15.11.1977
Sameinað þing: 18. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 648 í B-deild Alþingistíðinda. (462)

31. mál, rannsóknir á djúprækjumiðunum fyrir Norðurlandi

Flm. (Stefán Jónsson):

Herra forseti. Við hv. þm. Ragnar Arnalds flytjum hér till, til þál. á þá lund, að ríkisstj. verði falið að láta nú þegar hefja ítarlega leit að djúprækju fyrir Norðurlandi, jafnframt því sem lagt verði af mörkum nægilegt fé til rannsókna á þeim hafsvæðum svo að úr því verði skorið með sem skjótustum hætti hversu miklum flota mætti beina á slíkar veiðar nú um sinn.

Ég leyfi mér að lesa grg. með tillögunni:

„Nú þegar er hafin mjög svo arðgæf útgerð til rækjuveiða á djúpslóð fyrir Norðurlandi. Hafa starfsmenn Hafrannsóknastofnunar lagt verulegan skerf til leitar og rannsókna nyrðra, en þó mun sannast sagna að einkum hafi það verið framtak sjómanna sjálfra, sem leitt hafi til þess að við getum nú þegar gengið að allmiklum afla vísum af þessu dýrmæta sjávarfangi. Sökum þess að ekki hefur fengist nægilegt fé til skipulagðra rannsókna og leitar verður ekki sagt um það með vissu hversu stór þau svæði eru á landgrunninu nyrðra sem djúprækjan finnst á í veiðanlegu magni, né heldur það hversu mörgum togskipum má halda úti til djúprækjuveiða með góðum árangri án þess að gengið verði of nærri stofninum. Líkur benda þó til þess, að ekki sé ofætlað að gera megi út 15–20 litla skuttogara á rækjuveiðar eingöngu og smærri togskip að auki meðan hlífast verður við botnfiskastofnunum.

Fyrir liggur álit sérfræðinga Hafrannsóknastofnunar á þá lund, að ef gagn ætti af að verða þyrftu þeir að hafa til afnota duglegt togskip til leitar og rannsókna fyrir Norðurlandi í 7 mánuði á næsta ári, frá aprílbyrjun til októberloka, Þörf fyrir rækjuleit á þessum slóðum er býsna brýn nú þegar á þessu hausti, þau sem útgerðarmenn hafa ekki bolmagn til að halda uppi neinni teljandi leit af eigin rammleik, en skipin bundin við veiðar á takmörkuðum svæðum þar sem afli getur brugðist og verður hamlað veiðum á Kolbeinseyjarsvæðinu þótt sjóveður sé gott austar, þar sem ætla má að einnig finnist nóg rækja.

Varðandi kostnaðarhliðina má geta þess, að togskip, sem Hafrannsóknastofnunin leigir nú til kolmunnaveiða kosta um 25 millj. kr, á mánuði í úthaldi. Er þar reiknað með kostnaðarútreikningum Landssambands ísl. útvegsmanna. Ætla má að kostnaður við úthald togskips til rækjuleitar yrði álíka.“

Nú væri það að bera í bakkafullan lækinn í sambandi við flutning þessarar till. að orðlengja það, hver þörf er á því að við getum hlíft þorskstofninum a.m.k. ekki minna á næsta ári heldur en við höfum gert á þessu ári. Hafa verið færð sérfræðileg rök að því, að við höfum gengið of langt við veiðarnar í ár og megum alls ekki ganga jafnlangt á næsta ári.

Af hálfu hæstv. ríkisstj. hefur það verið haft mjög uppi, hversu myndarlega hún hafi gengið fram í því, eða sjútvrn. í tíð þessarar ríkisstj., að leita nýrra leiða til útgerðar hér við land og nýtingar nýrra fiskstofna. Er þess skemmst að minnast þegar frá því var greint með verulegu pompi og talsverðri pragt fyrir skemmstu, að athuganir, sem gerðar hefðu verið á vegum ríkisstj. á því, hvernig við gætum nýtt kolmunnann til útflutnings, hefðu leitt til þeirrar niðurstöðu að þurrkaðan kolmunna af Íslandsslóð mætti selja í hunda- og kattafóður í Vestur-Evrópu og jafnvel ekki fráleitt, að það væri hægt að fá blökkumenn til þess að reyna að borða hann. Ég hygg að hið sanna í málinu sé nú það, þrátt fyrir talsverða viðleitni af hálfu yfirvalda til þess að leita að nýju sjávarfangi og nýrra leiða til þess að nýta það sjávarfang, að þá hefði mátt miklu betur að vinna heldur en gert hefur verið. Sérstaklega er það tilfinnanlegt í sambandi við djúprækjuna, þar sem við stöndum nú í þeim sporum að við höfum rökstudda ástæðu til þess að ætla að allmikið sé af djúprækjunni fyrir Norðurlandi, sem að vísu mætti nýta fyrir miklu fleiri sjávarpláss en þau sem næst liggja.

Árið sem leið voru gerðir út 78 skuttogarar á rækjuveiðar við Grænland og þar var eingöngu fiskuð stór rækja. Sleppt var aftur í sjóinn af langflestum skipum rækju af þeirri stærð sem við höfum nýtt hér á landi árum saman, sleppt lifandi í sjóinn, aðeins nýtt stærsta rækjan sem hraðfryst var um borð í skipunum til sölu á erlendum mörkuðum. Sem dæmi um það, hversu arðgæf sú útgerð er, má geta þess, að meðalafli færeysku skipanna, sem haldið var úti til þessara veiða árið sem leið, mun hafa verið langt í 14 millj, danskra kr, eða allt að 500 millj. ísl. kr. Ef unnt yrði að hefja djúprækjuveiðar í stórum stíl fyrir Norðurlandi er vafalaust að við fengjum þar ærinn starfa fyrir hluta af togaraflota okkar þann tíma sem við verðum að blífa botnfiskastofninum. Svo ber til að við höfum aðstöðu hér til þess að nýta ekki aðeins stærstu rækjuna, sem yfirleitt er hraðfryst til útflutnings um borð í skipunum, heldur einnig millistærðina, og verkun rækju er þess háttar að tæplega mun finnast sjávarfang sem gefi eins mikla atvinnu í landi og verkun rækjunnar.

Nú skulum við ætla að orðið verði við þeirri beiðni Hafrannsóknastofnunar, að séð verði fyrir þeim fjármunum sem þarf til að fá duglegt togskip til rannsókna og rækjuleitar á næsta ári eða frá aprílbyrjun næsta árs og fram eftir því ári. En hitt er mér tjáð af hálfu þeirra manna, sem veiða rækjuna núna á djúpslóðinni fyrir norðan, að nauðsynlegt sé að fá til þess fjárstyrk að hefja leitina nú þegar fyrir Norðurlandi. Veðrátta er með þeim hætti á þeim slóðum þar sem rækjan er helst veidd núna, að úrföll verða tiltölulega marga daga, þótt sæmilegt veiðiveður sé annars staðar fyrir Norðurlandi þar sem ástæða er til þess að djúprækjan kunni að leynast. Ef við tökum tillit til þeirra verðmæta sem hér eru í húfi, þeirra verðmæta sem hægt er að afla á úthaldsdag á þeim slóðum sem rækjan heldur sig, þá yrði kostnaður við útgerð leitarskips tiltölulega litill. Við flm. höfum ástæðu til þess að ætla að þeim fjármunum, sem varið yrði í þessu skyni, yrði ekki betur ráðstafað til annarra framkvæmda heldur en rækjuleitarinnar fyrir Norðurlandi.

Ég vil svo mælast til þess að till. þessari verði vísað til atvmn.