05.05.1978
Sameinað þing: 75. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4534 í B-deild Alþingistíðinda. (3923)

58. mál, íslensk stafsetning

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Í fjarveru formanns hv. allshn. mæli ég fyrir meirihlutaáliti þessarar hv. n. sem er á þskj. 615 og undirritað af formanni n., Ellert B. Schram, Lárusi Jónssyni, Jónasi Árnasyni og Ólafi G. Einarssyni. Eins og fram kemur á þskj. varð n. ekki sammála um afgreiðslu málsins. Minni hl. n. hefur skilað séráliti.

Nefndinni bárust umsagnir í fyrsta lagi frá nýstofnuðum Samtökum móðurmálskennara, þau samtök lýsa sig andstæð tillögunni, og í öðru lagi fékk n. umsögn frá Íslenskri málnefnd og er hún mjög ítarleg, þessi umsögn, og er birt sem fskj. í nál. Í umsögn Íslenskrar málnefndar segir:

„Íslensk málnefnd telur mestu varða að koma á festu í stafsetningu íslenskrar tungu“, eins og segir í grg. með tillögunni. Djúpstæður ágreiningur um stafsetningu er hættulegur til lengdar. Brýnast af öllu er að leita leiða til sátta. Réttritun er, hvort eð er, umfram allt samkomulagsatriði.“

Meiri hl. allshn. telur að umsögn Íslenskrar málnefndar taki af tvímæli um að málamiðlunartillaga þessi, sem felst í tillögunni, er til lausnar á illvígum deilum sem nauðsynlegt er að setja niður. Þess vegna hefur umsögn málnefndar verið prentuð með sem fskj. til þess að öllum þm. gefist kostur á að kynna sér hana, eins og ég sagði áðan. Ég vísa til þessarar umsagnar og þessa ítarlega nál. og tel óþarft að fjölyrða um þetta mál frekar að sinni. En n. flytur brtt. á þskj. 616 með tilliti til þessarar umsagnar sem ég hef hér vitnað í. Þar segir:

„Á eftir 2. mgr, tillgr. komi ný mgr., svo hljóðandi: Jafnframt ályktar Alþingi að fela Íslenskri málnefnd að semja reglugerð um ritun z samkv. framangreindum ákvæðum. Þó skal n. heimilt að breyta einstökum atriðum, ef það er einróma álit hennar að betur fari og vænlegra sé til sátta. Samningu reglugerðarinnar skal lokið eigi síðar en 1. júlí n. k. og skal reglugerðin þá birt almenningi.“

Meiri hl. allshn. leggur til að þáltill. verði samþykkt með þessari breytingu.