02.05.1978
Efri deild: 95. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4333 í B-deild Alþingistíðinda. (3582)

272. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Frsm. minni hl. (Jón Árm. Héðinsson):

Herra forseti. Landbn. ræddi þetta mál á einum fundi og ég óskaði ekki eftir nánari upplýsingum um stöðu deildarinnar. Það var ekkert svigrum til þess nú á þriðja síðasta vinnudegi Alþ. En ég geri grein fyrir afstöðu minni í nál. sem nú er rétt útbýtt og hefur númerið 827.

Þetta frv. felur í sér að setja skal á svonefnt jöfnunargjald er nemi 1% og skal því varið til þess að bæta upp mjög lélega afkomu Stofnlánadeildar landbúnaðarins. Viðurkennt er í aths. við lagafrv. þetta, að Stofnlánadeildin hefur verið rekin með stórfelldum halla um nokkurt skeið. Augljóst er, að jafnþýðingarmikill fjárfestingarsjóður getur ekki haldið lengi áfram án þess að tryggja eðlilega eiginfjármyndun.

Skiptar skoðanir eru um hvernig þetta skuli gert. Undanfarin ár hafa hinir ýmsu fjárfestingarsjóðir landsmanna hækkað útlánsvexti vegna verðbólguáhrifa og komið á vísitöluákvæðum sem tryggja verðgildi útlána meira en verið hefur. Stofnlánadeild landbúnaðarins hefur farið varlegar í þessu efni en aðrir stofnlánasjóðir, og svo virðist sem stjórnendur Stofnlánadeildarinnar treysti sér ekki að fylgja hliðstæðum reglum um lánakjör og vísitöluákvæði og nú er orðið hjá hliðstæðum fjárfestingarsjóðum.

Margsinnis hefur það komið fram af hálfu talsmanna Seðlabanka Íslands og annarra, er með fjárfestingarmál fara, að nauðsyn er á að samræmi sé milli útlána og vísitöluákvæða fjárfestingarsjóðanna og þar sitji atvinnuvegirnir við sama borð. Stuðningsmenn þessa frv. eru sýnilega á annarri skoðun og telja stöðu landbúnaðarins svo sérstæða, að um lánakjör hjá Stofnlánadeildinni skuli gilda verulega önnur ákvæði en hjá öðrum stofnlánasjóðum. Þess vegna er þetta frv. flutt til þess að tryggja með jöfnunargjaldi, er komi inn í vöruverð, betri afkomu Stofnlánadeildarinnar, þar sem lánareglur eru svo óraunhæfar að þær tryggja ekki í raun eigið fjármagn deildarinnar. Niðurstaðan af þessu verður því sú, að almenningur er látinn borga í gegnum þetta 1% jöfnunargjald alrangrar fjárfestingarstefnu í landbúnaðinum. Það er kunnugt, að aðstaða bænda er afar misjöfn, og það hefur ekki farið leynt, sbr. fjölmarga fundi og langa sem bændur hafa sjálfir staðið fyrir á undanförnum mánuðum og rætt þar hin margvíslegu vandamál sín.

Þótt þetta gjald eigi að vera tímabundið, þá felur það í sér mjög takmarkaða lausn á vandamálum bændastéttarinnar, en ýfir upp andstöðu margra gagnvart ríkjandi stefnu í fjárfestingarmálum í landbúnaði. Mikilvægast, þegar til lengdar lætur, bæði fyrir bændastéttina og neytendur, væri að vandamál bænda væru tekin á miklu breiðari grundvelli og stefna mörkuð er tryggði bændum sem jafnasta og öruggasta afkomu og jafnaði út hinn gífurlega mismun á milli þeirra innbyrðis.

Þar sem þetta frv. leysir aðeins örlítinn anga af miklu vandamáli, telur undirritaður það ótímabært við ríkjandi aðstæður og getur ekki fallist á samþykkt þess.

Þetta er nál. mitt. Ég vildi aðeins vekja athygli manna á því, að á bls. 3 segir í aths. við frv., þó að það sé nú held ég ekki í frv. sjálfu:

„Eðlilegt er að í skuldabréfum Stofnlánadeildar verði framvegis ákvæði um heimild fyrir stjórn deildarinnar að breyta lánakjörum.“ Það er talað um heimild. — „Hún nýti þá heimild, ef breytingar verða á útlánareglum, svo að allir lántakendur deildarinnar njóti jafnt þeirrar lánakjarajöfnunar, sem ákveðið verður á hverjum tíma.“ — Ekki eru menn nú bjartsýnir á að jafnvægi verði á lánamarkaðinum og jafnvægi í peningamálunum.

Þá er talið að 1% jöfnunargjald mundi leiða til 0.18% hækkunar á framfærsluvísitölu eða sömu áhrifa og ef vaxtaleið yrði valin.

Ég ætla ekki að fara nánar út í þessi mál. En ég sé hér í frásögnum af umr. í Nd., að talað er um vaxtaokur og margt fleira. Ég vil aðeins minna á þá staðreynd, sem ég sagði frá hér í haust þegar umr. fóru fram um stefnuræðu forsrh„ að árið 1976 urðu sparifjáreigendur í þessu landi að sæta rúmlega 14 milljarða verðrýrnun, hvorki meira né minna. Ég hef ekki fengið enn upplýsingar um skiptingu sparifjár og útreikninga frá Seðlabankanum 1977, en þegar við hugleiðum þessar tölur, þá er það ekki neitt smámál að hafa vaxtaákvæði og verðtryggingarákvæði sem næst raunveruleikanum í íslenskum fjármálum.