21.12.1978
Neðri deild: 40. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1863 í B-deild Alþingistíðinda. (1498)

Umræður utan dagskrár

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Á síðasta kjörtímabili voru þær raddir mjög háværar meðal ýmissa, sem á áttu ekki sæti hér á Alþ., að gera þyrfti miklar breytingar á störfum Alþingis og breyta þyrfti stjórnmálaumr. í landinu til betri vegar. Það voru fyrst og fremst siðgæðispostular Alþfl. sem höfðu hátt um þessi sjónarmið og töldu fyrst og fremst að auka yrði virðingu Alþingis með betri störfum í þeirri samkomu.

Nú hafa ýmsir þessara siðferðispostula tekið sæti hér á hinu háa Alþingi og við höfum fylgst með störfum þeirra með vaxandi undrun frá degi til dags. Störf þingsins hafa gengið með þeim hætti, að ríkisstj. hefur ekki náð fram málum sínum með eðlilegum hætti. Þeir hafa sett fram hótanir, fyrirvara og hvers kyns yfirlýsingar, og þeir gera samþykktir í sínum þingflokki um að neita ríkisstj. um það, að mál fái eðlilegan gang hér í þinginu, hvað þá að þau geti flust milli deilda. Nú síðast er svo komið, að Alþ. verður að bíða eftir því, hvaða ákvarðanir eru teknar á flokksstjórnarfundum Alþfl. einhvers staðar úti í bæ á síðkvöldum.

Þessi einstæðu vinnubrögð hafa auðvitað sett mark sitt á störf þingsins, og það þarf engum að koma á óvart þó að við, sem nú sitjum í stjórnarandstöðu, teljum ástæðu til þess að gera veður út af þessum vinnubrögðum. Og það er ekki við okkur að sakast þó að störfum þingsins sé nú svo komið, að tímatakmörk séu á öllum umr. og að óvíst sé um framgang mikilvægra mála sem ríkisstj. þarf að fá samþykkt fyrir áramót.

Síðasta samþykkt flokksstjórnar Alþfl., sem hér var flutt áðan, kórónar kannske hámark þeirrar vitleysu sem fram hefur farið hér undanfarna daga. Við höfum fylgst með því héðan úr þessum ræðustól, að þm. Alþfl. hver á fætur öðrum hafa staðið hér upp og flutt mjög skilmerkilegar yfirlýsingar um það, að fjárlagafrv. fengist ekki samþykkt fyrr en búið væri að samþykkja efnahagsfrv. það sem Alþfl. hefur verið með í smíðum og kynnt. Þessar yfirlýsingar hafa verið mjög afdráttarlausar, enda er það ljóst við lestur á þessu jafnvægisfrv. Alþfl., að það gengur auðvitað þvert á mörg meginsjónarmiðin sem liggja að baki fjárlagafrv. Það er öllum ljóst við lestur á því frv., efnahagsfrv., að það er útilokað að samþykkja hvort tveggja, bæði fjárl. eins og þau liggja fyrir svo og það frv. sem Alþfl. hefur smíðað. Menn biðu að vísu með nokkurri athygli eftir því, hvaða útgönguleið Alþfl. hefði út úr þessu máli, því að auðvitað vissu allir þm. og flestir þeir sem fylgjast með störfum þingsins, að Alþfl. mundi renna á rassinn með þetta mál eins og flest annað sem hann hefur gert frá því að hann tók þátt í þessari ríkisstj.

Sú yfirlýsing, sem var lesin og samþ. mun hafa verið á flokkstjórnarfundi Alþfl. í gær, er í 8 liðum.:

Tekið er fram, að ríkisstj. hafi ákveðið að fresta afgreiðslu lánsfjáráætlunar eins og Alþfl. krafðist. Það eru vinnubrögð í lagi — eða hitt þó heldur — að gera kröfu til þess, að fjárlagaafgreiðsla fari fram án þess að lánsfjáráætlun sé samþ. líka. Þetta er ekki beint til fyrirmyndar og ekki hægt að gefa Alþfl. góða einkunn fyrir þessa merkilegu niðurstöðu.

Í öðru lagi er tekið fram, að unnið sé á þeim grundvelli, að heildarfjárfesting verði ekki meiri en 24.5% af þjóðarframleiðslu. Þetta hefur ekki nokkur maður hugmynd um og getur ekki fest hendur á, einfaldlega vegna þess að lánsfjáráætlun liggur ekki fyrir og verður ekki samþ. núna jafnhliða fjárlagafrv.

