13.12.1977
Sameinað þing: 30. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1133 í B-deild Alþingistíðinda. (786)

1. mál, fjárlög 1978

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Þrátt fyrir allmargra ára veru mína hér á hv. Alþ. munu þskj. bera þess vitni, að ég hafi ekki tafið mikið umr. um fjárlög eða einstaka liði þeirra. Svo stendur þó á núna að ég tel rétt að segja hér örfá orð, ekki síst í framhaldi þeirra umr. sem fram hafa farið um sérstakan málaflokk, sérstök vandamál hóps manna í landinu sem lítt á þess kost að mæla fyrir sínum málum, og þar á ég við vanda mál hinna lömuðu og fötluðu.

Við lok mænuveikifaraldursins fyrir um það bil 25–27 árum voru stofnuð samtök, Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra, hér í Reykjavík og í kjölfar þeirrar félagsstofnunar nokkur önnur félög sem hliðstæð verkefni höfðu með höndum, en það var að safna saman því fólki sem áhuga hefði á að leysa vanda þess fólks, sem í þessi veikindi hefði ratað, og aðstoða það við að fá þá læknis- og hjúkrunarmeðferð, sem nauðsynleg verður talin.

Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra átti á s.l. vetri 25 ára starfsafmæli og var þá lýst í fjölmiðlum mjög rækilega þeim afrekum sem unnin hafa verið með öllu því sjálfboðastarfi sem á vegum félagsins hefur verið unnið allt frá fyrrnefndum mænuveikifaraldri sem ég áðan nefndi. Hér hefur fyrst og fremst verið um það að ræða, að fórnfúsar hendur hafa lagt fram ómælda vinnu og fjármuni, og hefur það ekki farið eftir aldri manna, karla eða kvenna, verið allt frá barnahlutaveltum upp í það að samtökin hafa erft eignir gamals fólks sem kynni hafði haft af þessum sjúkdómi, Þetta hefur verið meginburðarásinn í fjáröflun þessara samtaka.

Eina viðurkenningin af hálfu hins opinbera á starfi þessa fólks hefur verið svonefnt eldspýtnagjald, sem lengi vel lék á 100–200 þús. kr., en var fyrir 4 árum endurskoðað með þeim árangri að það hefur gefið samtökunum í tekjur u.þ.b. 2 millj , eða 2.2 millj. á s.l. ári. Allir sjá, að með 50–60 millj, kr. veltu vegur þessi aðstoð hins opinbera ekki þungt. Enn þá er stuðst við sömu burðarása og í upphafi, þ.e.a.s. frjálst vinnuframlag og frjáls fjárframlög einstaklinga og félagasamtaka úti um bæ, og hefur þó mesti aflgjafinn verið svonefnt símahappdrætti.

Félagið barðist fyrir því að koma yfir starfsemi sína húseign. Þess ber að geta sem gert hefur verið, að s.l. 4 ár hefur Alþ. stutt afborganir af þessari húseign með 1 millj kr. á fjárl. Þetta var hús að verðmæti um 20 millj. kr., sem jafnframt hefur verið barist við að reyna að halda. Þó að öll rök hnígi að því, að brýna nauðsyn beri til að stækka þetta húsnæði með viðbótarbyggingu, hefur þess ekki verið kostur á þessu 5 ára tímabili að hefja framkvæmdir vegna fjárskorts. Ég segi, að nauðsyn beri til að hefja framkvæmdir, og styð það með aðeins einni setningu: S.l. 7 ár hefur biðlistinn eftir sjúkrameðferð á endurhæfingarstöð félagsins að Háaleitisbraut 13 verið frá 120–190 manns, sem hafa orðið að bíða eftir meðferð misjafnlega langan tíma, vegna þess að reynt hefur verið að skjóta fram fyrir í röðina þeim sjúklingum sem brýnasta þörf hafa haft hverju sinni.

Við horfumst í þessu félagi í dag í augu við þá staðreynd. að komi ekki til veruleg tillitssemi og sannsýni af hálfu hins opinbera. þá muni innan örfárra mánaða þurfa það sama að koma yfir þessa starfsemi og henti Rauða kross Íslands. Eins og ég sagði áðan er starfsemi félagsins borin uppi af frjálsum framlögum einstaklinga. hundruðum og jafnvel þúsundum manna, í sambandi við happdrættið, en þrátt fyrir þá mikilvægu aðstoð munum við horfast í augu við það að loka verður þessari endurhæfingarstöð líkt og Rauðakrossspítalanum sem fréttir hafa verið um þessa dagana. Það er ekki nægjanleg skýring á þessu efni, að við skuldaerfiðleika sé að etja, heldur hefur félagið átt við það andstreymi að etja að auki, að meðferðargjöld Tryggingastofnunar ríkisins hafa ekki fengist endurskoðuð nema á margra ára fresti. Af þessum sökum ber félagið og hefur um margra ára skeið borið skuldahala með skammtímalánum, sem allir vita í dag hve dýr eru og erfið, til þess að geta borgað nauðsynleg vinnulaun.

