18.12.1978
Neðri deild: 35. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1708 í B-deild Alþingistíðinda. (1231)

140. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Ég mun eins og hæstv. fjmrh. ræða við þessa umr. öll tekjuöflunarfrv. sem hér eru til meðferðar, og þegar kemur til afgreiðslu þeirra, sem hér eru á dagskrá í dag, víkja að þeim við 1. umr. nánast með örstuttri tilvísan til þess sem ég segi í umr. um þetta frv.

Þau tekjuöflunarfrv., sem hér eru til umr., eru afleiðing og framhald af stefnu hæstv. ríkisstj. og þeirra ráðstafana sem hún beitti sér fyrir í september og nóvembermánuði s.l. Síðan ríkisstj. tók við völdum hafa orðið mikil umskipti á sviði skattamála. Þau umskipti eru fólgin í stóraukinni skattheimtu á öllum sviðum skattamálanna, fyrst með brbl. í haust og nú með hverju frv. á fætur öðru um nýja skatta, hærri skatta en nokkru sinni fyrr. Meginefni þessara frv., sem hér eru til umr., er að auka skattaálögur, hvort heldur er á atvinnureksturinn í landinu, borgarana, svo og að þrengja að sveitarfélögunum og fara inn á tekjuöflunarleiðir er sveitarfélögin hafa haft. Er nú svo komið að á næsta ári sýnist skattheimtan geta numið nærri 70% af þeim tekjum sem skattborgararnir afla sér.

Skattheimtan með þessum frv. er sögð munu auka tekjur ríkissjóðs um 6.5 milljarða, en talið er að hér geti verið um að ræða allt að 8 milljarða kr. aukna skattheimtu til viðbótar við þá gífurlegu skattheimtu sem vinstri meiri hluti Reykjavíkurborgar hefur beitt sér fyrir og áformað, og munu þær upphæðir nema tæpum 2 milljörðum kr., þannig að skattheimta vinstri flokkanna á næsta ári til viðbótar við það, sem gilt hefur að undanförnu, mun nema tæpum 10 milljörðum. Af þessu sést hver eru úrræði vinstri stjórnar í efnahagsmálum, enda hefur Alþb. tekist að ráða ferðinni og lýðræðissinnuðu stjórnarflokkarnir, Alþfl. og Framsfl., virðast ekki hafa annað hlutverk en að samþykkja stefnumið Alþb., enda þótt setið sé langt fram á nætur við að semja óskalista um æskileg markmið.

Það, sem sérstaka athygli vekur þó, er sú aðför sem ríkisstj. gerir nú að atvinnurekstrinum í landinu. Á sama tíma og atvinnureksturinn berst í bökkum og liggur við stöðvun í sumum greinum, eru lagðir á nýir skattar sem hljóta að auka enn á erfiðleikana. Á sama tíma og ríkisstjórnir nágrannaþjóðanna reyna að styðja atvinnureksturinn með öllum tiltækum ráðum til þess að auka atvinnutækin og bæta lífskjörin ræðst íslenska ríkisstj. að atvinnurekstrinum eins og hann sé af hinu illa. Menn verða að gera sé grein fyrir því, að heilbrigður, arðbær atvinnurekstur í landinu er forsenda þess, að við lifum hér menningarlífi. Hann er forsenda þeirra lífskjara sem við búum við í nútíð og framtíð.

Með þeirri stefnu ríkisstj. í skattamálum, sem kemur fram í þeim frv., sem hér eru til umr., er veist harkalega að atvinnurekstrinum. Stefnt er að stórhækkun tekjuskatts, hækkun eignarskatts um 100%, auk álagningar sérstaks eignarskatts, sem í raun er fasteignaskattur, og álagningar sérstaks nýbyggingagjalds. Á sama tíma hefur meiri hl. borgarstjórar Reykjavíkur boðað hækkun fasteignaskatta og stórhækkun aðstöðugjalds. Hér er um skipulega aðför að ræða sem er undirbúin í herbúðum Alþb.-manna í öllum atriðum, enda gengur þessi stefna þvert á áður yfirlýsta stefnu bæði Alþfl. og Framsfl. í skattamálum. Ég vil við þetta tækifæri hvetja þm. lýðræðisflokkanna, sem standa að ríkisstj., til þess að íhuga vandlega hvað er í raun og veru að gerast og í hvaða hættu atvinnulífinu og rekstri fyrirtækja er stefnt.

