29.11.1977
Sameinað þing: 24. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 885 í B-deild Alþingistíðinda. (636)

88. mál, innheimta skemmtanaskatts

Sverrir Bergmann:

Herra forseti. Ég þakka fyrir að mér skuli veitt orðið, ég hafði reyndar ekki beðið um það, en hingað er ég kominn. (Forseti: Ég bið hv. þm. að afsaka, því að mér heyrðist hann berja í borðið áðan, en sé það misskilningur, þá er það ekki ósk mín að hann taki endilega til máls.) Ég vil, fyrst ég er kominn hingað, herra forseti, óska eftir því að mega segja nokkur orð.

Ég hef ekki kynnt mér fyllilega þessa fyrirspurn, ég er nýkominn hingað og var ekki alveg við þessu búinn, en ég er þeirrar skoðunar að hér sé e.t.v. minna mál á ferðinni en ætla mætti. Hér er á ferðinni nýskipan, eins og ég veit að hv. fyrirspyrjandi gerir sér grein fyrir, og þessi mál eru enn þá í þróun. Ég býst við að enn þá skorti nokkuð á að nægir starfskraftar séu fyrir hendi í hinum einstöku heilsugæslustöðvum, því eins og fram kom hjá hæstv. ráðh., þá er gert ráð fyrir í lögum mjög víðtækri starfsemi í heilsugæslustöðvunum, og ég er þeirrar skoðunar, að þar séu, hvergi nærri starfskraftar enn þá til þess að sinna því öllu saman.

Ég býst við að það verði aldrei hægt að reka heilsugæslustöðvar eða lækningar yfirleitt öðruvísi en að fram komi einhverjar kvartanir. Það verður aldrei gert svo að öllum líki. En ég er þeirrar skoðunar, að starfsbræður mínar og þá ekki síst þeir, sem ungir eru, séu í rauninni ákaflega ólatir að fara til fólks og veita því þjónustu hvenær sem er. En þeir verða auðvitað að reyna að meta það með fólkinu hverju sinni, hvort ástæða er til þess að hlaupa upp um miðja nótt eða hvenær sem er. Stundum mega hlutirnir biða og jafnvel hægt að sinna þeim betur við önnur og hagstæðari skilyrði. Ég hygg að þetta atriði eigi sér stað í tiltölulega fáum tilvikum og gefi ekki tilefni til þess að taka það upp sérstaklega. Við eigum þó áreiðanlega langt í land að ganga þannig frá öllum málum í heilsugæslustöðvunum, að þar verði sinnt öllu því starfi sem ráð er fyrir gert að þar verði í framtíðinni. Hins vegar er ég sannfærður um að þetta er rétt skipan mála, og ég er viss um að þetta mun verða farsælt, þegar fram í sækir. — Svo þakka ég hæstv. forseta.