16.11.1977
Neðri deild: 15. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 716 í B-deild Alþingistíðinda. (499)

25. mál, almannatryggingar

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti Það er eins með þetta frv. og hin tvö, sem ég mælti fyrir hér áðan, að það er flutt til staðfestingar á brbl., sem gefin voru út 9. ágúst s.l. Það var gert í samræmi við ákvörðun ríkisstj. til þess að greiða fyrir samkomulagi um lífeyrismál sem heildarlausn í kjarasamningunum sem undirritaðir voru 22. júní, þess efnis, að tekin verði upp sérstök heimilisuppbót á lífeyri allra einhleypra tekjutryggingarþega sem búa einir á eigin vegum.

Frv. er um að einhleypingi, sem nýtur óskertrar uppbótar tekjutryggingar og er einn um heimilisrekstur, án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað, skal að auki greiða heimilisuppbót, 10 þús. kr. á mánuði. Eigi hann rétt á skertri tekjutryggingu lækkar heimilisuppbótin í sama hlutfalli.

Það tók fyrst nokkurn tíma að vinna að undirbúningi þessarar lagasetningar. Hún var gerð í fullu samráði og samstarfi við tryggingaráð og Tryggingastofnun ríkisins. Eftir að brbl. voru gefin út var rætt af rn. og tryggingaráði um að setja sem fyrst reglugerð um tekjutryggingu almennt, heimilisuppbót og heimildarhækkanir samkv. 19. gr. laga um almannatryggingar. Þessi reglugerð var svo gefin út 30. sept. og með fullu samkomulagi og samvinnu við tryggingaráð og Tryggingastofnun ríkisins.

Hér er um að ræða mjög afmarkaða greiðslu úr almannatryggingum. Þessi heimilisuppbót er eingöngu til þeirra sem njóta tekjutryggingar eða eiga rétt á tekjutryggingu og búa algerlega einir og án aðstoðar annarra. Það var eitt af þeim efnum, sem um var samið við aðila vinnumarkaðarins og þá auðvitað sérstaklega við verkalýðshreyfinguna, að þetta yrði gert með þessum hætti. Hins vegar hefur komið í ljós, eftir að auglýst var eftir umsóknum samkv. þessum nýju lögum, að margir hafa sótt og mjög mikið er um það að fólk sæki um þessa heimilisuppbót sem ekki á rétt á henni. Þess vegna töldu tryggingaráð og heilbrrn. rétt að flýta útgáfu reglugerðar með þessum lögum, og ég get gefið þær upplýsingar, að fyrir um það bil mánuði hafði verið úrskurðað um 650 umsóknir um þessa heimilisuppbót hér í Reykjavík, en þá lá annað eins fyrir af umsóknum héðan af Reykjavíkursvæðinu. Hins vegar var þá lítið komið af umsóknum utan af landi, en þær hafa verið að koma nú síðustu daga.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri, en legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til heilbr.- og trn.