16.12.1977
Neðri deild: 32. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1367 í B-deild Alþingistíðinda. (986)

94. mál, læknalög

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Út af þessu frv. og þó sér í lagi út af ræðu síðasta ræðumanns, 5. þm. Reykv., vil ég fara um þetta mál nokkrum orðum.

Það kemur fram í athugasemdum við frv. og kom sömuleiðis í framsögu, að það orðalag, sem lagt var hér upprunalega til að tekið yrði upp, hvarf úr lögunum á sínum tíma með þeim hætti, að það er ekki viðurkennt að það hafi verið vilji nokkurs manns, að það hyrfi úr lögunum, heldur mun ástæðan hafa verið að mönnum hefur sést yfir eða eins og við segjum, það hefur hent það slys, sem engum er um að kenna eða öllum er um að kenna, að það féll niður. Með tilliti til þess, að landlæknir óskaði eftir því, að þetta atriði yrði aftur tekið upp í lög, þá legg ég þetta frv. fram.

Ég er á gagnstæðri skoðun við n., sem hefur gert þá brtt., og þó alveg sér í lagi á gagnstæðri skoðun við 5. þm. Reykv. um það, eins og 5. þm. Reykv. sagði, að það ætti að vera háð meðmælum læknadeildar, hvort ætti að veita takmarkað starfsleyfi eða ekki. Heilbrrh. koma og fara, en embættismenn sitja lengi, og þetta mál sem auðvitað hvílir fyrst og fremst á landlækni, en ekki á ráðh., enda hygg ég að enginn ráðh. vilji hafa slíka ábyrgð, að bera einn ábyrgð á því að veita takmarkað starfsleyfi.

Á sínum tíma, þegar heilbrigðisstjórnin var ákaflega veik og heilbrigðismálin voru lítill málaflokkur í þessu landi, þótti sjálfsagt og eðlilegt, eins og við uppbyggingu Landsspítalans, að ég tali nú ekki um áður, að læknadeild Háskólans hefði mjög mikið með stjórn heilbrigðismála að gera. En eftir því sem þjóðfélagið verður stærra og flóknara og þessi málaflokkur verður viðáttumeiri, þá eiga að mínum dómi að vera mjög ákveðin skil á milli heilbrigðisstjórnar og menntamála læknastéttarinnar. Þegar þessi ákvæði mörg voru sett á sínum tíma, þá voru ekki mörg stéttarfélög heilbrigðisstétta starfandi umfram læknastéttina. En nú eru fjölmörg slík félög starfandi og nýjar stéttir sem ekki voru til fyrir 10–15–20–30, hvað þá heldur 50-60 árum. Þessar stéttir eiga þá alveg eins að segja til um það eða skólar þeirra eða kennarar, hvernig eigi að standa að þessum málum, eins og læknadeild Háskóla Íslands. Innan læknadeildar Háskóla Íslands eru margir aðilar, sem ekki eru læknar, eins og allir vita, og ég tel að með því að viðhalda alltaf þessu fyrirkomulagi sé verið að ríghalda í gömul forréttindi fyrir læknadeild Háskóla Íslands, forréttindi sem hún á alls ekki að hafa og nær ekki nokkurri átt að hún hafi. Háskólinn rígheldur í sín gömlu forréttindi. Það fer ekki saman, að læknaprófessor, sem á að hafa sem aðalstarf kennslu við Háskóla Íslands, eigi að vera forstöðumaður stórs sjúkrahúss eða sjúkradeildar sem veltir hundruðum millj. kr. eða jafnvel milljörðum. Maður upptekinn í kennslustörfum á að hafa með stjórn slíkrar deildar að gera af því að þetta var einu sinni, af því að þetta var fyrir 50 árum eða 57 árum, þá á að halda því áfram. Þetta er algjörlega mishugsað af hv. þm.

Varðandi álit, sem hv, þm. sagðist hafa fengið hjá landlækni, þá láðist þm. að geta þess, að hann óskaði eftir þessu áliti eftir að nál. hafði verið útbýtt hér á borð þm. Það hefði verið skemmtilegra að taka það fram, að það byggðist ekki á áliti landlæknis, heldur var það byggt á einhverju öðru áliti, þegar landlæknir er spurður eftir að búið er að útbýta þskj. á þingi.

