21.12.1978
Efri deild: 47. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1914 í B-deild Alþingistíðinda. (1599)

140. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. minni hl. (Eyjólfur K. Jónsson):

Herra forseti. Það var í upphafi gert samkomulag um það milli ríkisstj. og stjórnarandstöðu, að meginumr. um skattamálin færu fram í hv. Nd. Hins vegar hafði engan órað fyrir því, að Ed. yrði ætlaður svo skammur tími til þessara umr. sem raun er á orðin. Engu að síður höfum við enn sem fyrr reynt að teygja okkur til að auðvelda störf Alþ. við þær aðstæður sem nú hafa ríkt og eru auðvitað með endemum. Við höfum orðið að bíða hér dögum saman horfandi á þá Alþfl.-menn eyða tíma sínum í að reyna að fullnægja sjálfsblekkingarhvöt sinni, sem þeim hefur bærilega tekist að mér sýnist.

Ég hafði ekki hugsað mér að taka upp almenna pólitíska umræðu á þessum fundi, enda mundi þá skammt komast áfram ef við upphæfum miklar almennar umr. um efnahagsmálin. En að gefnu tilefni frá frsm. meiri hl. kemst ég þó ekki hjá að eyða örfáum mínútum að því efni.

Hann sagði að ríkisstj. hefði tekist að auka kaupmátt launþega verulega. Ég get á það fallist, að e.t.v. sé rétt að kaupmáttur sé örlítið hærri þessa dagana en hann mundi hafa orðið ef febrúarlögin hefðu fengið að halda gildi sínu. En ég fellst hins vegar ekki á að það sé neitt sem vera muni til frambúðar. Þá ályktun dró ég af upplýsingum sem t.d. forustumenn Þjóðhagsstofnunar gáfu á fundi hv. fjh.- og viðskn., að það væri verið að reyna nú að halda kaupmætti 4–5% hærri en hann hefði orðið samkv. febrúarlögunum, en það væri engin vissa fyrir því, að það mundi takast. Þessi 4–5% kosta allar þær gífurlegu álögur og tilfærslur í þjóðfélaginu sem við höfum séð, bæði í sept. og svo aftur í des. Skoðun mín er sú, að því miður muni kaupmátturinn verða miklu, miklu lakari fyrir þær aðgerðir, sem búið er að gera og verið er að gera, en hann hefði getað orðið ef ekkert af þessu hefði verið gert, heldur eingöngu búið við aðstæður eins og þær voru á liðnu vori.

Ef hér upphefjast almennar umr. um þetta, þá hljótum við stjórnarandstæðingar auðvitað að taka þátt í þeim og hrek ja gersamlega órökstuddar staðhæfingar eins og þær sem hv. þm. Jón Helgason hélt fram áðan. Hann talaði um að það væri rangnefni að hér væri um skattpíningu að ræða. Mér er næst að halda að þessi hv. þm. sé eini maðurinn á landinu sem blygðunarlaust heldur slíku fram. Það veit landslýður allur, að hér er um meiri skattpíningu að ræða en við Íslendingar höfum áður þekkt, og um það þarf ekkert að deila. En svo kemur hann með þá skýringu, að „kaupránið“, sem svo hefur verið nefnt, annars vegar 1. des, og hins vegar 1. sept., hafi ekki verið neinir smámunir, því að 8%, sem tekin hafi verið af launþegum, hafi létt af atvinnuvegunum 24 milljörðum kr. í launagreiðslum, og viðbótaraðgerðirnar í sept. og þær. sem er verið að gera núna, — mér skildist að allt þetta mundi vera hvorki meira né minna en 50 milljarða kr. kauprán. Það er ekkert smáræði. Og svo bætast allir skattarnir í ofanálag. Þetta eru ekki orð mín, ég bið hv. dm. að taka rækilega eftir því, þetta eru ekki mínar skoðanir, mínar fullyrðingar, — þetta eru fullyrðingar hv. frsm. meiri hl. Hann sagði þetta hér, að aðgerðirnar í des. — 8% — hefðu þýtt það, að atvinnuvegunum hefðu — (JH: Fulltrúi Verslunarráðsins sagði það.) Fulltrúi Verslunarráðsins, nú jæja, við skulum segja að þeir eigi það sammerkt að halda þessu fram, en 50 milljarðana nefndi þó formaður fjh.- og viðskn., en ekki fulltrúi Verslunarráðsins. (JH: Út frá þeirri tölu.) Út frá þeirri tölu. Hann sem sagt fullyrti að „kaupránið“ svonefnda — við skulum hafa það í gæsalöppum — hafi numið 50 milljörðum kr. Það er þó alla vega fullyrðing frsm. meiri hl. og formanns fjh.- og viðskn., því að „út frá þeirri tölu“, segir hann, það var hans fullyrðing, en ekki tala neins manns annars. Og hann sagði: Af þessu mega menn sjá, að það er engin óvild gagnvart atvinnuvegunum. Það er alröng staðhæfing, sagði hann. Þessi ríkisstj. hefur ekki haft minnstu óvild gagnvart atvinnuvegunum. — Og það rökstuddi hann með þessum tölum. Þetta er staðfest og þeir, sem hér voru inni að hlusta á hann, vita þetta allir. Það er ekki hægt að mótmæla þessu. Ég mundi ekki halda því fram, að kaupránið hafi verið svona mikið. En ef út í svona umr. á að fara, þá höldum við auðvitað áfram til kvölds. Þegar gripnar eru gersamlega úr lausu lofti staðhæfingar um að hér sé verið að létta af sköttum og annað í þeim dúrnum og verið að stórauka kaupmátt, þá förum við auðvitað út í tölurnar og efnislegar umr. um þetta allt saman, og þá verður engu þingi frestað á morgun, ég sé ekki fram á það.

