kynnt mér málið nokkru nánar, og ég hef m. a. komist að því, sem er í alla staði gleðilegt, að erninum hefur stórfjölgað hér á landi undanfarin ár, þótt stundum sé hið gagnstæða látið veðri vaka. Þannig hef ég samkv. arnarskýrslum, sem fuglaverndarmenn hér góðfúslega lánuðu mér, komist að raun um að árið 1939 voru taldir 53 ernir á Íslandi, en árið 1977 eru þeir 100. Þetta eru vissulega ánægjulegar upplýsingar, er stinga nokkuð í stúf við ramakvein þeirra manna sem telja að síðasti örninn sé í dauðateygjunum einhvers staðar þar sem hann helst heldur sig.

Ég vil einnig upplýsa, af því að mér fannst gæta í umr. þeirrar skoðunar að þetta mál væri ekki á rökum byggt og væri jafnvel dálítið móðursýkiskennt, að einmitt í skýrslum um örninn koma fram staðreyndir sem ég sem 1. flm. vísaði til í grg., m. a. það, að fæða arnar er eftir athugunum að dæma aðallega æðarfugl, ásamt með hrognkelsum og öðrum fuglum að vísu líka, eins og fýl og svartfugli, og það kemur fram, að á einni viku fundust árið 1960 16 dauðir æðarfuglar við eitt arnarhreiður. Fólk, sem á við alvarlegan ágang arnar að búa, fer því með rétt mál og það er aldeilis út í bláinn að bregða því um ýkjur og öfga og ofsóknarlöngun gegn erninum. Þetta er á fullum rökum reist.

Nú veit ég að það er alveg rétt, sem fuglafræðingar segja, að það er alls ekki alltaf nærvera arnar í varplandi þýði eyðileggingu á varpinu. Það er alls ekki alltaf. Við vitum ekki hverju það veldur, að stundum, en stundum ekki verður þetta mikið tjón af erninum. Það er athugunarefni. Það er vitnað í að örn hafi orpið í varpi og lítið tjón hafi orðið af á varpinu. Þetta er rétt. En það koma upp þau tilvik að örn getur lagt æðavarp í rúst, og ég veit dæmi um það, að vísu ekki frá Breiðafirði, heldur frá Ísafjarðardjúpi. Þar eru 3–4 varpeyjar og í einni þeirra, Borgarey, inni við Vatnsfjörð, lagðist örn á varpið sumar eftir sumar og dúntekja hrundi úr allverulegu magni, frá allt að því 100 pundum af dún niður í nánast ekki neitt. Varpið hefur ekki náð sér síðan. Þetta vil ég aðeins benda á til þess að fólk skilji, að hér er um mál að ræða sem er ekkert hégómamál.

Ég sætti mig við þessa málsmeðferð, að málinu verði vísað til ríkisstj. í von um að þessi umr. hafi þó vakið skilning á vandamálum bænda sem þarna eiga í hlut. Ég held raunar, af því að fuglaverndarmenn og alþm. eru ósveigjanlegir á því að slaka í nokkru til á friðunarákvæðum um örninn og ég er því persónulega hlynnt líka, að þá væri einna helst til ráða að gera fljótvirkari aðferð bænda til þess að fá einhverjar skaðabætur þegar í einstaka tilvikum, sem þetta mál miðast við, verður stórfellt sannanlegt tjón í æðavarpi af völdum arnarins. Ætti ég eftir að eiga hér lengri vist á Alþ., þá mundi ég reyna að huga að þessu máli í því formi síðar. En eins og ég gat um í framsögu á sínum tíma hefur það tekið varpbónda 15 ár að fá með hæstaréttardómi bætur fyrir tjón sem æðarvarp varð fyrir af völdum arnarins. Þarna þyrfti að gera einhverjar ráðstafanir í lögum til þess að gera einhverjar ráðstafanir í lögum til þess að gera þessa skaðabótaheimtu auðveldari en hún er nú.