14.12.1977
Neðri deild: 29. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1267 í B-deild Alþingistíðinda. (872)

129. mál, fjáröflun til vegagerðar

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Virðulegi forseti. Það er aðeins út af ummælum síðustu hv. ræðumanna, þar sem þeir komu að því, að með þessari bensínhækkun væri verið að útvega ríkissjóði tekjur og þeir teldu eðlilegt að allar tekjur af þessari bensínhækkun rynnu til Vegasjóðs. Við gerð fjárlagafrv. og þá um leið undirbúning þess fjármagns, sem ætlað er til vegagerðar á árinu 1978, var sérstaklega tekið tillit til þeirra tekna sem hækkun bensíngjaldsins gæfi ríkissjóði. Og framlag ríkissjóðs til vegagerðar tók mið af því. Ef lesin er grg. frv., á bls. 210 kemur í ljós að hækkun framlagsins er tæpar 600 millj. kr. og í þeirri tölu felst sá hluti sem rennur í ríkissjóð af tekjum vegna hækkunar á bensíngjaldinu, þannig að það var ekki gert ráð fyrir því með þessari sérstöku hækkun að ríkissjóður hefði neitt í sinn hlut. heldur var framlag ríkissjóðs til vegagerðarinnar hækkað með tilliti til þess.