07.11.1977
Efri deild: 12. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 466 í B-deild Alþingistíðinda. (342)

59. mál, eignarráð yfir landinu

Jón G. Sólnes:

Herra forseti. Frv, með svipuðum ákvæðum og felast í því frv., sem hér liggur fyrir til umr., var lagt fram á Alþ. í fyrra. Mér þykir rétt við 1, umr. þessa frv. í þessari hv. d. að endurtaka þá afstöðu mína sem ég lýsti við umr. málsins þegar það var síðast hér til meðferðar, að það eru mörg meginatriði þessa frv. sem stríða gegn lífsskoðun minni og ég er algerlega andvígur. Á ég þá alveg sérstaklega við þær takmarkanir, sem felast í þessu frv. á almennum eignarrétti einstaklinga á jarðnæði.

Eins og ég tók fram þá, er það engum vafa undirorpið að það er yfirgnæfandi skoðun bændastéttarinnar í íslensku þjóðfélagi, að bændur eigi sjálfir að eiga sínar bújarðir. Við þekkjum öll þá erfiðu lífsbaráttu sem leiguliðar á liðnum öldum áttu við að stríða, og við þekkjum líka hve mikið kynslóðirnar á undan lögðu í sölurnar til þess að ná því óskatakmarki, sem virtist vera háleitasta ósk hvers bónda, að verða sjálfseignarbóndi, eiga sjálfur að öllu leyti umráðaréttinn yfir jörðinni og landinu sem bann yrkir á hverjum tíma. Og eins og ég hef tekið fram áður í sambandi við umr. um þetta mál, þá stendur íslenska þjóðin í þeirri þakkarskuld við íslenska sveitamenningu, að hún á ekki að hrófla við þessari meginforsendu sem á hug yfirgnæfandi meiri hluta bændastéttarinnar og ekki að breyta neinu hér um.

Ákvæðin, sem felast í því frv. sem hér er til umr., eru svo byltingarkennd á þessu sviði, að ég vil nú þegar lýsa fyllstu andstöðu minni við þau. Ýmis ákvæði, sem felast í þessu frv„ geta verið þess virði að þeim sé gaumur gefinn. Ég vil ekkert draga úr því, að ýmislegt megi færa til betri vegar í sambandi við ýmsa þá eignaaukningu og verðmætaaukningu sem verður á lóðum og lendum vegna opinberra aðgerða sem einstaklingar í vissum tilfellum hafa engan þátt átt í. Og ég er fyllilega samþykkur því, að tekin sé til athugunar eðlileg skattlagning í því sambandi. En yfirleitt miðast sú stefna, sem kemur fram í þessu frv., við það að vera á móti því að einstaklingar í þjóðfélaginu eigi jarðir, lendur og lóðir, það sé einhver háski og einhver voði, það er alltaf verið að tala um þetta sem brask. Ég held einmitt að megi finna mörg dæmi þess, að einstaklingar, sem hafa beitt orku sinni og fjármunum, hafi unnið þrekvirki í því að gera óræktarkot að góðum og gagnlegum stórjörðum sem hafi haft stórkostlega þýðingu fyrir hlutaðeigandi sveitarfélag og þjóðina alla, þannig að þar hafi verið um verðmætasköpun að ræða sem fyllilega megi bera saman við eðlilega ræktun. Ég er nefnilega ekki þeirrar skoðunar, að öll verðmætasköpun sé af því illa, ef það sé einstaklingur sem stendur á bak við hana. Ég held einmitt að verðmætasköpun einstaklingsins sé af því góða, Það að skapa verðmæti er mjög sambærilegt við það að rækta jörðina. Maður fær ekki árangur af starfi þótt maður ætlist til þess að sá árangur verði fjárhagslegur, nema stunda það, alveg eins og bóndinn þarf að hlúa vel að jörðinni, plægja akurinn og búa vel að jarðveginum, bera á og sýna fyllstu nærgætni. Það fæst ekki góð uppskera nema að þessu sé unnið af hinni mestu alúð. Það er alveg eins með það, þegar maður ætlar að fá arð fjármunalegs eðlis, hann fæst ekki nema með nærgætni og atorku sem líkja má við verk sáðmanns. Og sannleikurinn er sá, hvort sem mönnum líkar betur eða verr, að allar mestu og veigamestu framfarirnar sem hafa komið þjóðunum og þjóðfélagsþegnunum til góðs, á mannkynið að þakka hinum frjálsa, upplýsta kapítalisma. Það er hann sem hefur verið grundvallarforsendan fyrir því, að þjóðum og einstaklingum líður yfirleitt vel. Þar er að finna hámarkið í því hvað mönnum vegnar vel. Það er einmitt þar sem möguleikar eru fyrir því að kapítalisminn fái að dafna sem framfarir og lífsgæði ern mest.

Það mætti gjarnan geta þess hér í dag, af því að er 7. nóv., að þrátt fyrir 60 ára viðleitni stærsta þjóðfélags og stærstu tilraun sem nokkurn tíma hefur verið gerð í veröldinni til þess að láta sósíalismann ráða og skapa þúsund ára ríkið, þá er nú ekki komið lengra þar heldur en svo, að frumhvötum frjáls samfélags hefur ekki verið náð. Menn hafa ekki frjálsa vegferð, menn hafa ekki fullnægjandi húsnæði, menn mega ekki skrifa, menn mega ekki ferðast og ég veit ekki hvaða og hvaða hömlur eru þar á. Þessi er útkoman eftir 60 ára starf. Nú skal ég ekki segja að margt hafi ekki verið fært til betri vegar. En við getum þó bent á aðra staði, þar sem hinn frjálsi, upplýsti kapítalismi hefur verið að verki og þar sem lífsfyllingin, lífsgæðin og velmegunin eru á miklu, miklu hærra stigi, eru á því hæsta stigi sem þekkist í heiminum. Þetta skulum við hafa í huga þegar við erum að fjalla um frv. til l. sem stefnir að því að hefta þetta frjálsa framtak, því þó að það sé vægt að orði komist í frv., þá er lokatakmarkið að afnema eignarréttinn.