14.11.1977
Efri deild: 14. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 615 í B-deild Alþingistíðinda. (433)

38. mál, iðnaðarlög

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Það er nú naumast um efni frv. sem mig langar að segja hér fáein orð víð þessa umr., heldur aðeins um orðalag. Ég tók eftir því, þegar hæstv. ráðh. ræddi um ákvæði 10, gr. þessa frv., að þá sagði hann eitthvað á þá leið, að meðan meistaraskóli væri ekki til í iðninni gæti hver maður fengið meistarabréf sem hefði unnið undir stjórn meistara í iðngreininni eða nátengdri iðngrein að loknu sveinsprófi eigi skemur en 2 ár. Ég tók eftir því að ráðh. sagði að hver maður gæti fengið meistarabréf, en í gr. er talað um að menn leysi meistarabréf. Þetta er orðalag sem ég kannast ekki við. Ég hygg þó að þetta hafi verið í þeim lögum sem eru í gildi um iðju og iðnað, en mér finnst þetta vera óeðlilegt, að tala um að menn leysi meistarabréf. Það er líka í 15. gr. þetta sama orðafar, svo þetta er ekki af hendingu, og það væri gaman að fá skýringu á því hvort nauðsynlegt sé að nota þetta. Í 15. gr. segir: „Ef maður rekur iðnað án þess að hafa leyst leyfi“ og „ef maður tekur að sér störf meistara án þess að hafa leyst meistarabréf“. Mér fyndist langtum eðlilegra að þarna væri þetta orðað eins og málvenja hefur verið: að afla sér leyfis eða fá sér leyfi, eða kaupa leyfi, ef það er það sem menn eru að tala utan að í þessu efni. — Ég vildi aðeins láta þetta koma hér fram.