Það var ljóst að ráðstafanir ríkisstj. í sept. og nóv. fólu í sér að stærstum vanda efnahagsmálanna var velt yfir á ríkissjóð með auknum útgjöldum, á sama tíma og sett voru stefnumiðin hallalaus ríkisbúskapur og samdráttur í útgjöldum ríkisins. Það er öllum ljóst, að vanda ríkissjóðs verða borgararnir að bera fyrr eða síðar, og það var öllum ljóst, að til urðu að koma auknar álögur að því leyti sem samdráttur í ríkisútgjöldunum nægði ekki til þess að mæta þeim vanda sem yfir á ríkissjóð var velt. Nú liggur hins vegar fyrir að ekkert hefur verið aðhafst til þess að draga úr útgjöldum ríkissjóðs, og má búast við því, að ríkisútgjöldin á næsta ári aukist um 2–3% af þjóðarframleiðslunni, sem í tölum talið er á milli 15 og 20 milljarða kr. Í stað þess að draga úr ríkisútgjöldum eru álögur auknar í formi beinna skatta, auðvitað til þess að vísitalan hnekki ekki vegna skattheimtunnar, og fyrirsjáanlegt þrátt fyrir góðan vilja ríkisstj. í skattheimtu að henni tekst ekki að afgreiða raunhæf hallalaus fjárlög 1979, heldur mun skorta milljarða, e.t.v. heilan tug milljarða, þegar upp verður staðið og 16 mánaða markmiðið þar með úr sögunni.

Við 1. umr. fjárlagafrv. vöktum við sjálfstæðismenn athygli á því, að þar skorti veigamiklar ákvarðanir um útgjöld ríkisfjármála sem námu mörgum milljörðum kr. Við 2. umr. fjárl. hefur enn ekki bólað á því, að stjórnarflokkarnir séu nær því að geta komið sér saman, og það einsdæmi skeði í sögu Alþingis, að einn stjórnarflokkanna undirritar nál. meiri hl. fjvn. með fyrirvara, enda er það í samræmi við fyrirvara frv., og spyrja nú margir hvort þeir Alþfl.-menn muni samþykkja fjárl. með fyrirvara.

Ég vil vara hv. þm. við slíkri afgreiðslu mála, að aftur verði tekin upp þau vinnubrögð sem einkenndu afgreiðslu fjárl. í tíð fyrri vinstri stjórnar, en eins og hv. frsm. minni hl. fjvn., hv. 6. þm. Norðurl. e., Lárus Jónsson, benti á, kom mjög fram í tíð vinstri stjórnarinnar hversu mikið frávik var frá fjárl. til ríkisreiknings vegna óraunhæfs mats Alþingis á þróun efnahagsmála. Slík afgreiðsla fjárl. leiðir til þess, að fjárl. verða aðeins pappírsgagn, en ekki stjórnunartæki ríkisfjármálanna.

Þegar komið er að umr. um tekjuöflunarfrv. ríkisstj. og dæmi ríkissjóðs eða fjárlagafrv.-dæmið er gert upp, þá liggur ljóst fyrir að sá fjögurra milljarða tekjuafgangur, sem hæstv. fjmrh. hefur sagt að væri stefnumið frv., er orðinn næsta lítill. Það kemur fram í nál. meiri hl. fjvn., að tekjuáætlunin er ofmetin um 1.5 milljarða kr. Till. fjvn., sem lagðar hafa verið fram við 2. umr. frv., eru upp á 3.4 milljarða kr., og þar sem talið er að þau frv., sem í gangi eru í þessari hv. d. og í hv. Ed., muni gefa ríkissjóði auknar tekjur upp á 2 milljarða, þá sjáum við að sá tekjuafgangur, sem fjárlagafrv, er látið sýna, en í reynd er óraunhæfur, er orðinn næsta lítill, e.t.v. um 1 milljarð. Þá er eftir að taka tillit til, að mér er tjáð, tillagna og atriða í fjvn. sem gætu numið tæpum 5 milljörðum. Mér er ekki ljóst hvernig hæstv. fjmrh. og hvernig ríkisstj. hyggst ná endum saman í því sem boðað hefur verið, hallalausum fjárl., þegar auk þess er vitað að tekjuafgangur fjárlagafrv., 4 milljarðar, er óraunhæfur, einfaldlega vegna þess að það eru strikaðar út stórar tölur og sagt: Við ætlum að breyta niðurgreiðslum á næsta ári, við ætlum að lækka þær um 2.8 milljarða kr. svo að þess vegna er óþarfi að taka tillit til þeirra eins og ær eru nú. — Þetta hefur áður heyrst í sölum Alþ. Ég minni á afgreiðslu fjárl. 1974 þegar ekki tókst að koma fjárl. saman. Þá var aðeins dregið frá þeirri tölu, sem gert var ráð fyrir til niðurgreiðslna, og sagt: Við ætlum að lækka niðurgreiðslur á næsta ári. — Raunin varð allt, allt önnur. Niðurgreiðslurnar voru hækkaðar á því ári um 2 milljarða 150 millj. kr. Verði hins vegar niðurgreiðslurnar lækkaðar þegar kemur fram á árið 1979, við skulum segja fram á mitt ár, þá sjáum við hvað gerist í sambandi við verðbólguna. Við sjáum hvaða stökk vísitalan þá tekur, og við sjáum þá þann árangur sem ríkisstj. telur sig vera að vinna að í sambandi við verðbólguna hér á landi.

