18.12.1978
Neðri deild: 35. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1700 í B-deild Alþingistíðinda. (1221)

39. mál, kjaramál

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Þetta frv. til staðfestingar á brbl. er nú búið að liggja alllengi fyrir Alþ., svo að stjórnarflokkarnir hefðu þess vegna haft nægan tíma til þess að marka stefnu sína í þessu máli eftir að hafa markað hana fyrir útgáfu brbl. Og mér finnst að þessi till., sem hv. 1. þm. Austurl. var að lesa upp núna og stjórnarþm. í n. flytja við 3. umr., sé ekkert stórfellt skref fyrir láglaunafólkið í landinu. En af því að ég veit að hv. 1. þm. Austurl. er mjög reikningsglöggur maður og fljótur að reikna, þá langar mig til þess að spyrja hann að því, hvað þetta valdi ríkissjóði miklu tekjutapi, þessi stórkostlega till. sem hann var að lýsa.