Þá segir í 3. lið: Við 2. umr. fjárl. hefur verið ákveðinn 1840 millj. kr. niðurskurður á útgjöldum ríkisins til viðbótar fyrri niðurskurði. — Þetta eru fréttir fyrir okkur sem sitjum í fjvn. Haldinn var fundur í fjvn. í gærkvöld. Það gekk að vísu erfiðlega að halda þar fund vegna þess að fulltrúar Alþfl. voru sífellt á hlaupum til þess að geta rétt upp hendurnar með þeirri samþykkt, sem hér var lesin, á flokksstjórnarfundinum sem haldinn var í næsta húsi. En á þessum nefndarfundi fjvn. í gærkvöld var ekki aldeilis um það að ræða að tilkynna 1840 millj. kr. niðurskurð, heldur voru lesnar þar upp margar, margar tölur, bæði til hækkunar og lækkunar, og niðurstaðan var sú, að fjárl. hækka um nímar 300 millj., og þar er þó meðtalinn sá niðurskurður sem gerður hefur verið í 5–6 rn. upp á samtals 500 millj. (Gripið fram í: Er það frá 2. umr.?) Það er frá 2. umr. Þær niðurskurðartill., sem frá rn. koma, eru kapítuli út af fyrir sig, vegna þess hversu vitlausar þær eru, en það gefst vonandi tími til að fjalla um þær við fjárlagaafgreiðsluna fyrir jólin. M.ö.o., það hefur ekkert bólað á þessum 1840 millj. kr. niðurskurði sem hér er talað um, heldur er þvert á móti búið að tilkynna fjvn. þær ákvarðanir, að fjárl. verði milli 2. og 3. umr. hækkuð um 300 millj. Það má vera, að fjvn. og hæstv. fjmrh. og Alþfl. lumi á þarna rúmlega tveggja milljarða kr. lækkun, en hún er ekki komin í ljós enn þá.

Þá er talað um í 4. lið, að greiðslujöfnuður fjárl. verði um 3 milljarðar, og í 5. lið, að rekstrarafgangur verði tæplega 8 milljarðar. Það liggur auðvitað ekkert fyrir um þetta. Það má vel vera að hægt sé að sýna það með einhverjum hundakúnstum og bókhaldskúnstum að þessar verði niðurstöðutölur varðandi greiðslu jöfnuð og rekstrarafgang. Það liggur þó fyrir nú þegar, að ríkisstj. hefur ekki hugsað sér að taka með inn í fjárlagadæmið t.d. niðurgreiðslurnar, sem eru taldar a.m.k. 3. milljarðar, sem verða að koma til á næsta ári. Hún hefur ekki tekið með þá hækkun sem verður 1. mars á launum opinberra starfsmanna og talin er um 1300 millj. Og það er hvergi minnst á það í þeim fjárlagaafgreiðslum, sem liggja fyrir í dag, hvernig eigi að fara með þær félagslegu umbætur, sem búið er að lofa, ca. 5 milljarða, ef það á að standast hefðbundna og venjulega útreikninga. Það hefur verið rætt um það í n., að varið yrði til félagslegra umbóta núna 1 milljarði, og það er að vísu búið að geta um nokkra liði til hækkunar, sem nema nokkrum tugum millj. En að minnst sé á þennan milljarð, hvað þá 5 milljarða varðandi félagslegar umbætur, það er af og frá. Allar þessar stóru tölur eru óafgreiddar og eiga greinilega ekki að afgreiðast nú við fjárlagaafgreiðslu. Og það er ekki beint hægt að segja að það sé ábyrg fjárlagaafgreiðsla þegar svona er að staðið. Það er auðvitað fráleitt að halda því fram, að greiðslujöfnuður verði 3 milljarðar og rekstrarafgangur fjárl. verði tæpir 8 milljarðar þegar svona er staðið að málum. Það er alveg útilokað. Og þessar tölur, sem nefndar eru þarna og greinilega hefur verið stungið upp í Alþfl., eru algerlega út í hött.

Varðandi 6. liðinn: fjárlög verða innan við 30% af þjóðarframleiðslu, þá er þegar búið að svara því við þessa umr. og ég vík ekki frekar að því. En niðurstaðan er sem sagt sú, að þetta stenst ekki.

Síðan er sagt í 7. lið: Eftir þessar breytingar eru fjárl. í samræmi við grg. laga um ráðstafanir 1. des. og þau markmið, sem þar voru sett. Það þarf mikinn heilaþvott til að komast að þessari niðurstöðu.

