14.11.1977
Neðri deild: 14. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 631 í B-deild Alþingistíðinda. (444)

21. mál, kosningar til Alþingis

Ellert B. Schram:

Virðulegi forseti. Ég hef áður í umr. um kosningalög og kjördæmaskipun gert grein fyrir skoðunum mínum í aðalatriðum varð andi breytingar á vægi atkv. og eins varðandi persónukjör og mun ekki endurtaka það við þessa umr. En vegna ummæla hv. þm. Tómasar Árnasonar varðandi vægi atkv. annars vegar í þéttbýli og hins vegar í dreifbýli vil ég aðeins segja örfá orð um það atriði.

Hann komst að þeirri niðurstöðu að Reykjavík væri stór og blómleg byggð þrátt fyrir það hversu fáir þm. hefðu setið á Alþ. frá Reykjavík á undanförnum áratugum. En mætti þá ekki eins snúa þessu við og spyrja: Hvers vegna leggja dreifbýliskjördæmin svo mikla áherslu á að hafa marga þm. á þingi, ef það skiptir ekki máli hvort þeir eru fleiri eða færri? Og má ekki benda á það, að sú byggðastefna, sem hann fór lofsamlegum orðum um og hér hefur verið samþykkt nær einhuga á þingi, er í reynd framkvæmd með stuðningi þeirra þm. sem kjörnir eru hér á þéttbýlissvæðunum. Hann féll jafnframt í þá gryfju sem aðrir hafa gert, að vega atkvæðisrétt kjósenda með hliðsjón af efnahagslegri og jafnvel menntunar- og menningarlegri aðstöðu kjósendanna. Ég skildi orð hans svo, að hann vildi láta vega það og meta, þegar gert væri upp hvort atkvæðisréttur skyldi vera jafn eða ekki, hver væri hin efnislega og menningarlega afstaða í hverju byggðarlagi um sig. Enda þótt ég sé margbúinn að lýsa því yfir að vægi atkv. skuli ekki vera fullkomlega jafnt, þá vísa ég slíkum röksemdum algerlega á bug. Ég tel að Reykvíkingar eigi ekki að gjalda þess að þeir búi í höfuðborginni. Reykvíkingar hafa byggt upp þessa borg með eigin framtaki og dugnaði og það á ekki að verða til þess að draga úr atkvæðisrétti þeirra þó að þeir hafi búið vel að sjálfum sér og að höfuðborg þessarar þjóðar. Ég vek líka athygli á því, að höfuðborgin hefur ákveðnum skyldum að gegna gagnvart þjóðfélagi:m í heild sinni og þeim skyldum hafa Reykvíkingar sinnt.

En það, sem kveikti í mér til að taka til máls við þessa umr., voru ummæli og hugleiðingar hv. þm. Lúðvíks Jósepssonar í fyrstu lotu þessarar umr., — hugleiðingar varðandi stjórnmálaflokkana. Hann minnti á að breyting á stjórnarskránni 1959, sú mikla breyting sem gerð var á kjördæmaskipan hefði haft tvö meginmarkmið: annars vegar að leiðrétta misvægið á milli einstakra kjördæma, sem var orðið allt of mikið, og líka til að tryggja það að stjórnmálaflokkar hefðu þingstyrk í samræmi við fylgi sitt meðal kjósenda. Hann minnti á að varðandi síðara atriðið, um stjórnmálaflokkana, hefði það markmið náðst og væri enn í fullu gildi. Ég er sammála honum um að þetta hafi verið réttur tilgangur og það ástand sé í nokkuð góðu lagi enn þá. Ég er líka sammála honum um að við verðum mjög að byggja á stöðu stjórnmálaflokkanna þegar við hugleiðum breytingar á kosningalögum eða kjördæmaskipun. Hins vegar finnst mér ástæða til af þessu tilefni að víkja nokkrum orðum að stjórnmálaflokkunum og hlutverki þeirra í þessu sambandi.

