18.10.1977
Sameinað þing: 4. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 73 í B-deild Alþingistíðinda. (53)

19. mál, sundlaug við Endurhæfingadeild Borgarspítalans

Fyrirspyrjandi (Magnús Kjartansson) :

Hæstv. forseti. Í upphafi síðasta þings flutti ég ásamt þremur öðrum þm. till. til þál. um sundlaug við Grensásdeild Borgarspítalans. Tillgr, var svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar að beita sér fyrir því í samráði við ríkisstj., að á fjárlög ársins 1977 verði tekið framlag til sundlaugargerðar við Endurhæfingardeild Borgarspítalans við Grensásveg.“

Samflm. mínir að þessari till. voru hv. þm. Jóhann Hafstein, hæstv. utanrrh. Einar Ágústssonson og hv. þm. Eggert G. Þorsteinsson, en við áttum það allir sameiginlegt að við höfðum dvalið á Grensásdeild Borgarspítalans, mismunandi lengi þó og af mismunandi ástæðum, við þekktum deili á þessari stofnun og vissum afar vel að gerð sundlaugar við þessa stofnun var ákaflega brýn. Grg. þáltill, var aðallega samin af dr. Ásgeir Ellertssyni forstöðumanni Grensásdeildar og gerði grein fyrir nauðsyn þess, að sundlaug væri tiltæk á slíkum endurhæfingarstöðvum. Í grg. var einnig skýrt frá því, að borgarstjórn Reykjavíkur væri einhuga um að vilja ráðast í þessa framkvæmd, ef samvinna við ríkið gæti komið til, og hefði gert nauðsynlegan undirbúning í þessu sambandi.

Ég mælti fyrir þessari till. á þingi 21. okt. í fyrra, og þegar ég hafði lokið máli mínu og gert grein fyrir till. tóku nokkrir hv. alþm. til máls. Mig langar að vitna örlítið í ræður þeirra. Næstur á eftir mér tók til máls hæstv, utanrrh. Einar Ágústsson. Hann sagði m.a. í ræðu sinni, með leyfi hæstv. forseta:

„Það er vissulega alveg rétt, sem hv. 3 þm. Reykv. nefndi í sínu máli, að það hefur verið reynt að bæta úr þessum skorti á sundlaug með því að flytja sjúklinga niður á Háaleitisbraut 17. Það er betra en ekkert, má segja, að sú laug skuli vera til. En þessir flutningar eru erfiðir í mörgum tilvikum, bæði fyrir sjúklinga og starfsfólk, þeir eru dýrir og óhagkvæmir, auk þess það sem verst er, að það eru ekki nándar nærri allir sem geta farið, þó ekki sé nema þessa leið, í áætlunarbíl eða hvaða bifreið sem vera skal vegna þess einfaldlega að þeir þola ekki flutninginn.

Það er líka alveg rétt, sem kom fram hjá hv, 3. þm. Reykv., að sundlaugin að Háaleitisbraut 17, sem ég þekki líka af eigin raun, hentar ekki alls kostar til þess að leysa það verkefni sem hér er um fjallað. Og ég trúi því ekki að okkar þjóðfélag sé svo fátækt, þó að illa megi kannske bera því vitnisburðinn að ýmsu leyti, að við höfum ekki efni á því að búa betur að þessari deild sem svo mjög margt gott lætur af sér leiða.“

Næsti ræðumaður á þessum fundi var hæstv. heilbrrh. Matthías Bjarnason. Hann sagði m.a.: „Ég tel sjálfsagt og eðlilegt að ríkið leggi fram framlög til byggingar slíkrar sundlaugar ef það verður ofan á og talið rétt af eiganda deildarinnar, sem er Reykjavíkurborg, að byggja sundlaug við hana, og ég vil láta í ljós þá skoðun mína, að ég er samþykkur þessari þáltill. og ég vil vinna að því fyrir mitt leyti, þegar þessar upplýsingar liggja fyrir, að fyrsta framlag verði tekið inn á fjárlög næsta árs.

Ef Alþ. afgreiðir þessa sjálfsögðu till. á sem allra skemmstum tíma og upplýsingar borgarverkfræðings liggja fyrir borgarráði og vilji borgarráðs og borgarstjórnar, þá tel ég mér bæði vera sjálfsagt og skylt að mæla sterklega með því að framlag til þessara framkvæmda verði tekið á fjárlög næsta árs.“

Næstur talaði hv. þm. Albert Guðmundsson, sem einnig er forustumaður í borgarmálefnum Reykvíkinga. Hann sagði m.a. í ræðu sinni, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég get fullvissað alla hv. þdm. að borgarstjórn er einhuga um að gera það sem í hennar valdi er til að koma upp sundlaug við Grensásdeildina.“

Hann sagði enn fremur :

„Ég get glatt hv. þm. með því, að ég veit, að það er sérstakur áhugi hjá borgarstjóra að flýta þeirri áætlun sem borgarverkfræðingi og borgarlækni hefur verið falið að gera þ.e.a.s. kostnaðaráætlun og könnun um það, hvort hægt er, eða það er óhætt að segja, hvenær hægt er að staðsetja þetta mikilvæga mannvirki við endurhæfingarstöð Borgarsjúkrahússins.“