Þau frv., sem hér eru til meðferðar, eru, eins og ég sagði áðan, öll með sama sniðinu. Hér er um að ræða auknar álögur, — álögur sem aldrei hafa þekkst áður. Það er ekki aðeins að sett séu lög um nýja skatta, heldur er haldið áfram afturvirkni skatta, eins og kom fram í brbl. í sept. og talið er mjög vafasamt að stæðist, og ýmsir þeirra, sem gerst þekkja til í þessum málum, telja að stangist beinlínis á við þær réttarreglur sem gilt hafa í landi okkar.

Frv. um breytingu á lögum um tekju- og eignarskatt felur í sér í 1., 2. og í 5. gr. breytingar á tekjuskattlagningu fyrirtækja. Í fyrsta lagi er felld niðurstuðulfyrning sem vinstri stjórnin setti á 1972 og taldi sér þá til mikils ágætis og var það vissulega. Hins vegar var gert ráð fyrir því, að með breyttum fyrningum og breyttum fyrningarákvæðum þeirra skattalaga, sem taka gildi 1. jan., yrði gerð á þessu breyting. En við erum hér að ræða skattlagningu ársins 1978 og þá hefði að öllu óbreyttu stuðulfyrningin gilt. Þá er enn fremur í 2. gr. frv. breytt flýtifyrningu, hún færð úr 30% í 20%. Í þriðja lagi er tekjuskattur félaga með 5. gr. frv. færður úr 53% í 65%.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir verulegri lækkun á fyrningarheimildum atvinnufyrirtækja með niðurfellingu verðstuðulsfyrninganna og verulegri lækkun flýtifyrninganna. Það er athyglisvert hve vel Alþb.-ráðh. hefur gengið að koma því inn hjá samstarfsmönnum sínum í ríkisstj., að fyrningar séu einhver sérstök hlunnindi sem atvinnureksturinn hafi og þurfi þess vegna helst að fella alveg niður. Það var raunar gert við álagningu hins sérstaka tekjuskatts samkv. brbl. í haust, og nú er stefnt í sömu átt. Hins vegar er hægt að sýna fram á að fyrningar eru allt of lágar við þær verðbólguaðstæður sem við búum við og höfum búið við á undanförnum árum, og af þeim sökum hafa fyrirtæki orðið að greiða skatt af of háum tekjum, — tekjum sem í raun og veru voru ekki tekjur, heldur tölulegur útreikningur á niðurstöðu sem tekur ekki mið af verðbólgunni. Afleiðing þessa er m.a. sú, að eigið fé fyrirtækja hefur rýrnað og mikill fjöldi fyrirtækja býr nú við alvarlegan fjármagnsskort.

En lítum örlítið nánar á fyrningar. Með fyrningum er verið að færa til gjalda hjá fyrirtækjum útgjöld sem þau verða að leggja út og standa undir, en fá ekki að færa til frádráttar tekjum á því ári sem til útgjaldanna er stofnað, heldur er frádrættinum dreift á nokkur ár. Í verðbólgunni rýrnar gildi fyrninganna og fyrirtækin fá ekki að draga þessi útgjöld frá á réttu verði á hverjum tíma samkv. þeim skattalögum sem enn gilda. Afleiðingin verður of há skattlagning á tekjur sem ekki eru raunverulegar. Í hinum nýju skattalögum, nr. 40 frá 1978, sem fyrrv. ríkisstj. beitti sér fyrir, er tekið á þessu máli m.a. með fyrningum af eldra matsverði atvinnurekstrartækja. Þar er mótuð heilsteypt og heilbrigð stefna um skattlagningu atvinnurekstrarins sem er af allt öðrum toga en þær óraunhæfu skattaálögur sem núv. ríkisstj. er að boða þessa daga á atvinnureksturinn í landinu.

