02.05.1978
Sameinað þing: 73. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4303 í B-deild Alþingistíðinda. (3540)

295. mál, skipan nefndar til að gera tillögur um breytingar á stjórnarskrá

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Það er ljóst af þeim umr., sem orðið hafa um stjskr. og stjórnskipunarmál á þessu þingi frá upphafi, að rík ástæða er til þess að gera einhverjar ráðstafanir til þess að hraða endurskoðun stjskr. Ég verð þó að lýsa þeirri skoðun minni, að mér finnst blærinn á þessari till. vera að því leyti til mjög óviðfelldinn, að hún hefur verið túlkuð og ekki að ástæðulausu sem heldur hranalegt vantraust á núv. stjskrn. og þá sérstaklega formann hennar. Ég vil taka það skýrt fram, að ég vil alls ekki taka þátt í neinni slíkri yfirlýsingu og vil þá minna á að þetta er ekki fyrsta stjskrn. sem hefur setið langan tíma án þess að skila miklum árangri, því þær munu fleiri hafa reynt við þetta verkefni síðan lýðveldið var stofnað.

Ég hef stundum hreyft þeirri hugmynd í umr. um þetta mál, þó ekki hér á þingi, að til mála kæmi að fela sérstökum hópi utanþingsmanna, sem gæti jafnvel verið tímabundið stjórnarskrárþing, það verkefni að endurskoða stjskr. Það felst í því dálítill hroki, að engir geti unnið þetta verkefni nema þær hv. sálir, sem hafa verið kosnar til setu á Alþ., og að ekki megi vinna þetta verkefni nema undir verndarvæng núv. stjórnmálaflokka. Það hefur verið reynt í öðrum löndum og gefist vel að velja fólk, sem ekki hefur verið kosið í pólitískar trúnaðarstöður, til þess að endurskoða stjórnarskrár, og má þá minnast þess, að árangur slíkrar endurskoðunar hlýtur að koma fyrir Alþ., því enginn getur breytt stjskr. nema það. Um þetta þýðir ekki að tala frekar því að þessi hugmynd hefur í viðræðum litlar undirtektir fengið meðal annarra stjórnmálamanna.

Í tillgr. er hinni nýju nefnd falið að endurskoða lög um Alþ., og ein af till., sem vísað er frá, er um endurskoðun á starfsháttum Alþingis. Nú eru viss atriði varðandi starfshætti Alþ. hluti af stjórnarskrármálinu og þá fyrst og fremst deildaskiptingin og gæti orðið fleira. Þetta á að sjálfsögðu að falla undir verkefni nefndarinnar, en ég tel að það sé mjög hæpið að fela sömu nefnd að endurskoða þingsköp. Þegar stjskr. hefur verið breytt, sem við skulum vona að verði áður en langur tími líður, þá tel ég að óhjákvæmilegt verði að það verði þingmannanefnd sem endurskoðar þingsköp á grundvelli þeirra breytinga varðandi meginatriði sem kynnu að vera gerð í stjskr.Ég vona að það sé nóg að það komi fram hér, og vona, að allshn. sé sammála mér um það, að ekki sé ætlast til að stjskrn. fari að setjast niður og tala um mínútur í umr. og önnur smáatriði sem eru í grein eftir grein í þingsköpum. Ég býst við að nm. mundu fljótlega komast að þessari niðurstöðu sjálfir og taka fyrir þau atriði varðandi starfshætti Alþ., sem eiga heima í stjskr. eða gætu átt þar heima, en leggja þingsköpin til hliðar, því það er eðlilegt að taka þau á eftir stjskr. sjálfri og það er eðlilegt að um þau fjalli menn sem sitja á Alþ. og hafa reynslu af störfum þar.

Ég vil að lokum láta í ljós að þeir, sem kunna að verða kosnir í nýja stjskrn., eru varla þau ofurmenni að þeir ljúki þessu verki frá kosningalokum — eða jafnvel þó þeir byrjuðu í næstu viku — fyrir 10 okt. í haust. Það er mjög hátt stefnt að sníða þeim svo þröngan stakk og hæpið að það sé æskilegt, m. a. vegna þess að ef þeim tekst að ná samkomulagi um breytingar á kjördæmaskipan eða aðrar verulegar breytingar á stjskr., þá ber samkv. gildandi stjskr. að rjúfa þing. Gæti verið að við stofnuðum með því til tvennra kosninga næsta haust og vetur, þó að hugsanlegt sé að Alþ. taki sér lengri tíma til að fjalla um drög að nýrri stjskr., jafnvel þó að það tækist að ljúka þeim fyrir haustið. Á hinn bóginn hefur þetta ákvæði staðið í mörgum ályktunum um endurskoðun laganna og svo oft verið látið víkja fyrir beinni nauðsyn raunveruleikans, að e. t. v. er ekki ástæða til að hafa miklar áhyggjur af því.