02.05.1978
Neðri deild: 91. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4372 í B-deild Alþingistíðinda. (3623)

170. mál, Þjóðleikhús

Frsm. (Ellert B. Schram):

Hæstv. forseti. Hv. menntmn. hefur tekið þetta mál til meðferðar á fundum sínum og hefur orðið sammála um að mæla með samþykkt frv. eins og það liggur fyrir eftir afgreiðslu í Ed., en þó með þeirri breytingu að 2. mgr. 12. gr. hljóði svo:

„Þjóðleikhúsinu er heimilt, eftir því sem aðstæður leyfa, að ráða til starfa leikritahöfund eða aðra höfunda allt að einu ári.“

Breytingin er í því fólgin, að í staðinn fyrir að heimildin nái til þess að ráða leikritahöfund eða aðra höfunda til þriggja eða sex mánaða, þá er þessi tími rýmkaður í allt að eitt ár. N. varð sammála um að mæla með þessari breytingu.

Ég tel, hæstv. forseti, að þm. sé þetta mál svo kunnugt, enda hefur þetta frv. legið fyrir hér á fleiri en einu þingi, að ástæðulaust sé að fara um það fleiri orðum og lýsa því efnislega, en endurtek að menntmn. mælir einróma með því, að frv. verði samþykkt með þessari breytingu.