19.12.1978
Neðri deild: 37. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1804 í B-deild Alþingistíðinda. (1386)

139. mál, nýbyggingagjald

Fjmrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja umr. almennt um skattamálin, en aðeins undirstrika þá meginstefnu sem kemur fram í þessum frv. öllum. Hún er sú að lækka skatta á lágtekjufólki í landinu, en hækka skatta á þeim sem hafa hærri tekjur.

Varðandi það atriði, sem hv. þm. Friðrik Sophusson ræddi um, sem snertir 2. gr. frv. til l. um nýbyggingagjald, þá er auðvitað ljóst að heimildarákvæðið um að undanþiggja ákveðnar tegundir mannvirkja gjaldskyldu er að sjálfsögðu í frv. af ákveðnum ástæðum og þeim ástæðum fyrst og fremst að undanþiggja ýmis af þeim mannvirkjum sem hv. þm. ræddi um. Ég geri ráð fyrir því, án þess að ég vilji lýsa neinu ákveðnu yfir í því efni án þess að athuga það nánar, að með reglugerðarheimild verði fylgt svipaðri stefnu og kemur fram í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 8 frá 1972. Ég geri ráð fyrir því, en vil ekki á þessu stigi málsins segja meira um það mál.