Við erum sjálfsagt öll sammála um það, að í þingræðis- og lýðræðislandi sé óhjákvæmilegt að stjórnmálaflokkar starfi og þeir hafi fylgi á þingi í samræmi við styrk sinn og fylgi meðal kjósenda. En nú á síðustu tímum, eins og hv. síðasti ræðumaður vék að, hafa flokkarnir legið undir mikilli gagnrýni og þeir hafa verið sakaðir um spillingu hvers konar, getuleysi við stjórn þjóðmála, of mikið flokksræði og tillitsleysi gagnvart kjósendum í vali sínu á frambjóðendum og trúnaðarmönnum. Það væri óskynsamlegt að virða þessa gagnrýni algerlega að vettugi, enda sýnist mér hún vera markvisst til þess fallin að draga úr áhrifum flokkanna og minnka svo álit þeirra, sem afskipti hafa af stjórnmálum, að til stórskaða er. Slík skrif og umtal er e.t.v. ekki marktækt að magninu til. En þegar ungir, menntaðir, áhugasamir menn, sem kveðja sér hljóðs í fjölmiðlum og annars staðar, bera miklar og þungar sakir á borð og almenningur er farinn að taka slíkan málflutning sem góðan og gildan sannleika, þá er óneitanlega líklegt að slíkur óhróður, sem fram er settur, grafi undan flokkunum og hrindi góðu og gegnu fólki frá stjórnmálaþátttöku. Og auðvitað veikir það mjög verulega grundvöll lýðræðisins ef þessi þróun fær að halda áfram. Það er til lítils fyrir okkur þm. að gera kröfur til breytinga á kosningalögum og kjördæmaskipun og gera kröfu til þess að stjórnmálaflokkar haldi völdum sínum og áhrifum á þingi, et traust flokkanna fer hraðminnkandi og ef Alþ. glatar stöðu sinni og áhrifum og menn fást ekki lengur til að starfa í þágu stjórnmálaflokkanna.

Það er tvímælalaust skylda okkar að hlusta á réttláta gagnrýni og taka tillit til hennar, en að kveða hana niður og það rækilega að öðru leyti af sama þunga og þessi gagnrýni er flutt.

Við skulum fyrst víkja að ásökunum um spillinguna í stjórnmálaflokkunum.

Flokkarnir hafa legið undir ámæli fyrir að fjármál þeirra væru ekki samkv. reglum heiðarleikans, hjá flokkunum væri leyndardómsfullt reikningshald og baktjaldamakk í þröngum og lokuðum flokksklíkum. Í þessu sambandi þykir mér rétt að upplýsa eða minna á, að á síðasta vetri var kosin mþn. til að semja frv. til l. um stjórnmálaflokka. Ég hef verið formaður þessarar mþn. og hún hefur nú að mestu lokið störfum og mun væntanlega á næstunni skila frá sér frv. þar sem gert er ráð fyrir að reikningar flokka séu birtir þeim, sem eflir því óska, og að settar séu almennar reglur um starfsemi stjórnmálaflokkanna. Það hefur komið fram í þessari n. og það er hafið, held ég, yfir gagnrýni, a.m.k. hér í þessum sal. að flokkarnir allir með tölu hafa takmarkaða löngun til að skapa tortryggni um starfsemi sína og þeir vilja auðvitað ná til fólksins og laða það til sin. Og ég hygg að lög um starfsemi stjórnmálaflokkanna mundu að einhverju leyti a.m.k. eyða tortryggni að svo miklu leyti sem það er hægt.

Pólitískir flokkar geta að sjálfsögðu ekki útilokað hvers konar spillingu. Þeir geta aldrei tryggt að þjóðfélagið sé fullkomlega heiðarlegt, og klíkuskapur og mismunun mun sjálfsagt eiga sér stað hversu mörg lög sem sett eru um stjórnmálaflokkana. Þetta er auðvitað ekki spurning um löggjöf, heldur um hugarfar í þjóðfélaginu. Fyrirgreiðslupólitík á Íslandi hefur lengi víðgengist og hún þarf ekki í sjálfu sér að vera óheiðarleg. Hún hefur líka þrífist eftir mörgum leiðum en flokkspólitískum eða flokkslegum. Ísland er m.a. land kunningsskaparins, og ég hef grun um að sá þáttur sé öllu stærri í fyrirgreiðslunni heldur en hin pólitísku tengsl. En flokkarnir eiga ekki að vera skálkaskjól.

