18.12.1978
Efri deild: 35. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1741 í B-deild Alþingistíðinda. (1289)

39. mál, kjaramál

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Erindi mín hér í ræðustól eru tvö.

Hið fyrra er óneitanlega dálítið sérkennilegt og það á ég persónulega við hæstv, forsrh. Mig langar til þess að biðja hann að brýna dálítið raustina úr þessum ræðustól þegar hann útlistar fyrir okkur mál. Ég veit vel að hæstv. forsrh. er skýr í framsetningu, en þó ekki svo skýr að a.m.k. ég skilji mál hans, því að ómögulegt er að heyra hvað hann segir. Hef ég ekki þjáðst af heyrnarleysi, en vera má að það hafi gerst nú þessa dagana. (Gripið fram í.) Ég bið hæstv. forseta að taka þetta til athugunar. Það er þá eitthvað að hljómburði í þessari hv. deild.

Ég þykist vita að við í Ed. höfum fengið eitthvað viðlíka útlistun á málinu og hv. Nd. Mig langar sérstaklega að beina spurningu til hæstv. forsrh. í sambandi við þetta mál, sem er hið raunverulega sameiningartákn hæstv. ríkisstj. Það er þetta mál, sem við höfum í höndum, sem er sameiningartákn hæstv. ríkisstj. Þess vegna er tilefni til þess nú að spyrja hvað líði samstöðu hæstv. ríkisstj. Ástæðan fyrir því, að mér finnst ég knúin til að spyrja þessarar spurningar, er sú, að ég uni því afskaplega illa að hér sé 20 manna stjórnarandstöðuflokki haldið við störf frá morgni til kvölds í hv. Alþ. út af málum hæstv. ríkisstj., sem enginn veit þó hvaða lyktir fá, ekki einu sinni hv. stjórnarflokkar sjálfir. Mér sýnist ljóst að það sé alveg á huldu hver verði afdrif sameiningartákns ríkisstj.

Okkur hefur verið sagt af þeim stjórnarflokki, sem vill gjarnan láta taka mark á sér sem þeim flokki sem fylgi meginreglum í afstöðu til mála, þ.e.a.s. Alþfl., að við skulum aðeins bíða róleg, um þetta fáum við að vita trúlega á Þorláksmessu. En við skulum vinna að málunum, þótt enginn viti hvert stefnir, á meðan hv. Alþfl. er að hugsa ráð sitt. Það liggur ekkert fyrir um það í dag, hvert ríkisstj. raunverulega stefnir sem heild. Það er sanngjörn lágmarkskrafá stjórnarandstöðu, að við förum að fá að vita þetta. Það hlýtur að verða gert jólahlé á störfum Alþ. um næstu helgi, því að samkv. almanakinu er sjálfur aðfangadagur á sunnudaginn. Ég geri ráð fyrir því, að hæstv. forsrh. kunni að leika eins mikil forvitni á því og mér og öðrum þm. Sjálfstfl. að vita hver verður endanleg niðurstaða Alþfl. Spurning mín er þessi: Vill hæstv. forsrh. skýra okkur frá því, hver hugsunin er, hver verður afstaða ríkisstj. og þeirra flokka allra, sem hana styðja, til þessa sameiningartákns? — Þó að ég bendi með hendinni til hv. þm. Braga Sigurjónssonar, þá á ég ekki við hann, heldur það plagg sem ég hef hér í hendinni. Hver verður afstaða stjórnarflokkanna til þessa frv., sem nú er sameiningartákn ríkisstj., og hvernig verður afstaða ríkisstj. og allra stjórnarflokkanna til sjálfs fjárlagafrv.? Mér finnst það ekki nema réttmætt tillit til stjórnarandstöðuþm. að þetta fái þeir að vita. Málin líta svo út í dag, að allar þessar aðgerðir, er Alþfl. hefur haft í frammi, minna töluvert á eitthvað sem gæti verið allstór loftbóla eða í hæsta máta og besta falli einhvers konar flugeldasýning rétt fyrir áramótin, til þess ætluð að gera hávaða og sjást, en ekki til þess í raun og veru að fylgja fram meginmálum.

Um þetta vildi ég gjarnan fá upplýsingar hæstv. forsrh., ef hann gæti látið okkur þær í té. Ef hann getur það ekki, þá þætti mér vænt um að fá það staðfest af hans munni.