15.12.1978
Efri deild: 31. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1589 í B-deild Alþingistíðinda. (1118)

130. mál, mæling og skrásetning lóða og landa í lögsagnarumdæmum kaupstaða

Menntmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég flyt hér frv. til l. um mælingu og skrásetningu lóða og landa í lögsagnarumdæmum kaupstaða og á skipulögðum svæðum utan kaupstaða.

Hið sama gildir um þetta frv. og það sem var til umr. á undan, að það er samið af nefnd sem samgrh. skipaði 1975 til að semja frv. til l. um landmælingastjórn samkv. þál., sem samþ. var á Alþ. 7. maí 1975. Nefndin samdi þá frv. til l. um landmælingar, sem nú hefur verið vísað til hv. samgn., en þetta frv. er fylgifrv. þess.

Í III. kafla frv. til landmælingalaga er mælt fyrir um eignamælingar utan lögsagnarumdæma kaupstaða og skipulagðra svæða, en ekki þótti fært að hafa að öllu leyti sömu reglur um eignamælingar og gerð uppdrátta innan og utan þessara landssvæða.

Þetta frv. er samið með hliðsjón af lögum nr. 35/1914 og 16/1951, um mælingu og skrásetningu lóða og landa í lögsagnarumdæmum Reykjavíkur og Akureyrar, og gert ráð fyrir að þau lög falli úr gildi við gildistöku þessara laga. Að öðru leyti er frv. þetta samið með hliðsjón af ákvæðum frv. til l. um landmælingar.

Ég vil leyfa mér að leggja til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til hv. samgn.