Það er rétt og ég tek undir það, að það er í hæsta máta óeðlilegt t.d. að bankastjórar séu þm. Ég er þeirrar skoðunar, að svo eigi ekki að vera, ellegar að þm. eigi að vera „kommissarar“. En þetta er auðvitað ekki lagabrot og það þarf ekki heldur að vera óheiðarleiki, en það getur flokkast undir pólitískt siðleysi. Gagnrýnt hefur verið að flokkarnir kjósi menn í bankaráð, útvarpsráð og stjórnir stórra stofnana og þetta er kölluð samtrygging stjórnmálaflokkanna, þannig að hagsmuna flokka og þeirra, sem starfa í þeirra þágu, sé vel gætt. Það hefur verið bent á það í blaðagreinum, að einfaldasta leiðin til að koma í veg fyrir þetta væri einfaldlega að leggja niður slíkar stjórnir, slík ráð. Út af fyrir sig er hægt að velta vöngum yfir því. En ég get ekki í fljótu bragði séð að auðvelt sé að fella niður bankaráð eða stjórnir á stofnunum sem hafa mikið umleikis. Ég get líka vel fallist á að það fyrirkomulag, sem við höfum í dag varðandi kosningar í baukaráð og aðrar mikilvægar stofnanir, sé ekki endilega það besta. Ekki hefði ég t.d. á móti því að bankaráðin gerðu betur opinberlega grein fyrir störfum sínum eða t.d. að útvarpsráð, sem nefnt hefur verið í þessu sambandi, starfaði í meiri tengslum við notendur ríkisútvarpsins. En meginatriðið er þó að ég hef engan heyrt setja fram hugmyndir um ákjósanlegra eða betra fyrirkomulag, ekki bent á neinar aðferðir sem tryggja betur rétt eða hagsmuni almennings. Og í þessu sambandi vaknar aftur spurningin: Hvað eru flokkarnir? Hvað eru stjórnmálaflokkarnir? Eru þeir ekki lýðræðisleg samtök fólksins í landinu? Og ef þeir væru ekki stanslaust níddír niður, þá væri kannske meiri von til þess að fólk, allur almenningur, sækti meir inn í flokkana og starfaði í þeim og beitti áhrifum sínum þar. Flokkarnir eru hreyfingar fólksins sjálfs, og ég get ekki séð betri lýðræðislega aðferð til þess að almenningur fái að fylgjast með og koma í veg fyrir spillingu heldur en þær aðferðir sem í aðalatriðum hafa verið viðhafðar hér á landi.

Ég vil í þessu sambandi minna á að fyrir nokkrum árum var stofnaður hér nýr flokkur og hann hafði eitt alveg sérstakt aðalstefnumál, og það var að brjóta niður hið svokallaða samtryggingarkerfi hinna vondu stjórnmálaflokka. Þessi flokkur vann frægan sigur í kosningunum 1971. En það var ekki að merkja, þegar hann var og hét a.m.k., að fram kæmu till. til breytinga í þessum efnum. Þvert á móti tók hann þátt í kapphlaupinu um völd og áhrif engu síður en gömlu flokkarnir og það var mjög eftirminnilegt þegar þurfti hér á Alþ. að breyta lögum um Húsnæðismálastofnun ríkisins, þrátt fyrir tímaþröng og aðra annmarka, til þess eins, að því er virtist, að þessi nýi óspillti flokkur fengi kosinn, eins og það var nefnt í þá daga, „pólitískan þuklara“ í stjórn Húsnæðismálastofnunar.

Varðandi spillinguna er meira um gífuryrði og slagorð en að rökstutt sé eða bent á einhverja raunverulega spillingu. Það, sem ég hef verið að tala um núna, er tiltölulega saklaust, og meðan það er ekki meira og alvarlegra þurfum við ekki að hafa miklar áhyggjur af því. Ekki hef ég orðið var við að menn séu hér mútuþægir, eins og fram er haldið í blaðagreinum nú síðustu dagana.