Ég hef ekki lagt á mig að lesa mjög ítarlega þetta jafnvægisfrv. Alþfl., en ég minnist þó þess, að ég held að það hafi verið í 1. eða 2. gr. þess frv. talað um að skera skuli niður 3% af öllum rekstrargjöldum hins opinbera. Þar er náttúrlega um að ræða milljarðaniðurskurð, ef þetta á að framkvæma. Hvernig getur Alþfl. haldið því fram, á sama tíma sem hann leggur fram þetta frv. og ætlar að gera það að lagaákvæði að 3% af opinberum gjöldum séu skorin niður, að það sé í samræmi við þetta frv. að afgreiða fjárlagafrv. núna?

Í 8. og síðasta lagi segir svo: Samstarfsflokkarnir eru reiðubúnir til að kjósa n. þriggja ráðh. til að kanna rækilega frv. Alþfl. og till. hinna flokkanna. Skal hún leggja fram fyrir 1. febr. efnahagstillögur er taki til tveggja næstu ára. — Þetta var alveg sérstakur árangur hjá Alþfl., að ná þessu fram — alveg sérstaklega athyglisverður árangur.

Herra forseti. Ég skal ekki vera mjög langorður. Ég vil aðeins í lokin minna á það, að það gekk ekki lítið á þegar Alþfl. gekk til þessarar stjórnarþátttöku og hafði uppi mörg fyrirheit um að breyta um efnahagsstefnu. Og hér hefur verið minnst á það, hvernig hann hefur rækilega svikið það allt saman.

Stjórnarflokkarnir gengu til bráðabirgðaráðstafana 1. sept. á þeirri forsendu, að þar væri um neyðarráðstafanir að ræða sem yrði að endurskoða. Þeir fengu loforð um það, eftir því sem einstakir þm. þess flokks sögðu frá í fjölmiðlum, að tekið yrði tillit til efnahagsstefnu þeirra síðar. Þetta var nú gott og blessað. En svo kemur 1. des. Allir, sem sitja hér á þingi, urðu vitni að þeim átökum, sem þá áttu sér stað, og öllum þeim upphlaupum, sem áttu sér stað hjá Alþfl. Það endaði með því, að suðvitað voru samþykktar þær till. sem komu frá Alþb. og Framsfl., fyrst og fremst frá forsrh., sem gengu auðvitað þvert á þá stefnu sem Alþfl. hefur verið að boða í efnahagsmálum. Alþfl. náði þó þeim merkilega árangri, að hann fékk inn í grg. með frv. ýmsar yfirlýsingar og var því fagnað ákaft af þeim Alþfl.-mönnum, enda hélt maður á stundum, þegar þau mál voru hér á dagskrá, að verið væri að greiða atkv. um grg., en ekki frv. sjálft.

Enn var öllum málum skotið á frest af hálfu þeirra Alþfl.-manna. Og nú átti heldur betur að láta á það reyna, hvort ríkisstj. mundi ekki fara að taka til hendinni gagnvart þeim ráðstöfunum og þeirri stefnu sem Alþfl. hefur boðað í efnahagsmálum. Alþfl.-menn gripu til þess ráðs að semja sérstakt frv. og komu hér síðan og lýstu því yfir, að þeir mundu ekki standa að fjárlagaafgreiðslunni nema væri búið að samþykkja þeirra frv. fyrst eða jafnhliða. Það var algerlega skýrt og klárt fyrir öllum þeim sem hér sátu, það fór ekkert á milli mála. En núna sem sagt renna þeir á rassinn með þetta, vegna þess að ríkisstj. er búin að lofa því að skipa n. í málinu til þess að endurskoða stefnu sína og taka tillit til þess sem stendur í grg.

Ég veit ekki hvort þetta eiga að kallast ný vinnubrögð og til fyrirmyndar. En ef þeir Alþfl.-menn halda að þeir skapi sér traust og auki virðingu Alþingis með þessum vinnubrögðum, þá þeir um það. Um það verður þjóðin sjálf að dæma. En allt er þetta ósköp fánýtt og auðvitað kemur ekki nokkurt mál við þá samstarfsmenn Alþfl. þó að svona ályktanir og samþykktir séu gerðar einhvers staðar úti í bæ á flokksstjórnarfundum í Alþfl., vegna þess að sannleikurinn er sá, að alltaf hefur staðið til frá upphafi að fara þessa leið. Í stjórnarsáttmála ríkisstj., sem gerður var 31. ágúst 1978, í lokaákvæði þessa sáttmála, segir:

„Stjórnarflokkarnir eru sammála um að endurskoða samstarfsyfirlýsingu þessa á árinu 1979.“

Og hvar stendur Alþfl. núna með allar sínar greinargerðir, alla sína fyrirvara og allar sínar flokksstjórnarsamþykktir? Nákvæmlega í sömu sporunum og 1. sept.

Ég vildi vekja athygli á þessum örfáu staðreyndum sem eru öllum ljósar, en óska Alþfl. hjartanlega til hamingju.