Og hv. þm. Albert Guðmundsson lauk máli sínu á þessa leið:

„Um leið og ég lýk máli mínu, þá vil ég leggja til að þessu máli verði hraðað það mikið að það geti ekki verið neinn vafi á því að Alþ. geti komið málinu á fjárlög núna, ef við ætlum að gera það. Þess vegna segi ég, að það er bara spurningin um það, hvort menn vilji hugsa með kerfinu, á sama hátt og kerfið, eða hvort menn vilja hugsa með hjartanu. Fólkið bíður. Það er nóg af fólki sem þarf á þessu að halda, og ég vona að við séum ekki fastir í einhverju sérstöku kerfi, einhverjum farvegi við gerð fjárlaga, að það sé ekki pláss fyrir það sem ég kalla að hugsa með hjartanu.“

Síðasti ræðumaður við þessar umr. var hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason. Hann tók undir það, sem aðrir þm. höfðu sagt, og sagði að lokum:

„Vil ég sérstaklega taka undir þau orð hv. síðasta ræðumanns, að nauðsynlegt er og sómi þingsins liggur við að málið fái sem hraðasta og skjótasta afgreiðslu hér á hinu háa Alþingi.“

Þegar þessar umr. höfðu farið fram var ég mjög bjartsýnn á að þessi till. næði fram að ganga þegar á síðasta þingi. En þá tóku að hefjast dálitið annarlegir atburðir. Ég ætla ekki að fara að rifja þá atburðarás upp, hún var á margan hátt ákaflega óskemmtileg. Enn því miður leiddi hún til þess, að þessi fjárveiting var ekki tekin inn á fjárlög árið 1977 sem nú eru í gildi. En fjvn., sem fékk till. okkar fjórmenninganna til meðferðar, afgreiddi hana fyrir þinglok. Ég vil geta þess, að ég átti þá ekki sæti á þingi og hæstv. utanrrh. Einar Ágústsson beitti sér mjög fyrir því, að þessi till. yrði afgreidd. Hún var afgr. með svo hljóðandi nál.:

„Nefndin hefur rætt till. Samkv. till. er gert ráð fyrir að Alþ. beiti sér fyrir framlagi við byggingu sundlaugar við Endurhæfingardeild Borgarspítalans við Grensásveg á fjárl. ársins 1977. Svo varð ekki. Hins vegar lítur fjvn. svo á, að í þáltill. þessari sé hreyft mikilsverðu nauðsynjamáli sem athuga þarf við undirbúning næstu fjárl. Fjvn. hefur orðið sammála um að leggja til að till. verði vísað til ríkisstj.

Hæstv. utanrrh. tók til máls við þessa umr. Hann sagði þar m.a.:

„Vil ég geta þess a.m.k. fyrir mína hönd og hv. 1. flm. Magnúsar Kjartanssonar, að við erum eftir atvikum ánægðir með þessa afgreiðslu fjvn. og teljum að sá rökstuðningur, sem fylgir áliti n., sé á þann veg, að hann muni verða til þess að málið verði tekið til efnislegrar afgreiðslu við gerð næstu fjárlaga.“

Ég taldi að þegar Alþ. hafði einróma samþykkt þessa till. fjvn., þá væri það algerlega öruggt að framlag til sundlaugar við Grensásdeildina yrði á fjárl. fyrir árið 1978. Þegar ég fékk fjárlagafrv. í hendur, þá var mitt fyrsta verk að aðgæta hvort svo væri ekki. Ég gat ekki séð að svo væri. Það var enginn tilgreindur sérstakur þáttur í fjárl. sem hét fjárveiting til byggingar sundlaugar við Grensásdeild Borgarspítalans. Þess vegna spyr ég nú um þetta mál, því þarna liggur fyrir einróma vilji Alþingis.

Ég beini fsp. minni ekki til hæstv. heilbrrh., þó að Grensásdeildin heyri undir verksvið hans. Ég beini henni ekki heldur til hæstv. fjmrh., þó að hann eigi að afla þeirra fjármuna sem þarf til þess að ráðast í þessa framkvæmd. Ég beini henni til hæstv. forsrh., vegna þess að ég hef farið að hugsa um stjórnlög í þessu sambandi. Ég hef borið þetta mál undir lögfræðing sem ég tel vera einna hæfastan íslenskra lögfræðinga, — ég nefnt nafn hans ekki því að þetta voru einkaviðræður, — en hann sagðist líta svo á að ef Alþ. hefði lýst vilja sínum í einhverju alveg skýrgreindu máli, þá væri það skylda ráðh. að framkvæma þennan vilja Alþ., það væri skylda ráðh. Og einmitt þess vegna beini ég máli mínu til hæstv. forsrh., því að hann er verkstj. ríkisstj., og ég vil biðja hann, um leið og hann svarar fsp., að segja mér álit sitt á því, hvort hann sé ekki sammála þeim lögfræðingi sem ég vitnaði til, að ef Alþ. tekur ákvörðun um vilja sinn í tilteknu máli, þá sé það skylda ráðh. að framkvæma þann vilja.