06.05.1978
Sameinað þing: 76. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4647 í B-deild Alþingistíðinda. (4035)

58. mál, íslensk stafsetning

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Ég skal reyna að stytta mál mitt eftir megni. Á hitt er að líta, að það er eins og það hafi gefist rúmur tími til ýmissa aukaverka hér á hinu háa Alþingi á síðustu annadögum þess. Til að mynda kom hér upp í ræðustól til að flytja tiltölulega nýtt mál hv. 3. þm. Reykv. og talaði langt mál um endurskoðun meiðyrðalöggjafar í gærkvöld. Það var greinilega látið ganga fyrir elstu málum sem réttlæti krafði að fengju lokaafgreiðslu hér. Það mál ætla ég ekki að fara um orðum, enda ekki undir þessum dagskrárlið, en það mun vera að undirlagi þeirra kjaftása í þjóðfélaginu sem hafa nú stofnað sjóð með sér til þess að borga sektir þeirra, er hafa brotið íslensk lög með mannlasti sínu og hæpnum fullyrðingum í meira lagi.

Það mátti greina fyrir nokkrum dögum á ýmsum sólarmerkjum, að þessi till. til þál. um íslenska stafsetningu mundi fá svipuð örlög og tillögugerð af þessu tagi hefur lengst af fengið eða allar götur frá því sem Alþ. ályktaði í þessu máli 29. apríl 1974, þar sem samþykkt var með 28:27 atkv. að hrundið skyldi þeirri ákvörðun að fella z niður í íslensku ritmáli. Enn á ný hefur minni hl. greinilegum minni hl. á hinu háa Alþ. — tekist að hindra að þingviljinn kæmi í ljós. Þetta er miklu stærra mál heldur en einstök atriði íslenskrar stafsetningar, og þm. hljóta mjög að fara að skoða hug sinn um það, að þannig takist ekki til í framtíðinni. Það þarf engum blöðum um það að fletta að þegar ég fullyrði þetta, þá fer ég með rétt mál, enda hefur afstaða Alþingis margsinnis komið fram. Hún kom fram 29. apríl 1974, hún kom fram 1975 þegar 33 þm. undirrituðu skjal til menntmrh., hún kom fram í sambandi við lagafrv. sem flutt var á þinginu 1975–1976, þar sem það hafði gengið í gegnum Nd. og verið samþ. þar með 25:14 atkv. og fyrir tímaskort og fyrir málþóf var hindrað að hún næði framgangi í Ed. Og ég vek athygli á því, að jafnvel lagasetning, sem ekki er skapfellileg í þessu sambandi, hafði og átti vísan stuðning meiri hl. beggja deilda. Þegar tímaskortur var hjá Ed. varð niðurstaðan sú, að ályktað var að beina því til hæstv. menntmrh. að gangast fyrir ráðstefnu um stafsetningarmál. Menn áttu ekki von á neinni niðurstöðu í því máli á þeirri ráðstefnu, enda ekki ályktunarráðstefna. En það eina, sem upp af stóð í þeirri ráðstefnu, var þó tillaga sem fyrrv. formaður endurskoðunarnefndarinnar — leyninefndarinnar frægu — gerði á ráðstefnunni, að sættir mættu takast um það að varðveita z í stofni orða, og á því byggist þessi till. Að vísu er sá málatilbúnaður sem kemur fram í till. okkar á þskj. 64, í máli 58, ekki hans, heldur er það efni hennar að sættir megi takast á þessum grundvelli.

Nú er það höfuðröksemd þeirra, sem mæla gegn því að þetta mál nái fram að ganga sú, að ekki megi hrapa að þessu máli, að hin nýja skipan sé að vinna sér sess í málinu. öll rök, sem þeir færa fram í þessu máli, hitta þá sjálfa fyrir. Skyldi festa ekki hafa skapast eftir 44 ár árið 1973? Þegar hróflað var við þessu. Nú segja þessi nýstofnuðu Samtök móðurmálskennara, að það megi ekki hrapa að breytingum á stafsetningu íslenskrar tungu, það þurfi að fara fram rannsóknir fyrst, ítarlegar rannsóknir, eins og lesa má í álitsgerð minni hl. allshn. En ekki þurfti þess þá, þegar gripið var til hinna róttæku breytinga sem gerðar voru 1973. Þá var þessi n. að störfum í leyni og án þess að nokkurn varði var birt auglýsing frá menntmrn. um það, að gerbreytt skyldi til frá því sem áður hafði verið og fullkomnar sættir verið um um 44 ára skeið. Það er alveg sama hvar borið er niður í þessum málflutningi. Öll þau rök, sem þeir nefna til hlutanna, hitta þá sjálfa fyrir.

