28.11.1977
Neðri deild: 18. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 866 í B-deild Alþingistíðinda. (606)

Varamaður tekur þingsæti

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég hefði ekki blandað mér í þessar umr., sem hafa spunnist út af ræðu sem hæstv. forsrh. hefur flutt á flokksráðsfundi sjálfstæðismanna, nema af því að svo stendur nú á að ég gegni um stundarsakir störfum utanrrh. En einmitt vegna þess er mér ljúft og skylt að staðfesta það. sem hæstv. forsrh. hefur þegar sagt, og undirstrikað mjög rækilega, að það hafa engin tilmæli komið frá Bandaríkjunum né NATO um hernaðarflugvöll á Austurlandi né neins staðar á Íslandi annars staðar en þau hafa bækistöð nú. Og auðvitað er enn fráleitara og ætti ekki að þurfa að taka það fram, að að sjálfsögðu hafa slíkar beiðnir ekki verið settar fram af hálfu Íslendinga. Það hafa engar umr. farið fram um þetta efni í ríkisstj. né annars staðar á milli ábyrgra aðila, svo að mér sé kunnugt um. Það er náttúrlega aldrei hægt að segja til um það, hvaða furðuhugmyndir geta fæðst í heilum sumra manna, en mér er ekki kunnugt um, að hugmyndir af þessu tagi hafi verið á sveimi fyrir atbeina neinna ábyrgra aðila.

Þess er skemmst að minnast, að það er ekki langt síðan hæstv. utanrrh. var á ferð í Bandaríkjunum og ræddi þá málin við ábyrga aðila þar. Og það, sem hann m.a. ræddi um, var framkvæmd á þeim viðaukasamningi sem gerður var með varnarsáttmálanum 1974. Ég ætla, að hæstv. utanrrh. hafi gefið utanrmn. skýrslu um þær viðræður. Hafi svo ekki verið, þá er um misskilning hjá mér að ræða. En ég stend í þeirri meiningu. A.m.k. hefur ríkisstj. fengið rækilega skýrslu hans um þær viðræður. Þær snerust, eins og ég sagði, fyrst og fremst um framkvæmd á þeim ákvæðum sem um var að ræða í þeim viðaukasamningi. En ég held að það sé óhætt að segja, að meginefni þess viðaukasamnings hafi verið að takmarka frekar en hitt, þó að ekki geti orðið af þeirri fyrirætlun sem fyrrv. ríkisstj. hafði ráðgert. Eitt af þeim atriðum t.d. var að flytja varnarliðsmenn, sem utan vallarins búa, inn á völlinn og ganga eftir því, að það verði framkvæmt eins og gert hafði verið ráð fyrir og um var samið 1974. En það voru líka í þessum viðaukasamningi nefnd tiltekin atriði sem rétt væri að kanna hvert samráð Íslendingar og varnarliðið gætu haft um, þ. á m. landhelgisgæslu og almannavarnir. Vitaskuld hefur aldrei nokkrum lifandi Íslendingi dottið í hug, að ég ætla, að með þessu eða að öðru leyti væri gert ráð fyrir því, að varnarliðið tæki við yfirstjórn landhelgisgæslu, heldur hefur hugsunin verið önnur, né heldur hitt, að varnarliðið tæki við stjórn eða framkvæmd almannavarna, þeirrar stofnunar sem rekin er af hálfu íslenska ríkisins. En þrátt fyrir það geta átt sér stað ýmiss konar samráð og samvinna milli þessara aðila meðan við búum við þær aðstæður sem hér eru fyrir hendi. Að þessu lutu m.a. viðræður utanrrh. við fyrirsvarsmenn Bandaríkjastjórnar, bæði í utanrrn. og hermálaráðuneyti. Þetta er mér algerlega óhætt að fullyrða, og um þetta hefur hann gefið ítarlega skýrslu.

Ég held því, að þó að erfitt geti verið að gefa hv. 2. þm. Austurl. trúna, þá held ég að hann geti sofið alveg rólegur, vegna þess að það eru ekki uppi nokkrar hugrenningar, að ég held, hjá nokkrum ábyrgum Íslendingi um hernaðarflugvöll, hvorki á Austurlandi né annars staðar á Íslandi.

Ég tel eðlilegra að ræða þau ummæli, sem Vísir hefur eftir iðnrh., þegar iðnrh, er sjálfur við og getur gert grein fyrir, hver hans ummæli voru og hvað hann hefur átt við með þeim, heldur en að ræða þau að honum fjarstöddum. Það hefur nefnilega viljað til, einstaka sinnum a.m.k., að það hafa slæðst villur inn í frásagnir blaðamanna, jafnvel hinna vönduðustu blaðamanna, hvað þá hinna. (Gripið fram í.) Ég tel hv. þm. í hópi hinna vandaðri blaðamanna, a.m.k. hvað ritun íslensks máls snertir.

En viðvíkjandi því, hver sé afstaða manna til þess að láta varnarliðið greiða fyrir landsafnot hér, þá vil ég gjarnan nota þetta tækifæri og segja það, að ég tel það ekki koma til greina. Ég tel að það hafi aldrei komið til greina að varnarliðið greiddi leyfisgjald fyrir landsafnot hér. Hér er um samstarf að ræða, menn geta hatt mismunandi skoðanir á því, framlag okkar er fólgið í því að leggja til landsafnotin. Ég er því algerlega andvígur að við Íslendingar gerum okkur dvöl varnarliðsins — eða það væri kannske réttara að segja: þeirra viðvörunarsveita, sem hér dvelja, að féþúfu. En mér finnst jafnósanngjarnt að ætlast sé til þess af okkur Íslendingum, að við tökum á okkar herðar nokkur útgjöld sem stafa sérstaklega af dvöl þessara sveita hér eða má til hennar rekja.