En ég var búinn að fallast á að byrja ekki á að upphefja slíkar umr. og mun ekki gera það. Ég mun standa við orð mín þrátt fyrir þessi ummæli. Ég held að það hafi nú kannske ekki verið hugsun þessa ágæta formanns fjh.- og viðskn. að upphefja slíkar umr. Þessi tvö atriði hafa kannske dottið út úr honum. Samstarfið í þessari n. og þessari d. hefur verið með slíkum ágætum að við þurfum kannske ekki að fara mjög mikið að munnhöggvast, en ég komst ekki hjá að svara þessu.

Í einu orði má kannske segja að þessi stefna, sem ríkisstj. hefur markað og við frsm. höfum verið að lýsa — og það er reynt að réttlæta hana með því að nauðsynlegt sé að gera þetta og hitt til þess að veita verðbólgu viðnám, eins og það er kallað — sé svo tvíátta og fálmkennd að verðbólgan muni æða áfram með meiri hraða kannske en áður samhliða minnkandi framkvæmdum, atvinnuleysi og versnandi lífskjörum. Það er sú raunverulega staðreynd sem við sjáum fram á. Og því miður er það sannfæring mín, að svo muni þetta fara, og ég hefði auðvitað mjög gjarnan viljað forða þjóðinni og líka hæstv. ríkisstj. frá því að bera ábyrgð á slíkum ósköpum.

Aðvaranir fyrirsvarsmanna atvinnuveganna, sem hv. frsm. meiri hl. vildi gera lítið úr og taldi nánast að væru út í bláinn, eru ekkert smáar í sniðum. Það kom nefnilega inn á fundinn til okkar bréf frá Sambandi fiskvinnslustöðvanna, sem mun ná til allra greina fiskvinnslunnar á landinu; og meiri hl. vildi yfirleitt ekkert hafa með þá aðvörun að gera frekar en aðra. En þar sem þetta er nýtt skjal og hv. dm. hafa sjálfsagt ekki heyrt það og þjóðin þekkir það sjálfsagt ekki, þó að hún fái það kannske í blöðunum á morgun, þá ætla ég að leyfa mér — með leyfi forseta — að lesa upp.þessa síðustu aðvörun til stjórnarinnar, þó að ég viti raunar að það muni lítinn árangur bera, hún muni berja höfðinu við steininn. En bréf þetta, sem er dags. í dag, hljóðar svo:

„Samband fiskvinnslustöðvanna vill hér með leyfa sér að vekja athygli yðar“ — þetta er stílað til alþm. — á þeirri erfiðu rekstrarstöðu sem fiskvinnslufyrirtæki búa við um þessar mundir.

Samkv. athugun sem Samband fiskvinnslustöðvanna hefur gert, mun tap fiskvinnslunnar í okt. s.l. ekki hafa numið 0.8% af tekjum, eins og opinber gögn greina, heldur milli 3 og 4%. Veldur hér mestu að mati sambandsins hversu fjármagnskostnaður hefur verið vanmetinn. Með launahækkunum þeim, er urðu 1. des. s.l., jókst þetta tap upp í 5–6% af tekjum. Ef að líkum lætur mun fiskverð hækka verulega í janúar n.k., en útgjöld vegna hráefniskaupa eru um helmingur allra útgjalda greinarinnar, og skiptir því miklu hvernig að fiskverðsákvörðun er staðið. Sú mikla verðhækkun sjávarafurða, sem nú hefur orðið í Bandaríkjunum, mun því vart ná að halda í horfinu eða m.ö.o., mun tap fiskvinnslunnar áfram verða milli 5 og 6% þrátt fyrir áætlaða aukningu tekna frystingarinnar um rúm 4%. Vandi saltfisks- og skreiðarframleiðenda yrði mun meiri.

Langvarandi taprekstur fiskvinnslufyrirtækja hefur leitt til sífellt versnandi lausafjárstöðu þeirra og því er afar mikilvægt að allar ákvarðanir, er snerta hag fiskvinnslunnar, verði til að bæta hag greinarinnar, en ekki öfugt.

Rétt er að taka fram, að stjórnvöld hafa nú orðið að hluta við kröfum Sambands fiskvinnslustöðvanna um niðurfellingu aðflutningsgjalda af rekstrarvörum til fiskvinnslunnar. Hins vegar hafa sömu stjórnvöld lagt fyrir Alþ. frumvörp til laga þar sem gert er ráð fyrir að skattar á atvinnufyrirtæki verði stórlega auknir, sérstaklega á framleiðslufyrirtæki.

Með tilvísun til framanritaðs vill Samband fiskvinnslustöðvanna leyfa sér að mótmæla innihaldi tekjuöflunarfrv. ríkisstj. og væntir stuðnings yðar í því máli, þar sem gildistaka þeirra mun hindra eðlilega endurnýjun í atvinnugreininni og þar með nauðsynlega framleiðniaukningu.“ — Síðan er þetta undirskrifað.

Þetta bréf talar auðvitað fyrir sig sjálft. Þetta er meginatvinnuvegur okkar, sem telur að sér sé sérstaklega íþyngt með þessum ráðstöfunum. Þetta er sá atvinnuvegur sem svo annað veifið er sagt að eigi að styrkja með einum hætti og öðrum. En það er eins og ég sagði áðan, að allt er þetta svo fálmkennt og tvíátta að það getur ekki leitt til eins eða neins góðs.

En sem sagt, herra forseti, ég ætla að gera tilraun til þess að umr. falli í það form að við förum ekki út í mjög langa fundi og læt máli mínu lokið.