M. a. bar hæstv. fyrrv. menntmrh. það fyrir sig, að ekki hefði verið hreinn meiri hl. í Alþ. fyrir samþykkt till. árið 1974. Það voru 29:28 atkv. Þetta er auðvitað hlægileg eða raunar kannske grátleg viðbára. Alþm. vita að hér getum við samþ. lög á Alþ. með 17 atkv. Við getum samþykkt lög í Nd. Alþingis þar sem 11 greiða því atkv. og 10 gegn, og við getum samþ. lög uppi í Ed. þar sem 6 eru með og 5 eru á móti, þannig að allt er þetta út í bláinn, þessar fullyrðingar.

En Alþingi þarf að fara að gá að sér þegar umboðsmenn þess, ráðh., taka sér vald sem þeir ekki hafa. Ráðh. hafa ekkert annað vald en það sem hið háa Alþ. felur þeim. Og Alþ. getur tekið af þeim umboð þeirra. Alþ. ályktaði án þess að skora á ríkisstj. til eins eða neins árið 1974 að hrundið skyldi ákvörðun um að fella z niður. Þetta var lögleg ákvörðun að sjálfsögðu, en hún er hundsuð, og það er auðvitað læpuskapur af þeirri ríkisstj., sem tók við eftir fyrri stjórnina, að taka ekki þessa ákvörðun gilda, því að auðvitað sneri hún að henni jafnákveðið eins og hinni fyrri, þar sem ekki hafði verið gerð ný ályktun.

Hér hefur verið gerð tilraun til sátta í þessari illvígu deilu og allir, sem gerst þekkja til, leggja á það höfuðáherslu, að sættir megi takast. Hins vegar kvíði ég engu í því, þótt líði 4–5 eða jafnvel 10 ár, því að við, sem höfum kynnt okkur sögu þessara þræta á umliðnum öldum, vitum að þær stóðu ekki áratugum saman, heldur jafnvel öldum saman. En íslensk tunga vann ævinlega sigur, alveg eins í því eins og á dönskunni, og svo mun enn verða. Eða hverju treysta þeir menn sem halda til streitu málstað sínum í þessu, þeir nýjabrumsmenn — hverju treysta þeir? Treysta þeir því, hæstv. núv. menntmrh. og fyrrv. menntmrh., að um ómunatíð muni sitja í embætti menntmrh. á Íslandi menn, sem eru handkurrur og hankatrog embættismanna. Það er vart að treysta því. Og það mætti segja mér það, að það komi fljótlega að því ef Sjálfstfl. myndar ríkisstj. í þessu landi, að ekki líði önnur 25 ár án þess að hann hafi með höndum þessi þýðingarmiklu mál, fræðslumálin, eins og þau eru nú þokkalega í pottinn búin. Og þá er rétt að þeir fari að vanda sig, þeir sem nú halda máli sínu til streitu, minnihlutamenn hér, vanda sig í sáttatillögum sínum sem þeir þurfa þá að bera fram, vegna þess að af minni hálfu er a. m. k, í bili slitið öllum sáttatilraunum, og mun ég hverfa aftur að því að brjóta því leið sem áður gilti frá 1929 og menn höfðu búið sáttir við í nærri hálfa öld.

Á það var fallist í þessari sáttatillögu, aðalviðbáru þeirra nýjabrumsmanna, að það þyrfti mikla kunnáttu í flóknum málfræðireglum til þess að rita z í miðmyndarendingum sagna. Á þessa höfuðröksemd var fallist: Vita menn hversu mörg orð það eru í íslensku máli þar sem z er rituð í stofni? Þau eru rétt á annað hundrað, og ef menn eru í vafa um hvernig rita skuli, þá geta þeir flett upp í orðabók sinni þannig að ekki þyrfti þetta að valda neinum þrautum. Ég þarf ekkert að rifja upp röksemdir sem fyrir þessu eru, það hefur margsinnis verið gert, og ef menn nenna að kynna sér sögu þessa máls, þá munu þeir strax sannfærast um hversu brýna nauðsyn ber til að við geymum upprunann einnig, þótt við lögum okkur vitanlega að nýjum og breyttum aðstæðum og gáum vel að þróun málsins. Og má ég spyrja: Hvar eru samþykktir hinna nýju móðurmálssamtaka við tillögugerð hér um það, að stóraukin skuli fræðsla í öllum greinum íslenskrar tungu í ríkisfjölmiðlunum? Hvar eru samþykktir þeirra og undirtektir við þeirri tillögugerð? Það hefur ekki heyrst eitt einasta orð frá þeim. Hvað eru þeir að starfa? Eru þeir aðeins að starfa að því að standa vörð um nýjabrumið frá 1973 og 1974?

