19.12.1978
Neðri deild: 37. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1788 í B-deild Alþingistíðinda. (1367)

127. mál, vitamál

Menntmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Á þskj. 150 hefur verið lagt fram stjfrv. um vitamál. Forsaga þessa máls er sú, að þáv. samgrh. skipaði í okt. 1974 þrjá menn í n. til að endurskoða lög frá 1933 um stjórn vitamála og vitabygginga og semja nýtt lagafrv. um þau efni. Fyrir fáum dögum, eða nánar tiltekið i. des. s.l., voru 100 ár liðin síðan kveikt var á fyrsta vita hér við land og fer því vel á því, að á 100 ára afmælinu sé sett ný löggjöf um vitamál. Elstu lög um vitamál, sem nú eru í gildi, eru frá árinu 1899, lög um afhendingu lóða til vitabyggingar o.fl. Síðan hafa verið sett mörg lög og reglugerðir um vitamálefni og eru flest þeirra orðin úrelt og samsvara ekki breyttum tímum og viðhorfum. Er því ekki seinna vænna að endurskoða vitalögin.

Í áðurgreindum lögum frá 1933 fjallar I. kafli þeirra um stjórn vitamálanna. Kafli þessi er að verulegu leyti úreltur. Meginuppistaða laganna var upptalning á þeim vitum sem skyldi byggja. Á þeim tíma, sem liðinn er síðan, hafa flestir þeir vitar verið byggðir eða aðrir á nálægum stöðum sem taldir voru heppilegri. Ýmsar breytingar á útgerðarþáttum og tækni hafa auk þess komið til á tímabilinu og er því þessi meginkafli laganna bersýnilega úreltur.

Í gildandi lögum og reglum eru ýmis ákvæði óljós um hlutverkaskiptingu og ábyrgð við gerð og rekstur vita og sjómerkja. Í frv. þessu er reynt að gera þeim málum slík skil, að ljóst sé hver skuli annast og bera ábyrgð á hinum ýmsu tegundum sjómerkja.

Um vitagjald hafa gilt sérstök lög, nú lög nr. 61 frá árinu 1972. Þegar gjald þetta var sett á var það verulegur tekjustofn, og er óhætt að fullyrða að mikill hluti vitakerfisins hafi verið byggður upp fyrir fjármuni sem þannig var aflað. Á seinni árum, með vaxandi verðbólgu, hefur ekki tekist að halda í horfinu þannig að vitagjald gæfi eðlilegar tekjur, og hafa vitabyggingar m.a. af þeim orsökum dregist mjög saman. Því er gert ráð fyrir því í frv., að vitagjald verði að nokkru breytt, þannig að það komi jafnar niður á alla notendur vitakerfisins, og auk þess sé það ákveðið með reglugerð í stað laga, sem ætti að gera auðveldara að halda gjaldinu eðlilegu. Gert er ráð fyrir að vitagjaldinu sé einvörðungu varið til rekstrar og endurbóta á vitakerfinu og með tilliti til þess komið á fót n. vitamálastjórninni og rn. til ráðleggingar um það, hvernig vitagjaldinu skuli varið. Aðilar að n. þessari, vitanefnd, skulu vera notendur vitanna og þá jafnframt greiðendur vitagjaldsins. Með því að veita þannig greiðendum þess aðgang að ákvarðanatöku varðandi notkun þeirra fjármuna er þeir leggja til vitakerfisins ætti að vera tryggt að fénu yrði varið á sem hagkvæmastan hátt.

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að leggja til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til hv. samgn.