15.12.1978
Efri deild: 31. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1597 í B-deild Alþingistíðinda. (1143)

131. mál, flugvallagjald

Frsm. minni hl. (Eyjólfur K. Jónsson):

Herra forseti. Aðeins til að fagna því að hæstv, samgrh, kom með framrétta hönd og lagði til að við.reyndum að sættast á útvegun þessa fjár. Það er ekkert kappsmál mitt að þetta sé endilega verðtryggt með einhverjum ákveðnum hætti, eins og er í núgildandi lögum. Það má gjarnan hugsa sér t.d. gengistryggingu eða eitthvert annað fyrirkomulag á happdrættislánunum. Ég vona að við náum saman um að koma þessu máli fram. því alveg er áreiðanlegt að það verður ekki hægt að koma saman vegáætlun, nema þetta fé fáist, og ég held að enginn okkar geti sýnt sig í kjördæmunum ef ekki kemur meira fé en nú er gert ráð fyrir. Þarna er áreiðanlega heppilegasta leiðin til fjáröflunar. Fólkið vill vegina. Það vill leggja eitthvað af mörkum til þess, það vill lána fé til þess. Og þetta er einhver besta fjárfesting sem hugsanleg er. Ég tel að þetta form, happdrættislán, eigi að verða varanlegt, að það eigi að gera þetta að alvöruhappdrætti, þannig að dregið sé t.d. mánaðarlega, fólk hafi gaman af að fylgjast með framkvæmdinni og fá að vita hvaða vegaspotta á næst að leggja o.s.frv. Við getum sameinast um að koma þessu máli fram. Ég, eins og ég sagði þegar ég fylgdi málinu úr hlaði, vildi m.a.s. mjög gjarnan að upphæðirnar í frv. yrðu hækkaðar, það yrðu meira en 2 milljarðar árlega sem þannig yrði boðíð út, gætu verið 3–4 og kannske svo árlega hækkandi. Ég fagna því sérstaklega, að ráðh. vill ræða það við mig og aðra að gera breytingar á þessu fyrirkomulagi þannig að féð náist.