Þá vil ég víkja að flokksræðinu. Það er enginn vafi á því, að mjög hefur dregið úr öllu flokksræði hér á landi á síðustu tímum. Við skulum t.d. taka dagblöðin. Þau hafa mjög losnað úr viðjum flokkanna og að mínu mati hefur sú þróun orðið lýðræðinu og stjórnmálunum til mikillar styrktar. Ég held að stjórnmálaflokkarnir hafi ekki tapað á því að blöðin hafi fjarlægst þá og yfirstjórn flokkanna, og ég leyfi mér að fullyrða að þau blöð, sem enn þá eru fjarstýrð og eru í eigu stjórnmálaflokka, gjalda þess að nokkru leyti í dag.

Ríkisfjölmiðlarnir, hljóðvarp og sjónvarp, eru mun opnari og frjálslegri í efnisvali en áður þekktist og allur almenningur er áberandi óháðari og sjálfstæðari í afstöðu sinni til stjórnmálaflokkanna en dæmi voru um áður. Þetta er ánægjuleg þróun að mínu mati og er sönnun þess, að dregið hefur úr flokksræði. Það hefur líka verið sama tilhneiging hér á Alþ. Menn hafa a.m.k. viljað láta líta svo út sem þeir séu óháðari flokkunum. Flokksböndin hér á Alþ. eru ekki eins sterk. En svo getur aftur hver um sig metið kosti og galla þess að menn slíti af sér flokksböndin. Fyrrv. þm. Bjarni Guðnason lét ekki segja sér fyrir verkum, eins og alþjóð er kunnugt. Afleiðingin varð líka að sú stjórn, sem hann studdi, hrökklaðist frá, mestmegnis vegna þess að þessi ákveðni þm. vildi vera sjálfstæður og var það. Hann lét ekki segja sér fyrir verkum. En það kynni einhver að halda því fram, sem studdi þessa stjórn, að bar hefði stærri hagsmunum verið fórnað fyrir minni. Það þjónar nefnilega ekki alltaf málstaðnum að hafa í frammi ótímabærar yfirlýsingar eða vera óhagganlegur í afstöðu sinni enda þótt það sýnist karlmannlegt í það og það sinnið. Menn stofna samtök og flokka til að auka mátt sinn og áhrif, og vitaskuld gilda sömu lögmál varðandi stjórnmálaflokkana: einhver yfirstjórn verður þar að vera, hvort sem hún kallast flokksræði eða ekki.

Þá er rétt að víkja aðeins að þeim ásökunum að flokkarnir séu vanhæfir til þess að koma stefnumálum sínum fram. Það hefur jafnvel gengið svo langt, að menn eru með hástemmdar yfirlýsingar um að þeir hafi yfirgefið flokka, sagt sig úr flokkum vegna þess að flokkarnir hafi brugðist varðandi stefnumálin. Auðvitað væri æskilegt að hreinni línur væru í stjórnmálunum á Íslandi en þær eru núna og stefnur væru framkvæmdar meira í samræmi við það sem sagt er fyrir kosningar af flokkunum sjálfum, þannig að kjósendur gætu dæmt um: er þessi stefna góð eða slæm? — og skipt þá um eftir atvikum. En í þessu sambandi er ekki við flokkana að sakast, að þeir hafi ekki náð meiri hluta á löggjafarsamkundunni til þess að koma stefnumálum sínum alfarið fram. Og það hefur sannast í þessu, að pólitík er samstarf, hún er málamiðlun, og það að yfirgefa flokka eða lýsa andstöðu sinni við þá vegna þess að allt næst ekki fram er að gefast upp fyrir staðreyndum og gleyma þeirri meginforsendu lýðræðisins, að taka verður tillit til fleiri en sjálfs sín. Með því að taka svo óhagganlega afstöðu að krefjast alls eða einskis eru menn ekki að þjóna frjálslyndum stjórnmálaskoðunum, heldur biðja um stjórnmálaástand sem er meira í ætt við einræði og óbilgjarnar öfgar. Ef flokkar t.d. höguðu sér með sama hætti og neituðu að taka þátt í samsteypustjórnum nema öll þeirra mál næðu fram að ganga, þá einangruðust þessir flokkar mjög fljótt og misstu ítök sín og áhrif. Menn mega ekki halda að áhrif flokka og lífsskoðana komi endilega og einvörðungu fram í ómengaðri forskrift pólitískra yfirlýsinga einhverra flokksfunda, heldur er mikilvægi flokka og stefnu þeirra fólgið í stöðugri baráttu, í viðleitninni til að nálgast markmiðin, og þau markmið geta komið fram í stóru og smáu, í hverri einustu ákvörðun sem tekin er af stjórnvöldum. Þjóðfélag er nefnilega ekki búið til í einu vetfangi, það þróast. Það þjóðfélag, sem við lifum í, Íslendingar, með öllum sínum kostum og göllum er að mínu mati nær hinu fyrirheitna ríki frjálshyggjumannsins en ýmsir aðrir í öðrum löndum þurfa að sætta sig við.

