29.11.1977
Sameinað þing: 24. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 888 í B-deild Alþingistíðinda. (640)

88. mál, innheimta skemmtanaskatts

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Ég verð að lýsa talsverðum vonbrigðum mínum með undirtektir hæstv, ráðh. Ég bar fram einfalda fyrirspurn og átti ekki von á því, að hann færi að svara með einhverri þykkju. En hann gerði það, og það kom fram í máli hans að hann getur ekkert um það sagt, hvenær sú áætlun verði fullgerð sem fyrir er mælt í lögum að gerð skuli. Hann lýsti alls konar örðugleikum í sambandi við að gera slíka áætlun, og mér er fullkomlega ljóst að um slíka örðugleika hlýtur að vera að ræða. En það er lagaskylda að gera þetta, og því aðeins getum við varið fjármunum til heilbrigðismála á skynsamlegan hátt að við vinnum þannig að þessu. Ég vil minna í því sambandi á vegáætlun sem Alþ. hefur unnið eftir mjög langan tíma. Fyrir þann tíma var sá háttur á hafður, að það voru fluttar hér endalausar till. við fjárl. um smásporslur í vegarspotta út og suður um landið sem gerðu ákaflega takmarkað gagn. En eftir að vegáætlun var búin til hefur verið unnið miklu skynsamlegar að þessum málum. Sama máli gegnir um heilbrigðismál. Þar er ákaflega mikið verk óunnið og verður að vinna skipulega að því að framkvæma þau verkefni sem þar eru brýnust.

Hæstv. ráðh. talaði af fyrirlitningu um framkvæmdir sem gerðar hefðu verið á þéttbýlissvæðinu. Hann hlýtur að eiga þar við geðdeild Landspítalans í Reykjavík. En hún er ekki byggð fyrir fólk á þéttbýlissvæðinu, hún er byggð fyrir landið allt, og þar er um að ræða eitthvert brýnasta heilbrigðisvandamál sem liggur á okkur hér á Íslandi, að tekið sé á þeim málum af fullri festu og alvöru. Sá háttur hæstv. ráðh. að binda þar peninga í steinsteypu án þess að ljúka verkinu er sóun á fjármunum, hrikaleg sóun á fjármunum, ekki síst á hrikalegum verðbólgutímum eins og við lifum nú m.a. fyrir tilstilli þessarar ríkisstjórnar.

Ég sé að hæstv. ráðh. er farinn, svo það er ekki ástæða til þess að ég þusi lengur yfir honum, og mínum tíma er lokið.