23.10.1978
Efri deild: 7. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 94 í B-deild Alþingistíðinda. (104)

8. mál, niðurfærsla vöruverðs

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég get fallist á það með hv. þm. Þorv. Garðari Kristjánssyni, að það sé meiri ástæða til þess að ræða þessi mál, þegar hin efnislegu atriði eru tekin til meðferðar, heldur en í sambandi við þetta mál, sem er fyrst og fremst formlegs eðlis eins og hann gat um. En það var þó eitt orð, sem hann viðhafði, sem stakk mig heldur ónotalega og ég vil ráðleggja honum að spara sér í framtíðinni, og það var þar sem hann var að tala um fölsun vísitölunnar, hér hefði verið framkvæmd fölsun vísitölunnar með þessum hætti.

Það er út af fyrir sig rétt hjá honum, sem hann sagði, að í þessum brbl., sem hér eru á dagskrá, er það fyrst og fremst efnið, að reiknuð skuli ný verðbótavísitala þar sem tekið sé tillit til aukinnar niðurgreiðslu vöruverðs og lækkunar óbeinna skatta sem fyrir lá þá að kæmu til framkvæmda og að hin nýja verðbótavísitala tæki gildi frá þeim tíma er þessar niðurgreiðsluaðgerðir yrðu að veruleika. Ég vil að gefnu þessu tilefni og vegna þeirra orða, sem hv. þm. lét falla um þetta, minna hann á, að upphafið að þessu er líklega að finna í lögum um ráðstafanir til stöðugs verðlags og atvinnuöryggis sem sett voru í nóv. 1970 að undirlagi ríkisstjórnar Jóhanns Hafsteins. Þau ákvæði voru efnislega alveg samhljóða þessum brbl. að því er varðar útreikning kaupgreiðsluvísitölu til samræmis við aukna niðurgreiðslu frá gildistökutíma vísitölunnar. En þessi ákvæði í lögum frá 1970 gengu þó lengra en ákvæði í brbl. nú að því leyti til, að heimildin í þeim um útreikning kaupgreiðsluvísitölu tók til þriggja kaupgreiðslutímabila, sem hófust 1. des. 1970 og síðan 1. mars og 1. júní 1971. Í brbl., sem hér eru til umr., er heimildin takmörkuð við einn útreikningstíma verðbótavísitölu, þ.e. við greiðslutímabilið fram að 1. des. þetta ár. Á hinn bóginn eru í þessum brbl. ákvæði um að lækkun óbeinna skatta, þ.e. niðurfelling söluskatts á matvöru, skuli verka á útreikning verðbótavísitölu á sama hátt og aukin niðurgreiðsla vöruverðs, en efnislega er ekki um mun að ræða, aukin niðurgreiðsla vöruverðs og niðurfelling söluskatts er sama eðlis í þessu sambandi.

Það má segja að fordæmi fyrir þeirri lagasetningu, sem hér er um að tefla, hafi verið upp tekið og lögfest 1970 fyrir afbeina ríkisstjórnar Jóhanns Hafsteins. Þessi lagasetning eða samsvarandi lagasetning var svo tvívegis endurtekin í tíð hinnar svokölluðu vinstri stjórnar á árunum 1971–1974, og þessi lagasetning sætti hvorki í upphafi né seinna þegar hún átti sér stað, að ég ætla, neinum andmælum frá stjórnarandstöðu á þeim tíma og ekki heldur frá launþegasamtökum. — Þetta vildi ég aðeins láta koma fram.