28.11.1977
Neðri deild: 18. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 857 í B-deild Alþingistíðinda. (599)

Varamaður tekur þingsæti

Forsrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Mér skilst að til mín sé beint tveimur spurningum: annars vegar hvort umgetin ummæli séu tilkomin vegna þess, að þessi mál hafi verið til umr., eða hvort tilmæli eða ósk um þessar framkvæmdir frá Bandaríkjunum hafi komið fram, og hins vegar er spurningin, hvort ég sé á þeirri skoðun að framkvæmdir af þessu tagi komi til mála.

Hvað fyrri spurninguna snertir, þá hafa þessi mál ekki verið til umr. í ríkisstj. og hafa engin tilmæli eða ósk frá Bandaríkjunum komið fram um þessar framkvæmdir. Hér er aðeins verið að nefna dæmi. Ég vil undirstrika að orðalagið er þetta: „Verði niðurstaðan sú, t.d. eftir slíkt mat, að byggja þurfi nýjan flugvöll, t.d. á Austurlandi eða annars staðar, og leggja vegi sem tengi flugvellina, verðum við að gera okkur grein fyrir því, að við verðum að sætta okkur við aukin umsvif varnarliðsins.“ Þessar framkvæmdir eru eingöngu teknar sem dæmi og eru ekki á dagskrá.

Hin fyrirspurnin er á þá leið: Er forsrh. á þeirri skoðun, að framkvæmdir af þessu tagi komi til mála?

Ég segi sem mína skoðun, að ég tel æskilegt að á hverjum tíma fari fram á mat á þeim varnarviðbúnaði sem nauðsynlegt er að hafa hér á landi. Þetta mat, sem sífellt þarf í raun og veru að vera í gangi, getur leitt til þess, að varnarliðið fari af landi brott, það getur leitt til þess, að varnarfyrirkomulaginu verði breytt, og það getur leitt til þess, að nauðsynlegt verði talið, að efla varnarliðið. Það er ekki nema að loknu slíku mati og slíkri athugun unnt að svara þeirri spurningu, hvort til mála komi framkvæmdir af þessu tagi.

Ég vil leggja á það megináherslu, að við Íslendingar metum það hverju sinni, hvað við teljum nauðsynlegt að gera til þess að tryggja öryggi landsins. Það er skylda okkar sem sjálfstæðrar þjóðar. Ég nefni það í tilvitnaðri ræðu, að sams konar mat fer í raun og veru fram hjá öllum öðrum þjóðum og niðurstaða af því mati hjá öðrum þjóðum liggur í ákvörðunum varðandi t.d. skattlagningu þeirra þjóða á þjóðfélagsþegnana til þess að standa undir varnarviðbúnaði. Um sams konar mat er að ræða hjá okkur Íslendingum, þótt við að þessu leyti þurfum e.t.v. ekki að leggja fjárhagsbyrðar á þjóðfélagsþegnana. En við þurfum að leggja á óneitanlega annars konar byrðar, þ.e.a.s. leggja að einhverju leyti höft á daglegt líf okkar hverju sinni og það verður auðvitað hið neikvæða í sambandi við ákvörðun um auknar aðgerðir á þessu sviði.