14.12.1978
Efri deild: 27. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1547 í B-deild Alþingistíðinda. (1031)

7. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Guðmundur Karlsson:

Forseti. Ég er satt að segja svolítið undrandi á öllum þeim umr. sem átt hafa sér stað um þessa skýrslugerð og úttekt, sem fram fer á frystihúsunum í landinu, því það er ekkert nýtt að sveiflur og breytingar verði í íslenskum sjávarútvegi. Þetta er nokkuð sem við, sem höfum lifað í sjávarútveginum, höfum alltaf orðið að búa við og eigum alla tíð eftir að búa við. Skýrslugerð og úttektir breyta engu þar um. Ég efast þó ekkert um að þeir menn, sem vinna að þessari skýrslu núna, vinna samviskusamlega og gera till. samkv. eigin áliti um það, hvað nauðsynlegt sé að gera.

Mér finnst oft koma fram í máli manna, að Sunnlendingar séu orðnir þvílíkir amlóðar að þeir geti ekki rekið orðið fiskvinnslu eða sjávarútveg. Þetta hafa þeir þó gert frá fyrstu tíð. Það eru fyrst og fremst breytingar, sem eru að gerast í náttúrunni, sem hefur þessi áhrif. Vertíðarfiskurinn gengur ekki lengur á hin gömlu hefðbundnu vertíðarmið. Því fáum við Sunnlendingar ekki það hráefni sem við þurfum til vinnslunnar. Við höfum í flestum tilvikum byggt fyrirtæki okkar bæði í útgerð og í vinnslu, á því að geta notið þessarar vertíðarsveiflu og síðan haldið okkur á floti, má segja, það sem eftir er ársins.

Ef við lítum á afkomuskýrslur sjávarútvegs, bæði fiskvinnslu og útgerðar, fram til 1970 og fram yfir það, til 1972, þá kemur þar fram að það er Suðurlandið, Reykjanesið og Vestmannaeyjar, sem skilar langbestri afkomu. Síðan fer þetta að breytast úr því, eftir að uppbygging skuttogaraflotans hefst og sú snarvitlausa verðlagning á fiski sem átt hefur sér stað eftir það, þegar farið er að hafa smáfiskinn miklu ódýrari en stórfiskinn. Það er það sem orsakar þessa miklu breytingu í afkomu sjávarútvegsins og að sjávarútvegsfyrirtæki í öðrum landshlutum eru farin að skila miklu betri afkomu en hér.

Ég vil vekja athygli á því, að nokkur umræða hefur farið fram hjá þeim stjórnendum fyrirtækja á Suðurnesjum, sem stjórna fyrirtækjum sem talin eru lífvænleg, um það hve mikils virði þessi fyrirgreiðsla, sem þeir eiga að fá nú, er. Ég átti tal við þá nokkra nú fyrir tveimur dögum og þeir töldu að sú fyrirgreiðsla, sem þeir fengju í fjármagni, næmi svo sem einnar viku vinnulaunum og hreint ekki meira. Ef ekki verður meiri árangur af þessari skýrslugerð en sá, að menn fái fyrirgreiðslu sem nemur einnar viku vinnulaunum, þá er heldur mikið úr þessu gert.

Mér finnst satt að segja ekki skipta öllu máli að fá þessa skýrslu, heldur hitt, hvað á eftir kemur. Við skulum gera okkur grein fyrir því, að ef á að taka íslenskum sjávarútvegi það tak sem þarf að gera í dag, þá dugir þessi gengismunarsjóður ansi skammt. Það þarf eitthvað meira á eftir að fylgja en hann einn.