Mál hv. 1. minnihlutamanns, Magnúsar Torfa Ólafssonar, í gær voru hreinir útúrsnúningar út í gegn og hann hefur auðvitað langa þjálfun í því og má það merkilegt vera um svo vandaðan mann. En þjálfun sína hlaut hann auðvitað á Þjóðviljanum fyrir mörgum árum, þar sem hann þjálfaði sig í því að halda því t. d. fram, að Stalín í Moskvu austur væri frelsari mannkyns, og manni skildist á tíðum á þeim skrifum þar, að sá mikli mannvinur vekti fjöldann allan upp frá dauðum á degi hverjum. Magnús Torfi Ólafsson fullyrti í máli sínu hér í gær, að það væri lítið vit í því að Alþingi settist á rökstóla um það, hvernig rita ætti íslenska tungu. Hann taldi Alþingi skorta alveg þekkingu til þess arna. Þessi tillögugerð, sem hér er fram flutt, er ekkí að undirstöðu til samansett af þm., svo að það sé upplýst, heldur af fræðimönnum í greininni. Auðvitað leita menn til þeirra í þessu efni. En það þurfti að hans áliti alls ekki Alþ. til að taka af skarið í þessu efni. Hann sem menntmrh. getur gert þetta einn, og svo er að sjá sem bóndinn frá Brekku, hæstv., hafi sömu skoðun á því, að það sé út í hött og ekkert vit í því að fara til 60 manna á Alþingi, heldur skuli þeir starfa að þessu einir og hafa á því fullt vald. Það er ekki lítillætinu fyrir að fara.

Því er haldið fram hér og var haldið fram í gær, að það væri mikil missmíði á þessari tillögugerð. Menn skulu athuga það, að þetta var aðeins rúmur rammi um þessa sáttagerð, hvernig rita skyldi z í stofni orða. En Íslensk málnefnd tók sér fyrir hendur að útlista aðferðina út í hörgul að segja má, ef undan eru skilin örfá smáorð. Og þess vegna er það, þegar hv. 1. minnihlutamaður Magnús Torfi heldur því fram, að hún sé rifin að grunni, tillögugerð okkar í þessu máli, þá er farið með alrangt mál og hreina útúrsnúninga.

Umsögn Íslenskrar málnefndar er mjög verðmæt, enda er í framhaldi af því gerð tillaga um að vísa tillögunni til hennar til fullnaðarfrágangs, enda, eins og ég sagði, tekur hún sér fyrir hendur útlistun málsins, næstum því út í hörgul, og telur eins og fram hefur komið, höfuðnauðsyn til bera að sættir komist á og telur þessa tillögugerð mjög verðmæta í því efni og mikinn feng að henni, eins og segir þar.

Málflutning og vinnubrögð þeirra nýjabrumsmanna má auðvitað marka af þeim viðaukatill. og brtt. sem hv. 3. þm. Reykv. flutti hér fyrr á þinginu, en um það ætla ég ekki að fara hér neinum orðum, það dæmir sig sjálft, enda ósvinna þar sem hann er ekki hér til andsvara.

Það hafa engin missmíði orðið á þessari tillögugerð, og það er út í hött og einnig útúrsnúningur að halda því fram, að hún feli í sér að aflagt verði t. d. yfsilon. Ætlar einhver heilvita maður að halda því fram hér í þessum þingsölum að það hafi verið mín tillögugerð? Hún byggist á tillögunni frá 1929, enda innihélt sú tillögugerð að meginhluta til einvörðungu hvernig rita skyldi z og það þarf ekkert að snúa út úr því máli. Okkar mál og tillaga fjallar um hvernig rita skuli z í íslensku máli og ekkert annað.

Hv. þm. Magnús Torfi Ólafsson talaði með ólíkindum og vék því til mín, að í mínum huga ríkti heift í garð þeirra sem að breytingunni stóðu á stafsetningarreglunum, og eins og hann sagði: ég vildi ná mér niðri á þeim sem settu reglurnar 1973 og 1974. Ég fór að hugsa um þetta orðalag eftir að ég kom heim í gærkvöld og rifjaði það vandlega upp fyrir mér, að ég minnist þessa ekki að hafa borið heift í huga til nokkurs manns endilanga ævina. Ég hef reiðst við menn snöggvast, en að bera heiftathug til nokkurs manns hef ég aldrei gert og síst til hans, því að mér er mjög vel til hans og hef á honum gott álit, þótt honum mistækist hrapallega í þessu og gæti aldrei um frjálst höfuð strokið fyrir embættismönnunum í sinni ráðherratíð, eins og fleiri dæmi eru um. Hann talaði um þjösnaskap og það væri illt verk ef ætti að lúta forsjá slíkra manna, þeir ættu að fara með meiri hófsemi og stillingu. Hvernig var farið að 1973 og 1974? Engan varði fyrr en þetta dundi yfir, þessi tilkynning. Engin rannsókn hafði farið fram. Hún hafði starfað einhverjar vikur um sumar, þessi leyninefnd þeirra nýjabrumsmanna, og hún skilaði engri niðurstöðu þá. Henni var fengið flókið mál í hendur og langt að rannsaka. Hún gerði ekkert á fyrstu vikum sínum annað en að varpa fyrir borð einum bókstaf og starfaði auðvitað hneykslanlega að þeirri endurskoðun sem henni var falin í hendur.

