07.12.1977
Efri deild: 23. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 981 í B-deild Alþingistíðinda. (726)

113. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Í gildandi lögum um verðjöfnunargjald af raforku er ákveðið að lögin gildi til ársloka 1977. Þetta frv. fer fram á að framlengja lögin til ársloka 1978. Eins og kunnugt er gengur verðjöfnunargjald á raforku til þess að greiða rekstrarhalla Rafmagnsveitna ríkisins. En nú er í þessu frv. lagt til að verðjöfnunargjaldinu verði skipt milli Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða þannig að Rafmagnsveiturnar fá 80% gjaldsins og Orkubúið 20%.

Á þingi 1976, um vorið, voru samþykkt frá Alþingi lög um stofnun Orkubús Vestfjarða. Síðan var unnið að framkvæmd þess máls sem kostaði að sjálfsögðu mikla undirbúningsvinnu. Orkubúið var síðan stofnað formlega á s.l. hausti, og eins og lögin gerðu ráð fyrir er það að 60% eign sveitarfélaganna á Vestfjörðum, en 40% eign ríkisins. Orkubúið tekur við öllum rekstri Rafmagnsveitna ríkisins á Vestfjörðum, og í sameignarsamningi milli ríkis og Vestfirðinga um stofnun Orkubúsins er m.a. tekið fram að meginforsendur fyrir stofnun Orkubúsins skuli vera þessar:

1. Fullnægt verði orkuþörf Vestfirðinga með innlendum orkugjöfum.

2. Vestfirðingar búi við sambærilegt orkuverð og aðrir landsmenn.

3. Orkubúið hafi traustan rekstrargrundvöll. Við athugun á rekstrarafkomu Orkubúsins, en fram fóru mjög ítarlegar athuganir á því máli, kom fram að nauðsynlegt væri að Orkubúið fengi í sinn hlut 20% af verðjöfnunargjaldinu. Það er efni þessa frv. Í sameignarsamningi milli aðila hét ríkisstj. að beita sér fyrir því, að Orkubúið fái sem svarar 20% af tekjum af verðjöfnunargjaldi.

Ég legg til að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og hv. iðnn.