21.12.1978
Neðri deild: 40. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1875 í B-deild Alþingistíðinda. (1513)

137. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég tel rétt að svara með örfáum orðum fsp. og ábendingum frá hv. þm. Matthíasi Bjarnasyni.

Hann kom með fsp. sem tengjast væntanlegri lánsfjáráætlun fyrir næsta ár. Ég vil segja í því sambandi, að vinnu að lánsfjáráætlun er enn ekki lokið. Að henni er unnið á vegum ríkisstj. og þar er eftir að taka stefnumarkandi á einstökum þáttum varðandi tilteknar framkvæmdir, þ. á m. að því er varðar Vesturlínu. Iðnrn. hefur gert það að tillögu sinni, að lokið verði við þessa framkvæmd á næstu tveimur árum, og ég hef sama áhuga á því og fram kom í umr. fyrr í vetur að þetta nái fram að ganga.

Þá vék hv. þm. að því, hvort ekki væri hægt að finna aðrar leiðir en lagt er til í því frv., sem hér er til umr., til að ná sömu markmiðum, m.a. með yfirtöku eða framlengingu lána. Ég get út af fyrir sig fallist á að það séu fleiri leiðir til en hér er fram haldið, fyrir utan það að ríkið leggi bein framlög til Rafmagnsveitnanna í þeim mæli sem þarf til þess að þær geti haldið uppi starfsemi sinni og verði sem sé sambærilegt við það sem annars staðar gerist. En þessi leið var valin og ég tel að nú sé ekki ráðrúm til þess að athuga um aðrar leiðir, þó að sjálfsagt sé að taka það með við athugun þessara mála á næsta ári. Hér er aðeins verið að leggja til framlengingu á gjaldi, sem verið hefur í gildi um nokkur ár, og nokkra viðbót við það. Ég tel að það sé nauðsynlegt að hafa þessi mál í athugun hverju sinni og reyna að finna á þeim sem besta lausn.

Varðandi það, sem fram kom hjá hv. þm. Eðvarð Sigurðssyni og komið hefur fram hjá fleiri hv. þm., að hér sé raunar ekki um verðjöfnunargjald að ræða, þá vil ég að það komi fram, að ég tel að með þessu gjaldi megi ná fram nokkurri verðjöfnun, þó að það sé alveg rétt, að sem prósentugjald leiðir það til hærri gjalda á kwst. hjá þeim sem hæst gjald greiða fyrir. En vegna þess að mikill meiri hluti raforkukaupenda greiðir þetta gjald, þá er hægt að beita því til verðjöfnunar, og það er það sem skiptir máli, hvernig á þessu gjaldi er haldið. Ég mun beita mér fyrir því, að það verði notað til þess að lækka verð eða halda niðri, eftir því sem fært er, hækkunum á hinum almennu gjaldtöxtum Rafmagnsveitnanna.