Ég tel að þessi till. í sjálfu sér, þessi brtt., geri enga stórbreytingu á frv. eða gangi þessara mála. Þessi mál eiga fyrst og fremst að vera í höndum landlæknis. Og ég spyr: Af hverju var þá gengið fram hjá læknadeild Háskóla Íslands, þegar lögin um heilbrigðisþjónustu voru sett, varðandi allar stöðuumsóknir, því að í þeim lögum er byggt á allt öðru? Þar er byggt á n., sem landlæknir hefur forustu í, með tveimur öðrum nm., sem eru skipaðir með allt öðrum hætti en að leita til læknadeildar Háskóla Íslands. Um þetta ákvæði í lögunum um heilbrigðisþjónustu var Alþ. sammála. En það var líka í þeim lögum reiknað með meðmælum læknaráðs viðkomandi sjúkrahúss, þar sem átti að fjalla um þessa stöðu. Hins vegar er orðið svo mikið umstang um slíkar stöðuveitingar, að það getur kostað millj. kr. ef á að framfylgja lögum og lesa yfir allar ritgerðir sem læknar hafa skrifað. Til þess að lesa yfir verðum við að fá sérfræðinga, til þess að lesa bók eftir bók, og svo skrifa þeir reikning á læknataxta fyrir að láta í té umsögn um bækurnar, svo þetta er nú eiginlega orðið að skrípaleik. Nú tala ég af reynslu þriggja ára, og ég segi það við hv, þd., að eftir því sem fleiri koma nálægt þessum málum og viðkomandi umsækjandi hefur meira skrifað verð ég ruglaðri í sambandi við stöðuveitingar. Það er hægt að gera hlutina svona erfiða og flókna. Ég tel aftur ákvæði í núv. lögum um heilbrigðisþjónustu, um þriggja manna n. undir forustu landlæknis, vera mjög eðlileg og það ætti að leggja niður frekari umsagnir læknaráðs viðkomandi sjúkrahúss og heimila þessari n. að ráða, þegar þurfa þykir, einhvern sérfræðing á því sviði sem um er sótt, eða eitthvað þess háttar. Hins vegar er þetta vald í raun og veru ekki í höndum ráðh. Það er ekkert nema að skrifa undir bréfið þegar þar að kemur, ef þessar n. eru sammála að veita stöðu. Hins vegar ef n. verða ósammála, þá verður auðvitað ráðh. hver sem hann er, að taka að sér að skera úr um þessi atriði.

Þessi aths. mín við till. hv. heilbr.- og trn. byggist því á þessu sjónarmiði mínu, að með því að heilbrigðistjórnin og heilbrigðismálin eru orðin stór og sterkur málaflokkur í stjórnkerfinu, sem hefur mörgum ágætum mönnum og sérfræðingum á að skipa, bæði innan og utan sjúkrahúsa, þá eigi heilbrigðisstjórnin að vera sjálfstæð út af fyrir sig, en ekki hnýtt aftan í Háskólann af því svo var fyrir 50 árum. Þetta er mín sannfæring í þessum efnum, og þess vegna er ég á móti því að hnýta læknadeild þarna við þetta mál, eins og öll önnur mál. læknadeildin á fyrst og fremst að fjalla um menntunarmál lækna. Hún er í fræðslukerfinu, en hún á ekki að vera svo afgerandi sem hún er á mörgum sviðum í sambandi við stjórn heilbrigðismálanna, heldur eiga þeir, sem annast störfin í heilbrigðisstofnunum, að hafa þar forustu. Það eru þeir sem eiga að ráða þar mestu. Ég er ekki með þessu að ráðast nokkurn skapaðan hlut á læknadeildina. Hún á eðlilega að sinna sínu hlutverki. En það á að aðgreina miklu frekar en gert er hvar heilbrigðisstjórnin á að ráða í þessu kerfi og hvar læknadeild Háskólans, og ég tef, ef við fitum á peningahliðina sem við þurfum að gera a.m.k, þegar er verið að leggja á nýja skatta og afla ríkissjóði fjár, að þá fer það ekki saman að vera önnum kafinn við kennslu í Háskólanum og eiga að stjórna stórum sjúkradeildum sem jafnvel velta ekki hundruðum millj., heldur milljörðum króna.