Ég skal stytta mál mitt, hæstv. forseti, og þakka fyrir að hafa gefist tækifæri til þess að ræða þetta mál hér á þingslitadegi. Ég ætla ekki að ræða þá missmíði sem mér sýndist vera á málsmeðferðinni hér í gær, því að það yrði e. t. v. litið svo á að þar væri ég að gagnrýna hæstv. forseta, en það skal aldrei verða, því að þann mann virði ég mikils og þykir enda mikið til koma. En ég ætla aðeins að víkja að hinni rökstuddu dagskrá, sem lýsir í sjónhendingu málatilbúnaði minnihlutamanna sem árum saman hér á hinu háa Alþ. fá ráðið því, að meiri hl. nær ekki vopnum sínum. Þetta skyldu menn athuga alveg sérstaklega, hv. þm. Og ég vil aðeins biðja hæstv. ráðh. að hlýða til þess eiðspjalls míns, að þeir geti ekki dregið mig í flokksböndum að borði sínu til þess að greiða atkv. með hverju einu sem fyrirskipað er, og mest af því er þó hrófatildur smíðað af embættismönnum, ef það á að ganga svo á skítugum skónum yfir hugsjónamál mín og áhugamál eins og hér ber raun vitni um. En þeirra rökstudda dagskrá er um að þar sem fyrir Alþ. liggi á þskj. 3 frv. menntmrh. um setningu reglna um íslenska stafsetningu, þá skuli tekið fyrir næsta mál á dagskrá. Þetta er aðalforsenda hinnar rökstuddu dagskrár. En það vill svo til, að till. okkar á þskj. 64 inniheldur nákvæmlega efnislega tillögugerð hæstv. menntmrh. á þskj. 3 — nákvæmlega. En á þeim forsendum, að annað sams konar mál liggi fyrir hinu háa Alþ., þá á að rökstyðja frávísunartillögu. Ég vil nú til gamans, ef forseta veitti tíma til, biðja hann að gera svo vel að skoða það hjá sér, hvort þessi rökstudda dagskrá er ekki út í hött, og gefa þessum rökþrota mönnum þá tækifæri til þess að endursemja hana til þess að fyrir liggi ekki á Alþ. eins órökstudd dagskrá og hér getur að lita og er sú langsamlega órökstuddasta sem ég hef nokkurn tíma séð á hinu háa Alþ., að einu máli skuli vísað frá vegna þess að sams konar tillögu sé að finna annars staðar á þskj.

Eins og ég segi, þá er engu að kvíða þótt einhverjir mánuðir og jafnvel ár líði þar til réttlætið sigrar og meiri hl. fær að ráða, svo sem vera ber. Eins og ég segi, íslensk tunga hefur ævinlega borið sigurorð og risið upp úr öllum þeim hörmungum sem að henni hafa steðjað öldum saman, og svo mun enn verða. Það er með ólíkindum að menn skyldu ekki grípa tækifærið nú til þess að ná sáttum í þessu máli, eftir að þeir, sem fylgja gömlu stafsetningarreglunum, höfðu teygt sig jafnlangt og raun ber vitni um — ótrúlega langt — og ég verð að játa að ég tók það mjög nærri mér. En eftir sem áður, eftir að hafa séð útlistun Íslenskrar málnefndar á málinu, þá sannfærðist ég um að við höfðum verið á réttri leið, vegna þess að hún tók þessa skipan mála og útlistaði hana þannig að í mjög einföldu formi getur orðíð og engum til trafala, heldur einvörðungu hugað að því, að við missum ekki niður og glötum uppruna orða sem er lífsnauðsynlegur í allri þróun málsins. Það er með ólíkindum, að menn skuli þverskallast svona við þessu, en þó er hitt öllu alvarlegra, að til þess skuli vera gildrað æ ofan í æ og það skuli vera liðið hér á hinu háa Alþ., að greinilegur minni hl. fær því ráðið, að ekki næst fram meirihlutavilji Alþingis. Ég bið hv. alþm. að athuga þetta alveg sérstaklega, svo stóralvarlegt mál sem þetta hlýtur að teljast.