02.05.1978
Neðri deild: 92. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4379 í B-deild Alþingistíðinda. (3654)

299. mál, jöfnunargjald

Frsm. meiri hl. (Lárus Jónsson):

Virðulegi forseti. Fjh.- og viðskn. þessarar hv. d. hefur haft frv. til I. um jöfnunargjald til athugunar. N. varð ekki sammála um afgreiðslu málsins. Meiri hl. mælir með samþykkt frv. óbreytts, en minni hl. skilar séráliti og er andvígur málinu. Nm hélt nokkra fundi sameiginlega með fjh.- og viðskn. hv. Ed. Á fundi n. komu eftirgreindir aðilar og gáfu þeim upplýsingar og skýrðu þeim frá skoðunum sínum á frv.: Frá Félagi ísl. iðnrekenda komu Davíð Scheving Thorsteinsson formaður og Haukur Björnsson framkvæmdastjóri, frá Verslunarráði Íslands komu Þorvarður Elíasson formaður og Ragnar Halldórsson varaformaður, frá ASÍ mætti Ásmundur Stefánsson hagfræðingur og frá Iðju Bjarni Jakobsson formaður.

Fulltrúar iðnrekenda mæltu eindregið með samþykkt frv., sem þeir töldu hagsmuna- og sanngirnismál fyrir íslenskan iðnað. Þeir bentu á að æskilegt væri að kveða fastar á um að uppsafnaður söluskattur yrði greiddur af útfluttum iðnaðarvörum á árinu 1979 og að fram kæmi greinilegar til hvers ætti að verja tekjum af jöfnunargjaldinu, Í nál. meiri hl. er að þessu vikið. Þar er á það bent að líta verði á það sem sjálfsagðan hlut, að þessi uppsöfnunaráhrif verði endurgreidd meðan gjaldið er lagt á og ekki verður tekinn upp virðisaukaskattur.

Fulltrúar Verslunarráðs Íslands lögðu fram ályktun um málið, dags. 28. apríl s.1. Ályktunin hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Framkvæmdastjórn Verslunarráðs Íslands telur að álagning 3% jöfnunargjalds á innfluttar vörur, eins og frv. til l. þar um gerir ráð fyrir að verði komið á, hafi ýmis miður æskileg áhrif í för með sér og sé ekki til þess fallin að leysa vanda íslensks iðnaðar. Verslunarráð Íslands bendir á að sú skerta samkeppnisaðstaða, sem íslenskur iðnaður býr við gagnvart erlendum framleiðendum, verði ekki leiðrétt með fullnægjandi hætti fyrir íslenskan iðnað á annan hátt en með því að taka upp virðisaukaskatt og fella núverandi söluskatt niður. Jafnframt því sem Verslunarráð Íslands varar við samþykkt frv. hvetur það stjórnvöld til að hraða gerð frv. til l. um virðisaukaskatt og lýsir yfir fullum vilja til samstarfs í því máli. Enn fremur er rétt að vekja athygli stjórnvalda á því, að ef efnahagslíf í landinu þolir þá auknu verðbólgu, sem álagning jöfnunargjalds mundi hafa í för með sér og ætla má að verði um 0.75–1%, þá eru það hagsmunir íslensks iðnaðar og alls annars atvinnulífs í landinu, að slíkt eigi sér stað með almennri gengisbreytingu, en ekki upptöku nýrra verndartolla.“

Félag ísl. stórkaupmanna mun hafa svipaða afstöðu til máls þessa, að því er mér er tjáð.

Þrátt fyrir þessa ályktun Verslunarráðs Íslands tóku formaður og varaformaður ráðsins fram á fundi með n., að miðað við harðnandi samkeppni íslensks iðnaðar og í trausti þess, að virðisaukaskattur yrði tekinn upp sem fyrst, en það væri kjarni málsins frá þeirra hálfu, og hér sé um bráðabirgðaráðstöfun að ræða, þá vildu þeir ekki bregða fæti fyrir málið.

Hagfræðingur ASÍ lýsti áhyggjum sínum af þeim áhrifum, sem þetta gjald hefði á verðlag í landinu, og taldi þau áhrif verða meiri en Hagstofan áætlar. Hagstofa Íslands áætlar verðhækkunaráhrifin 0.3% samkv. athugun sem barst n., dags. 10 febr. 1978, en hagfræðingur Alþýðusambands Íslands taldi ekki raunsætt að meta þau minni en 0.5%.