Í 3. gr. frv. er gert ráð fyrir að bæta við nýju skattþrepi með 50% skattprósentu. Hér er um að ræða að um það bil 12 þúsund skattborgarar fá jólagjöf frá ríkisstj. Það er um það bil 12 þús. skattþegnar sem koma til með að greiða þennan viðbótarskatt og í grg. frv. er gert ráð fyrir tekjuauka ríkissjóðs upp á 1850 millj. kr. Mér er nær að halda að sá tekjuauki sé þar vanmetinn og verði þessi grein samþ. óbreytt, muni það geta gefið ríkissjóði eitthvað á fjórða milljarð í staðinn fyrir 1850 millj. kr. sem gert er ráð fyrir hér. Vissulega veitir ríkissjóði ekki af á næsta ári, það er mér fullkomlega ljóst. En ég held að ástæða sé til þess í þeirri n., þ.e.a.s. hv, fjh.- og viðskn., sem fær þessi frv. til athugunar, að athuga þetta gaumgæfilega, því að ef ætlunin er að afla 1850 millj. kr. tekna verður það að gerast með réttri prósentu, en ekki að prósentan sé ákveðin og síðan sé reiknað út og útkoman látin vera önnur. Reynist rétt sem í grg. stendur, þá leiðréttist það að sjálfsögðu, en ég mun í fjh.- og viðskn. fara eindregið fram á að á þessu verði gerð sérstök athugun.

Þá er í þessu frv. gert ráð fyrir hækkun eignarskatts, og með öðrum frv. er enn aukið á eignarskatta og þar farið inn á svið sveitarfélaganna, svo sem ég mun koma að hér á eftir. Samkv. nýjum fasteignamatslögum er fasteignamat endurmetið einu sinni á ári og því breytist stofn fasteignamatsins og sá stofn sem er lagður til grundvallar eignarskatti. Það láta menn sér ekki nægja í dag, heldur er eignarskatturinn aukinn og það verulega. Þær eignir, sem menn hafa keypt fyrir þær tekjur sem menn hafa borgað skatta af, eru nú skattlagðar í miklu ríkari mæli en nokkurn tíma hefur verið gert áður.

Í sambandi við þetta frv. verður ekki hjá því komist að víkja að því máli sem hv. 11. landsk. þm., Árni Gunnarsson, ræddi um, en hann vék að afturvirkni laganna. Það, sem hér er verið að gera, er að afturvirknin er látin gilda. Ráðstafanir í fjármálum, sem menn í upphafi þessa árs gerðu í trausti þess að gildandi lög ríktu, breytast við þessar álögur og þeir hafa að sjálfsögðu ekkert tækifæri til þess að breyta gerðum sínum enda þótt þeir e.t.v. hefðu alls ekki staðið að þeim miðað við öll þau frv. sem hér eru til umr.

Afturvirkni íþyngjandi laga er andstæð réttarvitund manna. Við setningu þeirra skattalaga, sem eiga að taka gildi eftir áramótin, gerði ég grein fyrir þeim sjónarmiðum sem fráfarandi ríkisstj. hafði í þeim málum. Þar var ekki einu sinni um að ræða setningu skattalaga sem giltu frá og með lögfestingardegi, heldur taldi ég eðlilegt að aðlögunartími væri hjá þeim aðilum sem við skattalög þurfa að búa, en það er hver einasti borgari landsins, og þegar þau voru samþ. á vorþinginu var ákveðið að þau tækju ekki gildi fyrr en 1. jan. á næsta ári.

Vegna þess, sem gerðist í sept., og vegna þeirrar stefnu, sem núv. ríkisstj. hefur í þessum málum, höfum við hv. 4. þm. Reykv., Geir Hallgrímsson, flutt frv. til l. um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, þar sem allur vafi er tekinn af með því að banna afturvirkni íþyngjandi skattalaga.