Þá er því haldið fram að stjórnmálaflokkarnir og stjórnmálamenn hafi ekki getu eða þrek til þess að stjórna, og nú tíðkast það mjög að slá sig til riddara á kostnað stjórnmálaflokkanna, enda þótt þessir hinir sömu, sem hafa hæst með slíkri gagnrýni, eru hvað ákafastir í að komast í þessa aðstöðu sjálfir. En þá er spurningin: Hver er aðstaða stjórnmálamannsins og þingmannsins til þess að hafa áhrif og breyta framvindu mála? Ég vil fyrst nefna það, að þm. eru mjög illa launaðir og þess vegna eru þeir á höttunum eftir alls kyns störfum utan þings og oft og tíðum sinna þingstörfum nánast sem aukastarfi. Það er sagt að þm. komist úr tengslum við kjósendur ef þeir sinna ekki öðrum störfum. En skoðun mín er þvert á móti sú, að ef alþm. hafa laun og stöðu til þess að sinna þingmennsku sem skyldi, þá geta þeir að sjálfsögðu og eiga að geta verið í miklu meiri tengslum við fólkið heldur en ef þeir eru bundnir á einhverjum skrifstofum í einhverju ákveðnu starfi. Þeir eiga þá sem þm. að geta haft frumkvæði að því að fylgjast með, hvernig löggjöfin er framkvæmd, hvernig peningunum er varið sem við erum að deila út, og þeir geta haft frumkvæði að alls kyns öðru eftirliti með stjórnarstofnunum og með opinberum rekstri. Og ég er sannfærður um að ef þessi staða skapaðist, þá væru þm. betur í stakk búnir til þess að stjórna og væru í meiri tengslum við fólkið heldur en þeir eru núna.

Ég er líka þeirrar skoðunar að það fyrirkomulag, sem við höfum á þingstörfum og vinnubrögðum hér í þinginu, sé senn að verða algerlega úrelt. Öll frv. eru hér í sex umr., hér eru fluttar langlokuræður, þ. á m. kannske ein núna, sem hálfur eða heill þingheimur þarf að sitja undir. Ráðh., sem eru sjálfsagt önnum kafnir við stjórnsýslustörf, þurfa að sitja hér undir mismunandi skemmtilegum eða merkilegur ræðum. (LJós: Þeir hefðu gott af að hlusta á þetta.) Og svo mætti áfram telja. Nefndir eru algerlega vanbúnar og að mínu mati ákaflega valdalitlar. Þær taka yfirleitt við frv., sem aðrir hafa samið, og eru að krunka í þau eftir bestu getu og eru undir mjög miklum þrýstingi frá aðilum sem eru e.t.v. jafnvaldamiklir og þingið í raun. Fjvn., sem á að vera ábyrgðarmesta þn., situr mjög takmarkaðan tíma á ári hverju, frá okt, og fram í des., til þess að fjalla um fjárlagafrv. Það eru alger handarbakavinnubrögð, ég segi það alveg eins og er. Þar er verið að ræða um mál, sem alls ekki geta neinu breytt um meginniðurstöðu fjári. Við skulum bara horfast í augu við þennan sannleika.

