17.10.1977
Sameinað þing: 4. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 54 í B-deild Alþingistíðinda. (43)

Umræður utan dagskrár

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umræður. Í sjálfu sér hafði ég ekki hugsað mér að taka til máls. Það má kannske orða það svo, að hv. 5. þm. Reykv. hafi kveikt í mér með þeim hætti að fara mörgum orðum um það óæskilega sem fylgir verkfalli opinberra starfsmanna, en jafnframt láta þess getið að sumir hefðu talið það vera ástæðu til þess að vera á móti verkfallsréttinum, en það var svo að skilja á hv þm. að ekki væri ástæða til þess.

Ég greiddi atkv. gegn frv. að lögum sem veittu opinberum starfsmönnum verkfallsrétt, hvernig sem menn vilja skilja þann rétt, hvort hann er alger eða takmarkaður. En ástæður mínar voru þær, að slíkt samræmdist ekki reynslu okkar af verkföllum í þessu landi né hinu veika ríkisvaldi. Nú ætla ég ekki að fara að halda hér ræðu mína sem ég hélt gegn þessu frv. á sínum tíma. Ég vil aðeins víkja að því, að menn verða að gera sér grein fyrir því, að það er munur á opinberum starfsmönnum og öðrum launþegum í landinu. Og sá munur er í mínum huga ekki þess eðlis að það eigi lítt að taka mark á opinberum starfsmönnum, þvert á móti að það eigi að halda þá svo, að þeir geti unað við sín launakjör, og það sé vænlegra fyrir hvaða ríkisstj. sem er heldur en að hafa yfir sér reidda verkfallssvipu opinberra starfsmanna.

Ég sagði að verkfallsréttur opinberra starfsmanna samræmdist ekki hinu veika ríkisvaldi okkar. Það má flytja hér langt mál til stuðnings þessari fullyrðingu. Ég skal ekki gera það. En það hefur verið talað hér um ýmsa meinbugi á framkvæmd þessa verkfalls og minnst á það hér í umr. Ég vil minnast á eitt sem varðar sérstaklega ríkisvaldið og framkvæmd ríkisvaldsins, og þar á ég við lögregluna. Það hefur verið talið að kjaradeilunefnd yrði að taka afstöðu til þess, hver væri staða lögreglunnar í því verkfalli sem nú er. Ég hef fyrir framan mig fundargerð kjaradeilunefndar þar sem fjallað er um þetta 1. okt. s.l. og þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Kjaradeilunefnd hefur kynnt sér sjónarmið lögreglumanna og yfirstjórnar lögreglunnar varðandi störf lögreglumanna ef til verkfalls kemur. Er m.a. upplýst að menn vantar í 20 stöður lögreglumanna í Reykjavík og að unnin er mikil yfirvinna af lögreglumönnum um land allt.

Að þessu athuguðu telur kjaradeilunefnd ekki fært annað en að lögreglumenn starfi almennt áfram þótt til verkfalls komi.

Samþykkt þessi nær þó ekki til eftirtalinna starfsþátta lögreglumanna:

1. Útgáfu skírteina og leyfa.

2. Skráningu í spjaldskrár.

3. Vörslu og afhendingu óskilamuna.

4. Starfsemi lögregluskólans.

5. Umferðarfræðslu og sektarinnheimtu.

Þá er samþykkt að almenn fyrirgreiðsla, sem lögreglumenn veita og ekki telst öryggisgæsla“ — og ekki telst öryggisgæsla, takið eftir — „verði felld niður og eftirlitsstörf verði í lágmarki.“

Þetta eru þau fyrirmæli sem kjaradeilunefnd setti með samþykkt sinni 1. okt, s.l. En hvernig hefur þetta verið framkvæmt. Ég skal ekki vera langorður um þetta. Ég læt mér nægja að vitna í bréf sem stjórn Lögreglufélags Reykjavíkur hefur skrifað öllum lögreglumönnum. Það er dags. 14. okt. og þar segir m.a.:

„Sem áður í þessu yfirstandandi verfalli verði eftirlit í lágmarki. Eftirlitsferðir eru verkfallsbrot. Ef lögreglumenn eru hvattir til slíkra brota af yfirmönnum ber lögreglumönnum að halda þegar í stað til verkfallsnefndar BSRB að Hekluhúsinu, Laugavegi 172, sími 26688, og bíða þar fyrirmæla verkfallsnefndar.“

Ég held að þetta skýri sig sjálft. Þetta er alvarlegt mál, eins og bréfið ber með sér. Lögreglumenn, eins konar handhafar ríkisvaldsins, eru hvattir til að hlýða ekki yfirmönnum sínum. Það er sagt að það sé verkfallsbrot ef þeir gera það. Þeir eiga að snúa sér til stjórnar BSRB eða verkfallsnefndar, réttara sagt, og bíða fyrirmæla. Það er þetta sem er alvarlegt, og þetta er aðeins eitt dæmi, en mjög alvarlegt, sem styður þá fullyrðingu mína og þá afstöðu að vera andsnúinn því að veita opinberum starfsmönnum verkfallsrétt.

Ég taldi rétt að gefnu tilefni að þessi sjónarmið kæmu hér fram.