06.05.1978
Efri deild: 104. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4631 í B-deild Alþingistíðinda. (3990)

309. mál, almannatryggingar

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Af misjöfnu tagi hefur verið sá söknuður, sem menn hafa borið í brjósti yfir því að sjá ekki hæstv. ráðh. í salnum eða á landinu, en ég saknaði hæstv. ráðh. áðan af því óvenjulega tilefni, að ég ætlaði að þakka honum fyrir hvernig að þessum málum hefði verið staðið og hversu hann hefði komið til móts við stjórnarandstöðuna í þessum efnum. Ég sagði hins vegar að tíminn væri það knappur að við gætum ekki rætt þetta mál eins náið og vel og við hefðum þurft á að halda og e. t. v. ekki heldur náð samkomulagi við hæstv. ráðh. um nauðsynlegar lagfæringar sem hefði e. t. v. verið hægt að komast að samkomulagi um ef tíminn hefði verið nægur. Það er nokkuð óvenjulegt, að við stjórnarandstæðingar fáum tækifæri til þess að þakka þannig fyrir okkur, og því ekki að ástæðulausu að ég saknaði hæstv. ráðh.

Ég hafði alveg sérstaklega í huga þann lið 8. gr. þessa frv. sem fjallar um óhjákvæmilegan ferðakostnað, því að það er mál sem ég hef lengi verið með í huga og hefur lengi verið baráttumál okkar hv þm. Stefáns Jónssonar hér að yrði komið á, og eflaust má rekja það enn þá lengra aftur sem baráttumál manna, að landsbyggðarfólk fengi þarna endurgreiddan að hluta til eða að öllu ferðakostnað sinn. Ég met þessa grein langmest af þeim sem í þessu frv. eru, og þó hún ein hefði verið, þá hefði ekki verið að ófyrirsynju samþykkt þetta frv. Hins vegar vildi ég aðeins spyrja hæstv. ráðh. að því vegna þeirrar breytingar sem varð á greininni í Nd. hvaða skilning mætti í hana leggja. Í frv. eins og það kom frá ráðh., og þá á ég við upphaflega frv. eða það upphaflegasta, mætti segja, stóð: „óhjákvæmilegan ferðakostnað eftir reglum, er tryggingaráð setur og ráðherra staðfestir“. Síðan var af heilbr.- og trn. í Nd., skilst mér, bætt inn ákvæðinu: „óhjákvæmilegan ferðakostnað með takmörkunum, eftir reglum er tryggingaráð setur“. — Ég vildi aðeins vita, ef hæstv. ráðh. gæti gefið upplýsingar um það, hvað þessi breyting fæli í sér. Hér var um það að ræða áður, eftir þeim upplýsingum sem við höfum fengið, að með þessu ætti hæstv. ráðh. við að viðvíkjandi þeim sjúkdómum, sem tryggingaráð setti reglur um að greiða ætti ferðakostnað með þá yrði ferðakostnaðurinn greiddur alfarið. En nú er sem sagt komið„með takmörkunum“, og ég skil það sem skerðingu frá því sem hæstv. ráðh. reiknaði með í hinni upphaflegri gerð frv. Þarna hefur eitthvað komið til sögunnar sem hefur breytt þessu, því miður, tel ég, vegna þess að ég held að sá skilningur okkar hafi verið réttur, að reglurnar hafi átt við um þá sjúkdóma eingöngu, sem þessar reglur ættu að gilda um, og hin ákveðnu tilvik, en ferðakostnaðurinn ætti að greiðast að fullu eins og þetta var í frv. hæstv. ráðh., en síðan haft því verið breytt í Nd. með því að setja þarna inn „með takmörkunum“ og þarna geti verið um verulega skerðingu á þessu að ræða. Ég vildi aðeins spyrja hæstv. ráðh. um það.

Ég veit að það er rétt, sem hv. 2. þm. Reykn. sagði áðan, að vissulega eru tryggingalögin í endurskoðun áfram, og það gerði ég mér fyllilega ljóst. En á okkur hvílir engu að síður sú skylda, þegar við fáum þau loksins til meðferðar í lok kjörtímabilsins, að við reynum að sníða af þá agnúa sem eru svo augljósir að allir eru eiginlega sammála um að þeir eigi að sníðast af.

Það varðaði sem sagt c-liðinn í þessari brtt. frá mér varðandi 14. gr. laganna. Ég vildi aðeins beina því til hæstv. ráðh., að hann beitti sér fyrir því nú þegar við þessa endurskoðunarnefnd, sem er að störfum, að hún undirbyggi breytingu í þá átt sem ég er með í brtt. minni. Hér er um mjög fá tilvik að ræða. Hér er um að ræða meðlagsgreiðslur örorkulífeyrisþega sem Tryggingastofnunin greiðir, en ef eiginkonan flyst af landi burt, þá fellur þetta ákvæði brott og örorkulífeyrisþeginn þarf að greiða meðlagið að fullu, en þarf þess ekki að öðrum kosti. Því tel ég að þessi fáu tilvik eigi að taka út úr og ekki eigi að mismuna á þennan hátt. Ég held að allir séu yfirleitt sammála um það, en þetta er lagaákvæði sem tryggingaráð og Tryggingastofnun verður að halda sig við. Mér er sagt að þetta hafi komið fyrir í þremur tilvikum aðeins, það sé aðeins um þrjú tilvik að ræða. Það er þess vegna ekki um neinar upphæðir að ræða sem skipta máli. Þetta skiptir aftur á móti miklu máli fyrir viðkomandi einstaklinga, og því vil ég beina því til hæstv. ráðh. í framhaldi af því, sem ég hef áður sagt, og skal þá draga þessa till. til baka ef hann lýsir yfir því, að hann muni beita sér fyrir því við þessa endurskoðunarnefnd að hún taki þetta atriði til alvarlegrar athugunar.