05.12.1977
Neðri deild: 25. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 959 í B-deild Alþingistíðinda. (709)

103. mál, gjaldþrotalög

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir það sem hv. síðasti ræðumaður sagði, að það er þarft og gott verk sem unnið hefur verið með samningu þessa frv., ekki aðeins hvað varðar hugmyndir þær um breytingar, sem í frv. felast, heldur ekki síður í hinni ítarlegu og mjög athyglisverðu grg. sem samin hefur verið með frv, og ég tel að þm, ættu að kynna sér mjög gaumgæfilega, því þar kemur ýmislegt fram sem varpar nokkru ljósi á hvernig að málum hefur verið staðið í þessu sambandi á undanförnum árum.

Erindi mitt hingað upp í ræðustól var þó ekki að tala um efnisatriði þessa frv., enda þarf talsverðan tíma fyrir ólögfróðan alþm. til að kynna sér jafnviðamikið frv. og hér er um að ræða. Ég vildi aðeins vekja athygli á máli sem er þessu þingmáli skylt, þó að það sé í formi annarra laga, en það eru lög sem sett voru á Alþ. 21. mars 1974, um ríkisábyrgð á launum við gjaldþrot. Ég tel að þetta mál ætti að athuga með þeim breytingum sem nú er verið að gera á gjaldþrotalögunum sjálfum.

Þau lög, sem hér um ræðir, um ríkisábyrgð á launum við gjaldþrot frá 21. mars 1974, voru mikilsverð réttarbót til handa launþegum, því eins og fram kemur í grg, frv. til gjaldþrotalaga var oft næsta lítið. sem til var í eignum og sjóðum fyrirtækja þegar þau voru tekin til gjaldþotaskipta, og ýmsir misstu talsverðar fjárhæðir í launum sem þeir ella hefðu átt að fá. En í 2. gr, þessara laga um ríkisábyrgð á launum við gjaldþrot er þessi ríkisábyrgð talsvert takmörkuð. Þar segir svo, með leyfi forseta:

„Greiðsla samkv. grein þessari til hvers launþega getur í hæsta lagi numið þreföldum lágmarkstekjum, sbr. 1. mgr. 5, gr. laga nr. 96 26. des. 1971.“

Í 5. gr. umræddra laga, sem eru lög um breyt. á l. um almannatryggingar, nr. 67 frá 20. apríl 1971, segir svo:

,,Nú eru tekjur elli- eða örorkulífeyrisþega lægri en kr. 120 000.00 á ári, og skal þá hækka lífeyri hans um það, sem á vantar þá fjárhæð.“

Ég held að ég fari rétt með það, þó að mér hafi ekki gefist tími til að kanna það, að markið, sem er í 5. gr. laga um almannatryggingar frá 1971, er sem svarar daglaunum verkamanns sem greidd eru eftir 4. taxta Dagsbrúnar. Ríkisábyrgðin á launum við gjaldþrot nær því til upphæðar, sem samsvarar þreföldum launum Dagsbrúnarverkamanns eftir 4. taxta.

Nú er það svo, að í ýmsum atvinnugreinum eiga launþegar nokkuð erfitt með að fá endanlegt uppgjör, en geta stundum haft allnokkrar tekjur. Hér er t.d. um að ræða sjómenn, svo að dæmi sé nefnt, en þeir eiga ekki kröfu á uppgjör nema á fjögurra mánaða fresti, þannig að mjög veruleg launaupphæð, sérstaklega hjá aflasjómönnum, getur legið inni hjá fyrirtækjum sem á tímabilinu eru tekin til gjaldþrotaskipta.

Í annan stað má einnig nefna byggingariðnaðarmenn, sem vinna ákvæðisvinnu, en þar er orðið talsvert algengt, t.d. hér á Reykjavíkursvæðinu, að ákvæðisvinnan sé ekki gerð upp með lágmarkslaunum eða tímalaunum, heldur með sérstökum útreikningum siðar. Og mér er kunnugt um að ástandið í byggingariðnaðinum er svo alvarlegt hjá sumum hverjum, að menn, sem vinna samkv, þessum samningum, eiga inni hjá atvinnuveitanda sínum allt upp í heils árs ákvæðisvinnulaun. Það er allmikill skellur fyrir þessa launþega, sem ég nefni dæmi um, annars vegar sjómenn og hins vegar byggingariðnaðarmenn, sem búa við þessar aðstæður, ef fyrirtækin eru tekin til gjaldþrotaskipta og ríkisábyrgð á launum þeirra tryggir þeim þá ekki nema mjög óverulegar bætur.

Auðvitað er hægt að sporna við þessu með tvennu móti, t.d. gagnvart sjómönnum með því að lögleiða, eins og samtök þeirra hafa óskað, uppgjör til sjómanna verði ekki sjaldnar en mánaðarlega, eins og hjá öðrum launastéttum sem ekki fá launauppgjör eftir skemmri tíma. Alveg eins væri hægt að mælast til þess við byggingariðnaðinn, hvort sem það yrði gert í lagasetningu eða með reglugerð, að með vikulegum útborgunum fylgdi ávallt útreikningur á ákvæðisvinnu og greiðsla.

Hin leiðin er svo að sjálfsögðu sú að auka ríkisábyrgðina í þessum tilvikum, og þá fyndist mér mjög eðlilegt og raunar sjálfsagt að það yrði athugað í því sambandi, hvort ekki væri rétt að atvinnufyrirtæki beinlínis keyptu sér tryggingar hjá ríkissjóði eða hjá einhverjum opinberum sjóði eða jafnvel einkaaðilum, — keyptu sér beinlínis tryggingar, sem mundu þá kosta launagreiðslur fyrirtækjanna ef um gjaldbrot yrði að ræða. Ég tel ekki eðlilegt að ríkissjóður ábyrgist slíkar fjárhæðir eins og gæti verið um að ræða, ef hámarkið yrði afnumið, án þess að atvinnurekendur legðu neitt fram á móti. Ég tel eðlilegt að atvinnurekendum væri gert að skyldu að kaupa sér slíka gjaldþrotatryggingu.

Ég vildi aðeins koma fram með þessar áhendingar, þó að lögin, sem ég vitnaði til, séu önnur en það fm. sem hér er til umr.