Fulltrúi Iðju, Bjarni Jakobsson, kvaðst meðmæltur því að efla íslenskan iðnað, en ekki hafa haft tækifæri til þess að kynna sér frv. og því væri óhægt um vik fyrir sig að meta hvort þetta væri rétta leiðin til þess að hans dómi.

Jafna má samkeppnisaðstöðu inntendra og erlendra framleiðenda á þessu sviði skattlagningar, sem frv. fjallar um, á þrennan hátt:

Í fyrsta lagi með því að endurgreiða þann söluskatt sem innlendir framleiðendur verða að greiða í ríkissjóð, en erlendir keppinautar þeirra gera ekki í viðkomandi löndum vegna virðisaukaskattskerfis. Þetta er afar flókin aðferð og í raun illframkvæmanleg. Reikna yrði út í hverri iðngrein, hversu mikil uppsöfnunaráhrif söluskattsins eru, en þau eru talin í flestum tilfellum milli 2 og 4% af framleiðslukostnaði og endurgreiða síðan hverjum einasta framleiðanda. Auk þess þyrfti að afla fjár til ríkissjóðs með einhverjum hætti til þess að standa straum af þessum auknu útgjöldum eða skera niður framkvæmdir eða þjónustu til þess að vega á móti þeim.

Í öðru lagi mætti ná þessum jöfnuði með því að taka upp virðisaukaskattskerfi hér á landi. Iðnrekendur og verslunarráðsmenn lögðu mikla áherslu á að því yrði hraðað, og skal undir það tekið. Óhjákvæmilegt er því að gera bráðabirgðaráðstafanir til lausnar þessum vanda iðnaðarins.

Í þriðja lagi er unnt að ná framangreindum jöfnuði í skattlagningu innlendra og erlendra iðnaðarframleiðenda með álagningu slíks jöfnunargjalds á meðan virðisaukaskattur er ekki upp tekinn, eins og gert er ráð fyrir í frv., en sé þá útflytjendum endurgreiddur söluskattur sem leggst á framleiðslukostnað þeirra vara sem fluttar eru út. Þetta er fyrst og fremst markmið þessa frv. og að koma þannig á jöfnuði í skattlagningu íslenskra iðnrekenda og erlendra, bæði innanlands og á útflutningsmarkaði. Með álagningu jöfnunargjaldsins er þó hægt að ganga lengra en að jafna skattlagninguna, þ. e. a. s. með því að verja verulegum hluta af þeim tekjum, sem verða af gjaldinu, til almennrar íslenskrar iðnþróunar. Þetta er einnig yfirlýst markmið með lögfestingu frv., og þannig er stefnt að því að gera enn þá betur en jafna samkeppnisaðstöðu íslensks iðnaðar með þessu frv. Markmiðið er að fjármagna nýjar iðnþróunaraðgerðir sem út af fyrir sig eru til mikilla hagsbóta fyrir þennan mikilvæga atvinnuveg.

Hliðstætt jöfnunargjald og lagt er til að lagt verði á í þessu frv. er lagt á í Finnlandi, en þar er ekki ósvipað söluskattskerfi og hér á landi, gagnstætt því sem er í flestum löndum EFTA og Efnahagsbandalagsins, þ. e. a. s. helstu framleiðslulöndum samkeppnisvöru á íslenskum markaði og á þeim mörkuðum, sem Íslendingar selja framleiðsluvöru sína. Þetta jöfnunargjald er þó misjafnt eftir tegundum vara í Finnlandi, allt frá 1.5–6%, og hefur verið lagt á í mörg ár til stuðnings finnskum iðnaði og til jöfnunar í samkeppni við þá sem búa við söluskattskerfi.