Á þskj. 133, 138. mál, er frv. til l. um sérstakan skatt á skrifstofu- og verslunarhúsnæði. Hér er enn einn þátturinn í sambandi við aðför núv. ríkisstj. að atvinnurekstrinum í landinu, og það sem meira er, hér er farið inn á tekjustofna sveitarfélaganna. Það hefur verið talað um að þyrfti að koma á skýrari verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, en ég fæ ekki betur séð en verið sé að gera þá hluti alla erfiðari með slíkri skattheimtu sem þessari. Þau gjöld, sem lögð eru á fasteignir, eru þjónustugjöld sveitarfélaganna og eiga að vera það, og skoðun mín er sú, að þar eigi sveitarfélagið sjálft að hafa ákvörðunarréttinn um það hversu há þjónustugjöld þau setja, því að vissulega getur það verið mismunandi hverja þjónustu sveitarfélögin veita.

Mér er fullkomlega ljóst að sveitarfélögin eru andstæð þessu. Samband ísl. sveitarfélaga hefur gert samþykkt á fundi sínum og mér er tjáð að þar hafi enginn skorið sig úr, allir hafi verið sammála. Ég vil — með leyfi forseta — lesa hér upp skoðanir Sambands ísl. sveitarfélaga á því sem núv. ríkisstj. er að gera í þessum efnum:

„Stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga ítrekar samþykktir landsþings síns frá 6. sept. s.l. þess efnis, að tryggja verði sveitarfélögum rauntekjur af útsvörum og aðstöðugjöldum, sem að var stefnt með setningu laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 8/1972, og jafnframt að sveitarfélögum verði bætt tekjuskerðing við Jöfnunarsjóð sveitarfélaga vegna niðurfellingar söluskatts á ýmsum vörutegundum, sbr. lög um kjaramál frá 8. sept. s.l., með því að veita Jöfnunarsjóði hlutdeild í öllum söluskattsstigunum 20 í stað 18 eins og nú er. Stjórnin mælir eindregið gegn því, að ríkisvaldið seilist til tekjuöflunar með álögum á þá tekjustofna sem sveitarfélögunum eru ætlaðir samkv. lögum nr. 8/1972, en fram hefur komið í fjölmiðlum að undanförnu að í athugun sé að ríkissjóður leggi á sérstaka fasteignaskatta, veltuskatta og brúttóskatta á tekjur. Í þessu sambandi bendir stjórn Sambandsins á að tekjustofnar sveitarfélaga eru ekki verðtryggðir nema að óverulegu leyti, en því er ólíkt farið með tekjustofna ríkissjóðs. Af þessum sökum og af völdum verðbólgunnar er fjárhagur flestra sveitarfélaga nú mjög erfiður og tekjuöflun þeirra þröngur stakkur skorinn. Stjórnin leggur því áherslu á að sveitarfélögunum verði veitt aukið svigrúm til tekjuöflunar og skerðing á tekjum Jöfnunarsjóðs verði bætt, en skattaálögur til ríkissjóðs af sömu tekjustofnum verði ekki auknar“. Þetta var ályktun stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga og ég hef engu við hana að bæta.

Það leynir sér ekki hver tilgangurinn er með frv. til l. um sérstakan skatt á skrifstofu- og verslunarhúsnæði, og ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um einstakar greinar þess, en vísa til þeirra sjónarmiða sem fram koma í samþykkt stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga.

Á þskj. 184, þingmál 139, er frv. um enn eitt nýtt gjaldið. Hér er um að ræða nýbyggingargjald. Lýsir ríkisstj. yfir að þetta sé tæki til stjórnunar fjárfestingar í landinu, upphaf að fjárfestingarstjórn, fjárfestingarhöftum sem við höfum áður þekkt. Og mönnum fannst eins og þeir gætu átt von á því, þegar septemberlöggjöfin var sett, að eitthvað slíkt kæmi til.

Ég er þeirrar skoðunar, að við eigum að fara allt aðrar leiðir í sambandi við fjárfestinguna í landinu. Ég er sammála um að við þurfum að hafa þar hemil á og haga fjárfestingu með tilliti til þess efnahagsástands sem er í landinu. En boð og bönn eru ekki sú leið sem ég mæli með að farin sé.

Við tölum um að skattamál okkar séu flókin, þau þurfi að einfalda, og við segjum að sjálfsögðu að það megi ekki íþyngja skattborgurunum og það megi ekki íþyngja atvinnurekstrinum. En þeir, sem tala svo, geta ekki í sama orðinu talað fyrir ótal nýjum sköttum, fyrir ótrúlega mikilli skattahækkun og sagt samhliða því að skattar séu einfaldaðir og skattbyrðinni í hóf stillt, hvort heldur það er fyrir einstaklinga eða fyrir atvinnureksturinn í landinu.