Ég held að það megi mörgu breyta í því hálfkáki, sem hér fer fram á ýmsum vígstöðvum, og það megi breyta þessu þingi okkar í eina málstofu. Ég minni á það, að þetta hafa Svíar og Danir gert fyrir stuttu, og þrátt fyrir alls kyns röksemdir gegn þessu og efasemdir um að þetta tækist eru það nær einróma skoðanir danskra og sænskra þm., að breytingin hafi verið til mjög mikilla bóta fyrir þingstörf í þessum löndum. Við verðum að muna það, að nútímaþjóðfélag er allt annað en það var jafnvel fyrir 20–30 árum. Gerbylting hefur orðið í þjóðfélaginu, og Alþ. verður auðvitað að haga störfum sínum og vinnubrögðum í samræmi við þær breytingar ef þingið á að standa undir nafni. Ég er þeirrar skoðunar, að þingið verði valdaminna með hverju árinu, nema hér verði gerðar mjög skjótar og róttækar breytingar og þm. hafi raunverulega aðstöðu til að sinna löggjafar- og eftirlitsstarfi.

Ásakanir um vanmátt og getuleysi þm. og stjórnmálaflokkanna varðandi stjórn þjóðmála hafa um þessar mundir eða á síðustu missirum risið hvað hæst fyrst og fremst af einni ástæðu að mínu mati, og það er vegna þeirrar óðaverðbólgu sem ríkir í þessu landi. Það er óvissa og órói og það er kvíði í fólki. Það er talað um að stjórnmálaflokkarnir séu kjölfesta í þjóðfélaginu. En hvers konar kjölfesta er það þegar bátnum er að hvolfa? Og þegar ég segi þetta og fullyrði að óðaverðbólgan eigi stærstan þátt í því, hve þingið er nú undir smásjánni og hversu gagnrýnt það er, þá þýðir ekkert að vera að tala um að þetta sé núv. ríkisstj. að kenna. Við skulum bara vera menn til þess að viðurkenna það, en allir flokkar og þeir menn, sem hafa afskipti af stjórnmálum, hafa brugðist í því mikla verkefni sinu að ráða við þennan vanda. Og því fyrr sem menn hætta að deila hver á annan og gera sig að athlægi, m.a. í sjónvarpi, með kýtingi fram og til baka, því fyrr sem þeir hætta þessu því betra. Ég fullyrði hreint út sagt að verðbólgan er hættulegasti óvinur lýðræðisins, og þess vegna geri ég hana hér að umtalsefni, af því að hún er kannske það sem mest og alvarlegast er að grafa undan trausti stjórnmálaflokkanna. Við getum talað hér áfram um fyrirkomulag kosninga og mannréttindi og jafnara vægi atkv., en allt er þetta hégómi samanborið við þá hættu sem stafar af verðbólgunni.

Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um það, af hvaða ástæðum ég segi þetta. Það brenglar verðmyndun. Hér þrífst spákaupmennska, uppgjöf og menn gefast upp á stjórnmálastarfi. Heiðarleiki fer þverrandi. Og hver er afleiðingin? Afleiðingin er sú, að það kallar fram öfgar í þjóðfélaginu og það kallar fram lýðskrum. Það stafar ekki af því að við séum með prófkosningar eða einhverjar aðrar reglur en áður tíðkuðust um hvernig eigi að kjósa menn á þing. Það vaða bara hér uppi alls kyns öfgakenndar skoðanir og lýðskrumarar í skjóli þessa ástands, verðbólgusjúkdómsins. Ég er þeirrar skoðunar að stjórnmálaflokkarnir eigi að sameinast í því að reyna að leysa þennan vanda, og þeir eiga að gera það meira heldur en beita áhrifum sínum hér á þingi. Stjórnarandstaðan hverju sinni getur auðvitað deilt á ríkisstj. og sagt: Þetta er allt saman ríkisstj. að kenna. — Sjálfsagt er eitthvað til í því á hverjum tíma. En það spillir kannske fyrir ríkisstj. og þeim flokkum, sem að henni standa, í næstu kosningum. En þegar til lengdar lætur eru flokkarnir allir að grafa eigin gröf. Ég tel að þeir menn, sem hafa afskipti af stjórnmálum á Íslandi, séu allt saman greindir og velviljaðir menn, ég hef ekki haft önnur kynni af þm. Og ég trúi því að menn skilji þetta alvarlega vandamál og vilji leysa það, ekki sín vegna persónulega, heldur vegna lýðræðisins í landinu og vegna framtíðar stjórnmálaflokkanna. Og ég skora á alla flokka og alla stjórnmálamenn, hvar í flokki sem þeir eru, að beita áhrifum sínum í alls kyns hagsmunahreyfingum utan þings til þess að koma mönnum í skilning um þær hættur sem eru samfara áframhaldandi verðbólgu í þeim mæli sem hún hefur verið hér á Íslandi.