Áætlað er að tekjur af þessu jöfnunargjaldi muni verða um 675 millj. kr. á yfirstandandi ári, en um 1080 millj. á heilu ári. Þessi áætlun er reist á þeirri forsendu, að ekki er ætlunin að leggja þetta gjald á aðföng til iðnaðar, skip, veiðarfæri, áburð o. fl., sem ákvæði verða sett um í reglugerð. Ákveðið er að verja tekjum af gjaldinu til þess að endurgreiða útflytjendum söluskatt, sem leggst á kostnaðarverð útfluttra iðnaðarvara meðan gjaldið er á lagt og virðisaukaskattur er ekki upp tekinn, og jafna þannig aðstöðu þeirra til þess að keppa við framleiðendur á erlendum mörkuðum sem búa við virðisaukaskattskerfi. Þá er enn fremur ákveðið að verja hluta gjaldsins til iðnþróunar, t. d. nýiðnaðarverkefna og Útflutningsmiðstöðvar iðnaðarins, Tæknistofnunar Íslands, starfsþjálfunar o. s. frv. Vísa ég til ræðu hæstv. fjmrh. um þetta atriði við 1. umr.

Benda má á að þau nýju iðnþróunarverkefni, sem ráðist yrði í með tekjum af þessu frv., eru mörg hver á undirbúningsstigi. Þar má m. a. nefna nokkur þeirra veigamiklu verkefna sem yrðu undirbúin á vegum Iðntæknistofnunar Íslands sem fyrirhugað er að setja á laggir og sameina þannig 2–3 stofnanir iðnaðarins samkv. sérstöku frv. sem er nú til afgreiðslu hér á hv. Alþ. Þessum verkefnum verður auðvitað haldið áfram þótt þetta gjald verði fellt niður, og verður þá að standa straum af kostnaði við þau að verulegu leyti úr ríkissjóði. Það er því ekki óeðlilegt, að ekki sé öllum tekjum af jöfnunargjaldinu varið strax til þessara verkefna, heldur gert ráð fyrir, að ríkissjóður styðji þessi verkefni síðar, og mun þá þurfa til miklu meiri fjármuni en ríkissjóður fær nú í sinn hlut í bili af þessu gjaldi.

Mjög eru skiptar skoðanir um áhrif þessa jöfnunargjalds á verðlag í landinu. Hagstofa Íslands hefur áætlað bein og óbein verðhækkunaráhrif um 0.3% , eins og ég sagði áðan, en hagfræðingur ASÍ telur að þau muni verða um 0.5%. Fulltrúar Verslunarráðs Íslands töldu þau geta numið 0.7–1%. Aftur á móti vilja iðnrekendur halda því fram, að verðhækkunaráhrifin verði einungis frá 0.1–0.2%. Þessar áætlanir eru að sjálfsögðu miðaðar við mismunandi forsendur. Sannleikurinn er sá, að mjög örðugt er að gera sér fulla og nákvæma grein fyrir því, hver verðhækkunaráhrifin verða.

Það er einkum tvennt sem veldur þessu. Hið fyrra er spurningin um hvort innflutt iðnaðarvara hækkar að fullu í samræmi við þetta gjald eða hvort erlendir framleiðendur reyna að halda þrátt fyrir gjaldið hliðstæðu verði á íslenska markaðnum og þar með þeirri markaðshlutdeild sem þeir höfðu. Á það hefur þrásinnis reynt áður, þegar gengisfellingar hafa orðið, að erlendir framleiðendur iðnaðarvara hafa lækkað vörur sínar í fob-verði til þess að standast betur samkeppni á íslenska markaðnum. Félag ísl. iðnrekenda heldur því fram að þetta muni gerast að nokkru leyti, ef gjaldið er lagt á.

Síðari ástæðan fyrir því, hversu örðugt er að meta verðhækkunaráhrif gjaldsins, er óvissa um hvort íslenskir iðnrekendur muni hækka vörur sínar í skjóli þessa gjalds. Fulltrúar Verslunarráðs Íslands töldu þetta einsýnt þar sem tilgangurinn með gjaldinu væri að bæta samkeppnisaðstöðu íslenskra framleiðenda. Í útreikningum sínum reikna þeir með að gjaldið hækki allar innfluttar vörur sem nemi um 3% og íslenskir iðnaðarframleiðendur noti tækifærið til samsvarandi hækkunar. Því til viðbótar reikna þeir verðhækkunaráhrifin í langan tíma. Fulltrúar Félags ísl. iðnrekenda eru á allt öðru máli. Þeir segjast beinlínis skuli beita sér gegn því, að íslenskir iðnrekendur hækki vöru sína í skjóli gjaldsins, en reyna á hinn bóginn að styrkja stöðu sína á markaðnum þegar jöfnun hefur komist á í skattlagningu þeirra og keppinauta.

