18.12.1978
Efri deild: 36. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1762 í B-deild Alþingistíðinda. (1316)

91. mál, biðlaun alþingismanna

Bragi Níelsson:

Herra forseti. Eitthvert óbragð finnst mér alltaf af því þegar þm. eru, á hverju þingi næstum því, að ræða um hvernig þeir skuli skammta sér laun. Mér finnst að þm. eigi að vísu að vera vel launaðir menn í starfi, þetta er ábyrgðarmikið starf, og þeir eigi ekki að þurfa að hafa fjárhagslegan baga af því að gegna þessum einum af veigamestu störfum í þjóðfélaginu. En hitt er svo allt annað mál, að þegar menn eru einráðir um að skammta sér kaup, þá finnst mér óbragð að hlutunum.

Það má kannske segja að einhver laun geti verið eðlileg eftir að mönnum er sagt upp starfi. En það þekki ég ekki, að neitt eðlilegt sé við að menn séu á fullum launum í hálft ár eftir að þeir hafa e.t.v. sjálfir óskað eftir því að hætta starfi. Þrír mánuðir gætu kannske komið til greina, ef þeir væru bókstaflega ráðnir til þessara starfa, en ekki annarra. Hins vegar mun það í flestum tilfellum svo, að menn eru ráðnir til annarra starfa og bíða þau störf eftir þeim þangað til þeir fara af þingi. Þeir ganga því í flestum tilfellum til sinna fyrri starfa. Það eru aðeins örfáar undantekningar, held ég, frá þessu og má ekki miða neina almenna reglu út frá þeim undantekningartilfellum. En það verður sjálfsagt erfitt að skilja á milli sauða og hafra hvað þetta snertir.

Hitt er svo einnig á að líta: Eiga menn, sem hætta fríviljugir störfum, að fá svona biðlaun? Eiga hinir, sem eru á framboðslistum, að fá biðlaun, séu þeir í svokölluðum baráttusætum? Og hvað eru baráttusæti? Eða eiga hinir líka að fá biðlaun sem eru neðst á lista, í svokölluðum heiðurssætum? Þetta ber líka á að líta.

Ég skal útskýra þetta. Það mætti hugsa sem svo, að þeir, sem væru í framboði, skyldu fá biðlaun ef þeir féllu. Það væri nokkurs konar falltrygging. (Gripið fram í.) Já, það mætti skilja svo. En hinir, sem hættu bókstaflega viljugir og væru alls ekki í framboði, fengju ekkert. En það gerist stundum, að menn skreyta listana með fallegum nöfnum sínum og eru þá raunverulega í framboði, en alls ekki ætlast til þess, að þeir sitji þing. Þarna komum við sjálfsagt að einu vandamálinu enn og réttlætismálið verður aðeins gagnvart þessum örfáu mönnum sem hafa ekki starf sem bíður eftir þeim. Störfin eru afskaplega margvísleg, það eru embættisstörf, bændur fara til búa sinna, sjálfstæðir atvinnurekendur eru sumir o.s.frv., o.s.frv.

Afturvirkni laga er afskaplega leiðinleg, það vitum við þó að við komumst ekki hjá henni oft og tíðum, það skal viðurkennt. En ef afturvirkni eins og er í þessu frv. á að gilda, þá finnst mér hún ekkert réttlætismál. Þeir, sem voru búnir að sitja síðustu 4 ár á þingi, áttu að geta séð þetta í hendi sinni, að sumir þeirra a.m.k. mundu falla í næstu kosningum og féllu sumir í prófkjörum áður en til kosninga kæmi. Aðrir ætluðu sér alls ekki að sitja lengur. Örfáir þeirra féllu óviljugir og gengu þá flestallir til sinna fyrri starfa. Ég sé því, þegar allt er lagt saman, ekki ástæðu til þess að styðja þetta frv.