05.05.1978
Neðri deild: 97. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4486 í B-deild Alþingistíðinda. (3878)

309. mál, almannatryggingar

Vilborg Harðardóttir:

Herra forseti. Ég get ekki látið hjá líða við 1. umr. þessa máls að gagnrýna þau vinnubrögð sem átt hafa sér stað í sambandi við þetta frv. eða kannske öllu heldur í sambandi við fyrri frv. sem hafa verið lögð fram um þetta mál. Snemma í vetur var lagt fram frv. þar sem gert var ráð fyrir að steypa saman slysatryggingum og sjúkratryggingum. Síðan var það látið liggja í allan vetur, vegna þess að verið var að bíða eftir seinni hluta þess frv., það var gert ráð fyrir að fjalla saman um þessi tvö frv. Það kom síðan ekki fram fyrr en á síðustu vikum þingsins og ætlunin var að drífa þetta allt saman í gegn á nokkrum dögum óbreytt. Að sjálfsögðu brugðust launþegasamtökin hart við þarna, enda var ráðist á vinnandi fólk og átti að skerða slysatryggingu sem fólk nýtur nú. En sem betur fer hefur þetta verið leiðrétt með því nýja frv. sem nú er komið. Ég veit ekki hvort þetta er 3., 4. eða 5. útgáfa, en ég get sem sagt ekki látið hjá líða að gagnrýna þetta.

Ég ætla að gagnrýna annað líka, og það er að í þau tvö ár sem sú n., sem undirbjó þessi frv. sem lögð voru fram í vetur, starfaði, var öllum frv., sem fram komu hér á þinginu, vísað frá eða nánast vísað frá á þeirri forsendu, að það væri verið að endurskoða lög um almannatryggingar. En þó að þessum frv. væri vísað frá að sjálfsögðu í þeirri meiningu að þessi n., sem væri að endurskoða lögin, liti á þessi frv., þá hefur ekkert verið gert með þau. Ég vil benda hv. þm., sem hafa staðið að frv. um almannatryggingar, á þetta, að þau liggja öll enn þá óskoðuð, og það er nú sannarlega tími til kominn, nú þegar n. hefur loksins skilað af sér, að endurflytja þau. Ég mun flytja hérna nokkrar brtt. við 2. umr.