21.12.1978
Neðri deild: 40. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1871 í B-deild Alþingistíðinda. (1510)

137. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Það eru nokkur orð til að skýra afstöðu mína til þessa máls. Ég ætla ekki að tefja tímann með alls konar tilvitnunum í þau fjölmörgu skjöl sem þm. hafa fengið í hendur varðandi þessi mál. Ég er hins vegar einn af fjórum nm. í meiri hl. iðnn. sem erum mótfallnir því að hækka verðjöfnunargjald á raforku úr 13% í 19%, en getum eftir atvikum fallist á að framlengja lögin óbreytt í eitt ár.

Það ætti að vera ljóst fyrir öllum hv. dm. um hvað er deilt í þessu máli nú eins og ávallt áður og því óþarfi að blanda í þessar umr. lítt skyldum málum. Eins finnst mér ekki viðurkvæmilegt að fullyrða að þeir, sem eru andvígir hækkuninni, séu að telja eftir hreina smámuni, svo sem eins og 50 kr. nefskatt á mánuði. Þetta er ekki mergurinn málsins. Með slíkri fullyrðingu er horft fram hjá aðalatriði málsins, sem varðar grundvallarstefnumörkun. Það er höfuðatriðið.

Hér er deilt um með hvaða hætti leysa eigi fjárhagsvanda Rafmagnsveitna ríkisins. Það er ekki deilt um að þetta fyrirtæki eigi við fjárhagsvanda að stríða. Það er ekki heldur deilt um að landsmenn sitji ekki við sama borð hvað raforkuverð varðar. Ég hef fylgst með þessum málum á Alþ. nokkuð lengi. Ég hef ávallt verið andvígur hinu svo kallaða verðjöfnunargjaldi — og ég endurtek: hinu svo kallaða verðjöfnunargjaldi á raforku. Í reynd er hér ekki um jöfnunargjald að ræða. Það hefur ávallt verið mín skoðun, að það sé röng stefna að leysa vanda Rafmagnsveitna ríkisins með neytendaskatti eins og hér er nú fjallað um og gert hefur verið í æðimörg ár, en nú á enn einu sinni að hækka. Ég var eindregið andvígur þeirri breytingu sem gerð var þegar föstu krónugjaldi var breytt í prósentugjald. Því var þá mjög hátíðlega lýst yfir, að það gjald ætti að standa aðeins í eitt ár, vera til bráðabirgða, eins og enn er sagt, en allir vita hver reynslan hefur orðið af þessu loforði.

Ég vil endurtaka það sem hér er margbúið að segja við þessa umr., að þessi hækkun kemur þyngst niður á notendum Rafmagnsveitna ríkisins eða þeim, sem eru með hæstu rafmagnstaxtana í landinu. Það er þess vegna síður en svo að þessi aðferð að hækka verðjöfnunargjaldið dragi úr þeim ójöfnuði sem nú er. Það, sem hér þarf til, er alger stefnubreyting. Sameiginlegur sjóður allra landsmanna, ríkissjóður, verður að axla fjárhagsvanda þessa fyrirtækis síns í miklu ríkari mæli en hingað til, jafnframt því að stjórnun þessara mála og þessa fyrirtækis verði rækilega endurskoðuð. Ég virði þá viðleitni sem kemur fram hjá núv. hæstv. iðnrh. í þessa átt og raunar er í stefnuyfirlýsingu ríkisstj. En hækkun á verðjöfnunargjaldi nú tefur fyrir þessari nauðsynlegu stefnubreytingu og þess vegna m.a. er ég andvígur hækkun á verðjöfnunargjaldinu.

Þá er í þessari umr. lýst eftir hugmyndum frá þeim, sem stæðu gegn þessari hækkun, um einhver ráð til þess að jafna raforkuverðið í landinu. Í þessu sambandi vil ég minna á að ríkissjóður skattleggur alla raforkusölu í landinu og skattleggur þá mest sem hæsta greiða taxtana. Ég vil nú varpa fram þeirri hugmynd, sem ég og raunar gerði í iðnn., hvort ekki væri ráðlegt, um leið og taxtar RARIK væru endurskoðaðir eins og lýst hefur verið yfir, að einnig yrði skoðað að ríkissjóður gæfi eftir söluskatt a.m.k. á heimilistöxtum RARIK. Í því fælist vissulega verulegur jöfnuður á raforkuverði og þá um leið gætu þeir, sem hræddir eru um að missa jafnaðarmannsnafn sitt nema þeir framfylgi þessari hækkunarkröfu á hinu svo kallaða verðjöfnunargjaldi, máske einnig fundið frið í sálu sinni.