21.12.1978
Sameinað þing: 40. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1937 í B-deild Alþingistíðinda. (1624)

54. mál, fjárlög 1979

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Að gefnu tilefni vil ég láta eftirfarandi koma fram við þessa fjárlagaumr.: Ég mun í janúarmánuði n.k. láta kanna rækilega í ríkisstj. fram lagðar till. Alþfl. um jafnvægisstefnu í efnahagsmálum svo og till. hinna samstarfsflokkanna um efnahagsmál sem fram hafa komið eða fram kunna að koma. Jafnframt mun ég láta vinna að samantekt frv. um efnahagsmál, byggðs á þeim atriðum, sem fram komu í grg. með frv. til l. um tímabundnar ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu, og öðrum meginmarkmiðum í samstarfsyfirlýsingu núv. stjórnarflokka, svo sem um atvinnuöryggi og kaupmátt launa. Ákvæði þessa frv. skulu við það miðuð að þau nái til tveggja ára. Frv. um þetta efni skal lagt fram í ríkisstj. fyrir 1. febr. n. k. Fylgt verður ákvæðum samstarfsyfirlýsingar um samráð við launþega og vinnuveitendur.

Mér er ljóst ekki síður en öðrum, að ráðstafanir þær, sem gripið hefur verið til og nauðsynlegar hafa verið, fela ekki í sér varanlega lausn á hinum öra verðbólguvexti. Eftir áramótin verður gerð alvarleg tilraun til að finna varanlegri lausn á þeirri meinsemd. Reynslan sker úr því hverjum árangri sú tilraun skilar og hvort um hana næst nægilega víðtækt samkomulag og samstarf. En þetta er verk sem þarf að vinna, hverjir sem svo kunna að sitja ríkisstj. á næsta ári.

Jafnframt vil ég við þessa umr. fjárl. taka fram, að í þinghléi mun ríkisstj. undirbúa aðgerðir til stuðnings og verndar íslenskum iðnaði vegna harðnandi samkeppni í kjölfar tollalækkana um áramótin. Í því sambandi hefur þegar verið unnið talsvert undirbúningsstarf og till, liggja fyrir sem fela bæði í sér almennar og sértækar aðgerðir og fjáröflun til stuðnings við iðnþróun.