Það er ljóst mál og hefur enginn gert betur grein fyrir því hér á Alþ. en formaður þingflokks Alþfl., hversu gífurlega skattabyrðin vex á næsta ári. Samanburðartölur í þeim efnum eru með þeim hætti, að hlutfall á greiðsluári verður 13.9% miðað við skattvísitölu 150 stig, en á álagningarári 19.2 stig. Það er aðeins eitt ár, sem slær út þessa prósentu, árið 1978, en þá verður álagningarársprósentan 19.4, en á greiðsluári 13.9. Svo hátt hefur þetta hlutfall aldrei komist áður.

Í þeirri ringulreið, sem einkennir efnahagsstefnu hæstv. ríkisstj. í efnahagsmálum, er þó einn rauður þráður sem sjá má, ég hef vakið athygli á og fram kemur í frv. sem hér eru til umr., en hann er ásetningur Alþb. að ganga af öllum sjálfstæðum atvinnurekstri dauðum í landinu og enn fremur að tryggja að þeir einstaklingar, sem hafa með mikilli vinnu og dugnaði aflað sér sæmilegra tekna, sjái nú ekki annan kost betri, ef þær skattaálögur sem eru boðaðar í þessum frv. verða að veruleika, en að hverfa til þeirrar meðalmennsku sem einkennir allt þjóðlíf þeirra ríkja sem Alþb. sækir fyrirmyndir sínar til.

Annað veigamikið atriði, sem er afleiðing þeirrar veislu sem núv. ríkisstj. taldi sig bjóða til þegar hún tók við stjórn þjóðarskútunnar, er að nú blasir við að mörg atvinnufyrirtæki, ekki síst í útflutningsatvinnuvegunum, munu ekki geta starfað áfram ef sú skattheimta, sem felst í þessum frv., næst fram. Þá munu mörg þeirra hætta rekstri. Ef slíkt gerist stöndum við Íslendingar frammi fyrir þeim bölvaldi sem hrjáð hefur margar nágrannaþjóðir okkar, því að þá mun atvinnuleysið hefja innreið sína hér á landi. Fyrrv. ríkisstj. hafði það að meginmarkmiði og tókst að bægja frá atvinnuleysi. Það skyldi þó aldrei vera rétt, að Alþb. óskaði eftir að. slíkt ástand skapaðist hér á landi og fengi til fulltingis við sig í þeim efnum samstarfsflokka sína, Framsfl. og Alþfl.? Það er það hörmulega við þetta, að þessir tveir lýðræðisflokkar, sem mynda núv. ríkisstj. ásamt Alþb., virðast ekki gera sér grein fyrir hvert stefni. Sú fyrirferð, sem er í þingliði Alþfl. á hv. Alþingi nú síðustu dagana, skiptir hér sáralitlu máli. Ég er hræddur um að það muni nú sem hingað til sitja undir og samþykkja stefnumið Alþb. Það lengsta, sem Alþfl.-þm. geta látið sér detta í hug að ná fram, er að þeir sjálfir skrifi aths. við efnahagsfrv. hæstv. ríkisstj. um æskileg markmið Alþfl.

Framsfl. virðist ekki hafa nokkra stefnu í efnahagsmálunum, þar sem hann var algerlega utan gátta. Það virðist ekki skipta nokkru máli hvað hæstv. fjmrh. segir hver skuli vera stefna ríkisstj. í ríkisfjármálunum, því að hæstv. forsrh. gengur að kröfum Alþb., eins og dæmin sanna. Þetta er sú mynd sem nú blasir við þjóðinni undir forustu hæstv. ríkisstj. og þeirra flokka sem unnu glæsilegan sigur í síðustu kosningum. Við sjálfstæðismenn erum andvígir þessari stefnu. Við viljum efla atvinnulíf landsmanna þeim til hagsældar. Vil viljum efla og styðja einstaklingana til athafna, ekki draga úr kjarki þeirra og þrótti með slíkri skattaáþján sem nú er fyrirhuguð. Við viljum efla sveitarfélögin, en ekki draga úr sjálfsákvörðunarrétti þeirra og gera þau veikari. Þess vegna munum við greiða atkv. gegn þessum frumvörpum.