Af framansögðu er ljóst, að mjög örðugt er að gera sér hlutlæga grein fyrir verðhækkunaráhrifum þessa gjalds og þar með þeim hækkunum sem af því kynni að leiða á launagreiðslum atvinnuveganna miðað við óbreytta vísitölu og verðbótakerfi launa. Meginhluti fjh.- og viðskn. er þó þeirrar skoðunar, að áætlun Hagstofu Íslands sé líklega raunsæjust.

Um verðhækkunaráhrifin mætti margt fleira segja. T. d. mætti á það benda, að hefði þessi mismunur á skattlagningu íslenskra og erlendra framleiðenda iðnaðarvöru verið jafnaður með endurgreiðslu úr ríkissjóði og tekna til þess aflað með hækkun tekjuskatts, þá hefði slík ráðstöfun ekki haft áhrif á kaupgreiðsluvísitölu. Þetta segir sína sögu um það kerfi sem enn er haldið á þessu sviði. Jöfnunargjald, sem á er lagt til þess að jafna aðstöðu íslenskra atvinnugreina og erlendra og til þess að efla iðnþróun, verður á hinn bóginn til þess að hækka launagreiðslur í landinu að einhverju leyti með óbreyttu kerfi.

Hér er ekki staður né stund til þess að gera úttekt á stöðu íslensks iðnaðar í sambandi við það mál sem hér er til umr. Hv. þm. hafa fengið miklar upplýsingar um þau efni, ekki síst á iðnkynningarári sem lauk fyrir skömmu, svo að ekki er þörf á því. Samt sem áður vil ég vekja athygli á einum þætti þess máls, sem ég held því miður að sé tæpast nógu ljós fyrir íslenskum forustumönnum, þm. og embættismönnum. Ég á hér við þá hættu sem stafar af því fyrir íslenskan iðnað, að forráðamenn nágrannaþjóða okkar og helstu keppinauta okkar, bæði á okkar eigin innlenda markaði og erlendum mörkuðum, hafa tekið upp þá stefnu í mjög vaxandi mæli að verja sívaxandi fjárhæðum úr ríkissjóði viðkomandi landa til almennra og sérstakra stuðningsráðstafana við iðnað. Afleiðingin er sú, að iðnaðarvörur, sem framleiddar eru í þessum löndum, eru í samkeppni við framleiðsluvörur íslensks iðnaðar og eru þar í raun meira og minna niðurgreiddar. Ástæðurnar fyrir þessu eru vafalaust margþættar. Niðurfelling tolla og aukin fríverslun hefur neytt ýmsar þjóðir til þess að fara inn á þá braut að styðja iðnaðarframleiðslu sína með ýmsum hætti, en við þetta bætist gífurleg áhersla á byggðasjónarmið, eflingu iðnaðar í strjálbýli og á afskekktari svæðum og barátta gegn atvinnuleysi og efnahagserfiðleikum sem hrjáð hafa margar þjóðir að undanförnu. Hver svo sem ástæðan er hlýtur þessi þróun að vekja ugg. Við Íslendingar höfum reynt að efla iðnaðinn með almennum aðgerðum, en við höfum alls ekki bolmagn til þess að gera það á svipaðan hátt og þessar þjóðir, með sérstökum stuðningsaðgerðum og raunar beinum niðurgreiðslum iðnaðarvara, eins og sumar þjóðir hafa að nokkru leyti gert.

Því er á þetta minnt hér, að þessi staðreynd um vaxandi tilhneigingu til beinna niðurgreiðslna undirstrikar rækilega að ekki er unnt að daufheyrast lengur við því sanngirnismáli, að íslenskum iðnaði sé ekki sérstaklega íþyngt með skattálögum umfram þá sem eru í samkeppni við framleiðendur íslenskra iðnaðarvara, bæði á heimamarkaði og erlendis. Þegar þessi rök eru færð til viðbótar því, sem ég hef tíundað hér að framan, ætti mönnum að skiljast hversu brýnt er að leysa það mál sem þessu frv. er ætlað að leysa. Þess vegna leggur meiri hl. fjh.- og viðskn. til að frv. verði samþykkt.