Í erindi félagsins til hv. fjvn. var farið fram á endurskoðun þessara lið a. Þegar till, n. eru lagðar fram nú er ekki á þetta erindi minnst að einu eða neinu leyti eða að nokkur úrlausn sé í sjónmáli. Þess var farið á leit við mig, að ég flytti ekki um þetta sérstakar brtt., a.m.k. fyrir 2. umr. málsins, og hef ég orðið við því. Aðalatriðið fyrir mér og þeim, sem að baki þessum till. standa, þ.e.a.s. Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra, er að svo verði þarna úr bætt að félagið geti haldið áfram nauðsynlegri starfsemi. Ef ekki verður við því orðið, er slegið á útréttar hendur, sem hafa þarna lagt liðsinni, slegið á þær, og endurhæfingarstöðinni verður að loka.

Það hefur engin athugun farið fram á því, hvert hlutfall er á milli innanbæjarfólks og utanbæjar, sem þarna leitar lækninga. En óhætt er að fullyrða að þar muni nokkuð jafnt hlutfall, því að til stöðvarinnar er vísað sjúklingum til meðferðar nánast af öllu landinu, þannig að ekki ætti það að geta orðið bitbein manna á milli hér í sölum hv. Alþ. Hitt tel ég að öllum mætti ljóst vera, að þær 22–24 þús. meðferðir, sem sjúklingar hafa fengið þarna á hverju ári undanfarin ár, má ekki leggja niður, og jafnframt hitt, að öll þau frjálsu framlög, sem horið hafa starfsemi félagsins uppi á undanförnum árum, munu ekki fást — ég fullyrði það — munu ekki fást til borgar- eða ríkisrekstrar á þessari endurhæfingarstöð, þó að hið opinbera vildi nú taka við rekstri stöðvarinnar. Og ég efast um að meiri sparnaðar mundi gæta eða hagsýni í rekstri hennar við tilkomu opinbers rekstrar á þessum vettvangi. Það er því alveg einsýnt, að verði ekki af hálfu Alþ. tekið á þessu erindi félagsins svo sem nauðsynlegt er mun stöðin af sjálfu sér lokast.

Hér er ekki um neinar hótanir að ræða í garð eins eða neins. Okkur er ljóst að þær upphæðir, sem við förum fram á hvað viðbótarbygginguna snertir, sem er talin munu kosta um 21 millj., verða ekki fengnar í einum áfanga. Boðið er í erindi félagsins að taka þann styrk í þremur áföngum. Það er beðið um að þeir tveir liðir, sem á fjárl. hafa verið, verði hækkaðir, þ.e.a.s. að á eldspýtnagjaldið verði bætt sannanlegum verðlagsuppbótum s.l. 5 ár og sá 50 þús, kr. styrkur, sem er á fjárl. til endurvæðingar sjúkraþjálfara til sérnáms í leikskóla fatlaðra barna, verði fjórfaldaður eða lagður á hann a.m.k. nauðsynlegar verðlagsuppbætur s.l. 5 ár. Hér er orðið um upphæð að ræða sem er til skammar. svo að vægt sé að orði komist, því að hún mun vart duga fyrir fargjaldi til næstu nágrannalanda fyrir einn sjúkraþjálfara aðra leiðina.

Ég veit af fyrri veru minni í ríkisstj., að það er erfitt að skipta fjármunum sem naumir eru og fáir, og enginn vill mæla með hækkandi sköttum. En ég hygg, að á sama tíma sem við erum að tala um að leggja fram milljónatugi: laxastiga norður í landi, sem er mikið ágreiningsmál í sjálfu héraðinu þar sem laxastiginn á að koma, eða jafnvel það, sem mörgum mönnum þykir mikið verðmæti og er sjálfsagt eitt af framtíðarverkefnum þjóðarinnar, að talað er um hundruð millj. eða milljarða í bókhlöðu, þá sé erfitt að neita samtökum eins og þeim, sem hér er um að ræða, um áfangahækkanir vegna sinnuleysis hins opinbera eða beinna skulda frá undanförnum árum við samtökin.

Ég stend við það, að ég skal ekki flytja við þessa umr. sérstaka brtt. Verði þessu erindi ekkert sinnt milli 2. og 3. umr. hef ég í fyrsta lagi varað við afleiðingum þess, sem fram undan er, og sé mig þá til knúinn að leita eftir því, hverjir geta hugsað sér að taka þessa stöð og þá þjónustu, sem hún hefur veitt, úr umferð í heilbrigðisþjónustukerfi landsmanna.

Ég hygg að þarna sé alvarlegra mál á ferðinni en eitthvert uppsláttarmál fyrir einstaka alþm. eða mann.

Þessi orð eru í beinu framhaldi af því, og aðeins einn liður þess, sem 2 ræðumenn minntust á næst á undan mér og hafa verið að ræða, og ég tel að fáum tímum Alþ. hafi verið betur varið en þeim sem fara í að vekja athygli alþm. á vanda þessa fólks. Við, sem þekkjum vandann með einum eða öðrum hætti, ættu a.m.k. að telja það skyldu okkar að láta frá okkur heyra. Hinir eru nægjanlega margir, sem hafa ekki aðstöðu til þess. Ég treysti því einlæglega, að fjvn. líti þetta erindi mildum og sanngjörnum augum og það komi í ljós við till. n. fyrir 3. umr. málsins. Viðurkenning á samtökunum er góð og nauðsynleg, en Alþ. þarf að sýna þá viðurkenningu í verki.