23.11.1977
Efri deild: 17. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 801 í B-deild Alþingistíðinda. (558)

90. mál, iðjuþjálfun

Jón G. Sólnes:

Herra forseti. Það má kannske heimfærast undir nöldur, en það verður að hafa það, en tilefni þess að ég kem í ræðustól í sambandi við umr. um það frv., sem hér er til meðferðar, er hreinlega það, að þann stutta tíma, sem ég hef átt sæti á Alþ., finnst mér slíkur urmull af frv., sem hafa verið samþykkt hér á hinu háa Alþ. um ýmiss konar fræðinga á hinu og þessu sviðinu, að mér er farið að standa stuggur af þeirri þróun sem orðin er í þessum málum. Ég man ekki hve mörg frv. voru afgreidd á síðasta Alþ. um hina og þessa fræðinga, og í dag erum við að fjalla um frv. um að skapa að vissu leyti viðbótarfræðinga við hinn stóra hóp sem fyrir er.

Nú skal ég ekki á nokkurn hátt efast um gildi þess að iðjuþjálfun eigi sér stað. Ég er ekki í nokkrum vafa um að hér er um að ræða mjög veigamikið og mikilsvert atriði til að hjálpa fólki og þetta er gagnlegt og að mörgu leyti mjög nauðsynlegt. En þegar á að fara að lögfesta nafn og réttindi og skyldur þessarar stéttar verð ég að segja að ég get ekki að því gert, mig óar við því.

Mér finnst að okkar fámenna þjóð, rúmar 200 þús. sálir, sé að fara út í hreinar ógöngur, ef við öll verk, sem unnin eru í þjóðfélaginu, hvort sem er til hjúkrunar, hjálpar eða liðsinnis, eigi að fara að krefjast þess, að helst þurfi menn að hafa háskólamenntun. Ég get ekki betur séð, ef sú þróun heldur áfram eins og stefnt er að og minnst er á í því frv., sem hér liggur fyrir, en að svo verði komið í okkar íslenska þjóðfélagi eftir tiltölulega skamman tíma, að mjög vafasamt sé að vandalaus manneskja megi skipta um bleiur á barni nema hún hafi til þess löggild réttindi og helst háskólapróf. (Gripið fram í.) Í því tilfelli mundi ég telja ekki óeðlilegt að slík manneskja væri kölluð blejufræðingur.

Ég held að það sé kominn tími til að við stöldrum svolítið við. Það hefur reynst vel þessari þjóð að nota alþýðlega lífsreynslu, og það hefur dugað henni hvað best. Ég held því að það sé fyllilega tímabært að staldra nú svolítið við áður en við samþykkjum fleiri frv. um fræðinga og réttindi í því sambandi. Árangurinn af slíkri lagagerð hefur alltaf komið fram á þann veg, að þar hafa myndast sérstakir hagsmunahópar sem síðan hafa getað myndað þrýstihópa. Og við vitum öll hvaða afleiðingar það hefur haft í þjóðfélaginu.

Öll eiga þessi frv. það sameiginlegt að gera þessi störf, sem ég viðurkenni að eru nauðsynleg þjóðfélaginu, — öll eiga þau það sameiginlegi, þessi frv., að þau gera ráð fyrir því, að við Háskóla Íslands verði stofnuð sérstök deild fyrir þessi fræði, þannig að hlutaðeigandi geti aflað sér háskólaþekkingar.

Einhver hefur talað um það í sambandi við hin gífurlega háu fjárlög, sem Alþ. er að afgreiða og fara hækkandi með ári hverju, að einn stærsti liðurinn, sem menn stöðvast við, sé kostnaðurinn við fræðslukerfið, við menntamálin. Er þá ekki frekar ástæða til að reyna að minnka eitthvað þetta mikla kerfi, þetta fræðslukerfi hjá okkur, og reyna að spara peninga á því sviði, heldur en að stefna að því að auka við það?

Mér er tjáð, að við Háskóla Íslands séu komnar 27 greinar með öllu tilheyrandi: prófessorum, deildarforsetum, starfsliði og öllu sem því fylgir. Ætli þetta sé ekki nóg í bili?

Herra forseti. Erindi mitt í ræðustól við 1. umr. um þetta frv. var aðeins að vekja athygli hv. dm. á því, að þau margvíslegu aðstoðarstörf sem felast í þessu frv., eins og snæravinna, tágavinna, leðurvinna, kniplingar, verkstæðisvinna, fatasaumur, það er vissulega hægt að hjálpa fötluðu fólki og þeim, sem aðstoð þurfa við það, án þess að hér sé um háskólalært fólk eða einhverja sérstaka fræðingahópa að ræða. Þetta vildi ég að yrði athugað þegar við meðferð málsins í nefnd.