Virðulegi forseti. Ég skal ekki tala miklu lengur. Ég gerði þetta að umtalsefni hér þótt till. væri að einhverju leyti efnislega öðruvísi en það sem ég hef verið að tala um, en till. fjallar um breytingar á kosningalögunum. Ég skil hana svo, að hún sé flutt til þess að reyna að auka tengsl milli kjósenda og stjórnmálaflokkanna, og ég held þess vegna að slíkar hugleiðingar eins og ég hef sett fram eigi rétt á sér í þessum umr. Ég er sammála því, um leið og ég tek undir það að stjórnmálaflokkarnir eru mikilvæg kjölfesta í þingræðis- og lýðræðislandi, að þá er auðvitað nauðsynlegt líka að átta sig á hvernig eigi að velja mennina. Það er ekki nóg að velja bara flokka, það þarf að velja líka menn, og það hefur verið hent á margar leiðir til að ná því fram.

Mér finnst sú till., sem hér er sett fram, vera gölluð að því leyti til að gert er ráð fyrir að mönnum sé raðað eftir stafrófsröð. Það getur a.m.k. haft í för með sér að út komi alveg skökk mynd, vegna þess að kjósendur notfæri sér ekki þann rétt að númera og það þýði kannske að fyrir tilviljun sé maður valinn á þing sem stuðningsmenn viðkomandi flokks höfðu alls ekki hugsað sér að velja og viðkomandi maður e.t.v. alls ekki heldur hugsað sér að fara á þing, þó að hann hafi léð máls á því að vera á lista. Það tíðkast m.a. í Danmörku, þar sem þetta fyrirkomulag hefur verið, að gefa flokkunum að einhverju leyti tækifæri og heimild til þess að raða sjálfir sínum listum og kjósendur síðan haft sín áhrif.

Þessi till. er ekki alls kostar fullkomin frekar en prófkjörin hafa verið í hinum ýmsu flokkum. Ég hef áður sagt það, að ég tel að við getum sameinað þetta hvort tveggja, þ.e.a.s. að ná fram réttu vægi á milli kjördæma og milli atkv. með því að taka upp að einhverju leyti einmenningskjördæmi á nýjan leik, og það samræmist líka því að hafa persónubundnara kjör. Ég hef m.a. sett fram þá hugmynd að við getum haldið okkur í aðalatriðum við þá skiptingu sem nú er á kjördæmunum, en skipt síðan þeim kjördæmum í smærri einingar. Það þýddi auðvitað að Reykjavík yrði skipt í einmenningskjördæmi. Það yrði sjálfsagt að fjölga þm. í Reykjavík til að ná fram því rétta vægi sem ég vona að allir séu sammála um að þurfi að komast á. Og það er ekki tiltökumál þó að þm. sé fjölgað um 4–5, það skiptir auðvitað engu meginmáli, ef það hjálpar til að ná fram réttu vægi eða eðlilegra vægi á milli kjördæma og á milli kjósenda. Síðan er ég sammála um það, að ekki eigi að binda fjölda þm. í stjórnarskránni, heldur eigi að vera möguleiki til þess að laga hann til eftir búferlaflutningum, eftir breytingum á mannfjölda í kjördæmum, í almennum lögum og með endurskoðun á 10–15 ára fresti.

Virðulegi forseti. Niðurstöður mínar af þessu spjalli eru þær, að meðan við búum við þingræði gegn stjórnmálaflokkarnir lykilhlutverki. Það þarf að tryggja þeim styrk á þingi í samræmi við fylgi þeirra meðal þjóðarinnar. En á sama tíma þurfa þeir að vera opnir sjálfir og opnir fyrir að rofna ekki úr tengslum við almenning. Það er hættulegt ef það álit kemst á, að flokkarnir séu skálkaskjól spillingar. Þeir geta að nokkru leyti kennt sér um sjálfir, en þessum hugsunarhætti þarf að eyða. Og það er margt sem flokkarnir geta komið sér saman um að gera til þess að standa vörð um áframhaldandi þingræði og lýðræði í þessu landi.